Friday, December 31, 2010

Áður en árið líður undir lok

Jæja, 31. desember og ég hef ekki bloggað í langan tíma. Eitt gott ársskeyti til allra bara upp á grínið.

Í ár hélt ég áfram að stunda nám í íþróttafræði hjá HÍ á Laugarvatni. Ég féll í engu á vorönninni og hef sömuleiðis náð öllu haustönninni sem var að ljúka. Fínar einkunnir (sumar betri en aðrar) en ég á að geta betur. Ég er ekki að leggja mig allan fram og verð að standa mig betur. Ég hef nokkrar hugmyndir um hvernig skal gera það og læt vita við seinna tækifæri hvernig gekk.

Laugdælir komust ósigraðir upp úr 2. deildinni síðasta vor og hafa farið heldur illa af stað í 1. deildinni í haust. Við höfum unnið 2 leiki af 9 og erum því botnsætinu ásamt 3 öðrum liðum (Höttur, Ármann og Leiknir).

Ég hef ekki staðið mig sem skyldi og hef ekki bætt mig frá seinasta tímabili. Ég notaði ekki sumarfríið til að koma mér í gott form en er að taka mig á. Mér finnst eins og ég hef ekkert nýtt haustið til neins og ætla að gera betur.

Jólin voru fín, fékk tvær bækur, nærbuxur og flugmiða til Boston ásamt miða á NBA-leik milli Celtics og New Orleans Hornets.

Ég er að fara á leikinn núna og get ekki beðið! Fyrsti NBA-leikurinn sem ég sé! Því miður missi ég af Garnett (hann meiddist sama kvöld og ég lenti í Boston) en Rondo er líklegur til að spila! Við erum reyndar að fara að missa af lestinni! Meira þegar ég kem aftur á eftir!

Tuesday, October 5, 2010

Breakdown 10: Laugdælir

Laugdælir
Laugdælir áttu mjög gott tímabil í fyrra, voru ósigraðir í 15 deildarleikjum og unnu svo alla leikina sína í úrslitakeppninni, þ.á.m. Leikni í úrslitaleiknum. Þeir unnu Hött í 32-liða úrslitum Subway-bikarsins og stóðu í úrvalsdeildarliði Tindastóls í 16-liða úrslitunum, þó að þeir töpuðu fyrir þeim. Aðalmarkmið liðsins er að halda sér uppi í deildinni en það er ekki úr vegi að reyna að stefna á að komast í úrslitakeppnina.

Pétur einhendir bikarinn eftir úrslitaleikinn í fyrra

Pétur Sigurðsson, sem þjálfaði liðið í fyrra, mun vera aftur við stjórnvölinn í ár. Á seinasta ári náði hann frábærum árangri með liðinu og vonast er til að hann nái frábærum árangri aftur á þessu tímabili.

Laugdælir hafa misst nokkra leikmenn frá því í fyrra. Meðal þeirra eru þó nokkrir bakverðir, Jens Guðmundsson, Gísli Pálsson, Snorri Þorvaldsson og Kristinn Ólafsson. Það er vissulega blóðtaka að missa þessa menn en það dugar ekkert að gráta missinn.

Hvíl í friði, þið sem yfirgáfuð okkur

Í staðinn hafa komið inn Oddur Benediktsson og Guðjón Gunnarsson, íþróttafræðinemar við Íþróttakennaraháskólann. Þeir eru vel þegnir og eru að komast inn í flæði liðsins.

Það er ljóst að Laugdælir verða fámennari í ár en þeir voru í fyrra, en þeir verða þá að bíta á jaxlinn, spila fleiri mínútur og halda einbeitingunni allt leiktímabilið.

Að öllu ólöstuðu (meiðsli, forföll o.fl.) ættu Laugdælir að vera í góðri stöðu til að halda sér í 1. deild og gætu hugsanlega komist í úrslitakeppnina ef þeir halda rétt á spilunum (og ef mikilmennskubrjálæði fyrirliðans ríður ekki liðinu til fulls).

Fyrsti leikur á morgun, þá fer þetta af stað og allt kemur í ljós.

Njótið tímabilsins og takk fyrir mig!


- Helgi

Monday, October 4, 2010

Breakdown 9: Ármann

Ármann
Á seinustu leiktíð hafnaði Ármann í 7. sæti undir stjórn Tómasar Hermannssonar. Á þessu ári gæti liðið litið allt öðruvísi út en í fyrra. Mér hefur alltaf þótt Ármann vera hálfgerður suðupottur af reynsluboltum sem koma og fara á leiktímabilinu. Ég byggi þetta reyndar á minningum frá því að ég mætti þeim seinast á árunum 2005-2007 (þó að minnið gæti verið að bregðast mér). Þetta var aldrei lið til að taka með hægindum vegna þess að í röðum þeirra voru vanalega dúndurgóðir leikmenn sem spiluðu þó ekki mikið saman (eða þannig man 18 ára ég eftir þeim).

Í ár verður Tommi áfram með Ármann og ætlar sér að bæta árangurinn frá því í fyrra. Tommi hefur drifið og karakterinn til að keyra mennina sína áfram og það er alls ekki ólíklegt að þeir nái settum markmiðum.

"Ég þarf að skreppa á Ísafjörð, Tommi. Þú þekkir þetta..."

Daði Berg Grétarsson hefur farið á Vestfirði að spila með KFÍ og hefur Ármann þar með misst einn andskoti efnilegan leikmann (14.1 stig, 3.5 fráköst, 3.5 stoðsendingar og 1.5 stolin bolti að meðaltali í 17 leikjum í fyrra).

Halldór Kristmannsson er víst orðinn góður í hnénu en á seinasta tímabili var það víst í maski og hann spilaði bara gegnum það.

Hey, ég líka!

Hann var með 14.4 stig, 4.8 fráköst og hitti 2.9 af 6.1 að meðaltali í þristum. 50% þriggja stiga nýting er ekki slæm tölfræði. Miðað við hvernig hann spilaði á fökkt öpp hnjám (sem er læknisfræðilegt hugtak, ég gáði) í fyrra þá sé ég fyrir mér að hann gæti verið svolítill höfuðverkur fyrir andstæðingana á þessu tímabili.

Ég veit ekki hverjir aðrir verða með Ármanni en það er alveg öruggt að í þeirra röðum verða margir reyndir sem eru tilbúnir að spila og gera hinum liðunum lífið leitt.

Ármann getur bætt sig frá því í fyrra ef flest allt gengur upp hjá þeim, en ég leyfi mér að efast um að þeir komist í úrslitakeppnina. Of margir óvissuþættir til að spá betur fyrir en svo. Kemur í ljós

- Helgi

Breakdown 8: Höttur

Höttur
Höttur fékk skrítinn gálgafrest á þar seinasta leiktímabili þegar þeir sluppu við að falla niður í 2. deild vegna þess að ÍG vildi ekki koma upp í 1. deild. Á seinasta tímabili náðu þeir aðeins að rétta af kútinn (að því leyti að þeir féllu ekki eins og seinast).

Viggó Skúlason hefur tekið við þjálfun meistaraflokksins og Viðar Örn Hafsteinsson hefur snúið aftur á Egilsstaði og mun spila með Hetti ásamt því að þjálfa í yngri flokkum félagsins, nýútskrifaður úr íþróttafræði og með kennararéttindi. Viddi spilaði í fyrra með Hamri og var þar að spila 20 mínútur að meðaltali, skora 6.2 stig og taka 2.7 fráköst að meðaltali í leik ásamt því að nýta 40% af þriggja stiga skotum sínum.

Viddi í öllu sínu veldi

Ágúst Dearborn er farinn annað og Kevin Jolley sömuleiðis, skilst mér. Ég verð að játa að ég veit ekki mikið (lesist: ekki neitt) um Hattarmenn og þeirra hagi.

Ég treysti mér ekki að vera geta mér til um hvernig Höttur á eftir að standa sig en ég held ekki að þeir séu að fara að falla. Þó að það sé bögg fyrir þá að þurfa að fara langa leið fyrir hvern einasta útileik fá þeir alla heimaleiki á móti ferðaþreyttum liðum. Það er enginn brandari að fara til Egilsstaða, þetta gæti allt eins verið á hjara veraldar.

Götuskilti á Egilsstöðum

En að öllu gríni slepptu þá mun Höttur vinna nægilega marga leiki til að falla ekki en ekki nógu marga til að komast í úrslitarimmuna. Viddi og Kaninn (hver sem það verður/er) munu sjá til þess.

- Helgi

Hræsnarinn snýr aftur

Ég er risinn upp úr fori verkefna, fyrirlestra, óskipulags og óreiðu. Það er vanalega ekki svalt að afsaka sig, en í þetta skipti hafði ég bara margt betra við tímann að gera. Ég hef m.a.s. tekið mig til og raðað upp hlutverkum sem ég er í og þurfti að forgangsraða. Bloggið var ekki hátt skrifað, en nú ætla ég að taka smá rykk. Á næstu 36 klst. stefni ég á að kýla út 4-5 greinum (þessi með talin).

Ég ætla að klára Breakdown-séríuna mína og hugsanlega umfjöllun um vináttuleik Los Angeles Lakers og Minnesota Timberwolves sem var spilaður í London í kvöld.

Meðal ástæðna þess að ég hef ekki verið að blogga er að ég hef flutt um herbergi. Flutningurinn var ekki meiri en svo að ég fór yfir ganginn og eitt herbergi til vinstri. Herbergi 24 mun verða sárt saknað.
"Far vel, herbergi 24! Ég mun aldrei gleyma þér..."

Nú hef ég svalir, útsýni yfir Laugarvatn og 1-2 auka fermetra (held ég) fyrir sama pening og í gamla herberginu. Allt í einu sakna ég nr.24 ekki jafn mikið.

Ég man varla númer hvað hitt herbergið var með svona útsýni...

Nýja herbergið er aðeins flottara en gamla þar sem að ég hef hengt upp 99 bottles of beer myndina mína og er líka kominn með töflu úr korki til að skipuleggja mig og setja upp hvað ég þarf að gera. Það er meðal ástæðna þess að ég hef tíma til að blogga í kvöld.

Annars er lítið að frétta.

Heyrðu, nei. Ég var næstum búinn að gleyma að LEIKTÍMABILIÐ HEFST HJÁ LAUGDÆLUM Á MIÐVIKUDAGSKVÖLDIÐ!!!

LAUGDÆLIR - BREIÐABLIK!
6. OKTÓBER (MIÐVIKUDAGINN)!
KL.19:45!

MÆTTU!

"ÉG ER SPENNTUR!!!"

Pís át,
Helgi

Monday, September 13, 2010

Kominn aftur af stað

Afsakið töfina milli skrifa hjá mér, það hefur verið nóg í gangi hér á Vatninu. Fer að skrifa meira hér á næstunni.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að henda inn pistli eldsnöggt var sú að ég er reiður. Ég les ekki mikið af fréttum því að engin blöð fást á Laugarvatni, ekki einu sinni Fréttablaðið, og ég gleymi alltaf að kíkja inn á mbl.is og vísi.is og þess háttar. Mundi þó eftir því í morgun og sá þá fréttina um kúbversku feðgana, sem er mest lesna frétt á mbl.is síðan í morgun. Ég man að ég sá fyrirsögnina fyrir nokkrum dögum en vissi ekki hvað stóð að baki. Hélt að þetta væri mögulega pólitískt eða eitthvað.

Ó nei. 18 ára pilturinn, sem er íslenskur ríkisborgari og hefur búið hér til margra ára, átti "vingott" við íslenska stelpu. Af þeim sökum fengu feðgarnir líflátshótanir, skemmdir voru unnar á heimili þeirra og alls kyns dólgslæti þar í kring.

Þessi er vingóður

Ég á bara ekki til orð. Eru sumir Íslendingar virkilega svona miklir kynþáttahatarar?! Við búum á 21.öldinni en samt eru til menn sem leggja það fyrir sig að dekkri maður gangi um götur Reykjavíkur. Skammarlegt.

Held samt að þetta sé samt líka bara öfundsýki út í þennan "vingóða" dreng og það að hann sé að dúlla sér með þessari stelpu en ekki sá sem er að standa í hótununum og eignaskemmdunum. Leiðinlegt þegar menn fela óöryggi sitt á bak við hluti eins og kynþáttahatur og misrétti gagnvart konum. I'm just sayin'...

Kv.Helgi

Friday, August 27, 2010

Úrskurðurinn kominn

Jæja, þá ætlar víst FIBA að refsa mönnum fyrir þennan slag milli Serba og Grikkja.

Úrskurðurinn hljómar þannig að Nenad Krstič fær þriggja leikja bann ásamt því að vera rukkaður um 45.000 svissneska franka, sem er rúmlega 5 milljón íslenskar krónur. Hann mun því missa af leikjunum gegn Angóla, Þýskalandi og Jórdaníu. Sæmilega vel sloppið að hann missi ekki af mikilvægustu leikjunum en fúlt þetta með sektina. Ojæja, hann hættir kannski að vera svona mikill fantur.
"Þetta var kannski ekkert allt of sniðugt hjá mér..."

Miloš Teodosič, liðsfélagi hans fær tveggja leikja bann (missir af Angóla og Þýskalandi) en fær engar sektir. Aftur á móti fær serbneska körfuboltasambandið sekt upp á 20.000 svissneska franka (u.þ.b. 2,5 milljónir íslenskar).

Grísku liðsmennir Antonis Fotsis og Sofoklis Schortsanitis (vígalegt nafn), a.k.a. "Baby Shaq", fá báðir tveggja leikja bann og missa því af leikjunum við Kína og Púertó Ríkó. Enginn herfilegur missir, en þó einhver. Svo fær gríska körfuboltasambandið sömu sekt og það serbneska, 20.000 svissneskir frankar.

Við sleppum við svona óhugnað í tvo leiki, allavega

Þetta er náttúrulega svolítill peningamissir hjá Krstič og serbneska og gríska körfuboltasambandinu, en mér sýnist bæði liðin geta lifað þetta af og hvorugt þeirra er í hættu með að komast ekki upp úr riðlunum sínum.

Munið svo að fylgjast með Fúsíjama.tv, daglegar greinar um gang HM-mótsins! Þetta hefst allt á morgun kl.13:30!

- Helgi

Wednesday, August 25, 2010

Herbergi 24

Þá er ég fluttur inn og allt komið á sinn stað. Eina sem mig vantar upp á er stærra lak fyrir tvíbreiða rúmið og eitthvað til að fest upp eina mynd og bulletin board (sem ég veit ekki enn hvað ég ætla að nota undir).

Til að sýna hve mikið mál það var að koma herberginu í standið sem það er í núna eru nokkrar "fyrir og eftir" myndir:

Eins og þið sjáið var þetta ekki sérstaklega heillandi í fyrstu
Næstum því tilbúið.
Herbergi 24, gjörið þið svo vel...
Vinnustöðin mín
Finnst þetta sérstaklega sniðugt, hólf fyrir mismunandi hluti
Ímyndið ykkur rúmið með stórt lak og stóra sæng

Lítið við ef þið eruð á Laugarvatni, er alltaf til taks og til í spjall.

Þá
er ég farinn í rúmið, á morgun er annar dagur, önnur kennslustund og önnur körfuboltaæfing.

-Helgi

Sunday, August 22, 2010

Áður en blaðið dettur inn um lúguna

Þá er ég nokkurn veginn búinn að pakka og tilbúinn að leggja af stað á Laugarvatn í fyrramálið. Þetta verður nett. Áður en ég fer að sofa eru nokkrir hlutir sem ber að nefna:
  • FIBA hefur ekki enn látið dóm falla og ég er farinn að efast um að þeir geri það með þessu framhaldi. Það gæti verið að þeir hafi ekki vald til að refsa fyrir þetta atvik þó að þeir vildu það endilega.
  • Ég er ekkert hættur að skrifa greinar á þessari síðu, en það gæti orðið smá bið í þá næstu í ljósi þess að ég er að koma mér fyrir á Vatninu. Sýnið þolinmæði.
  • Fúsíjama.tv er komið af stað á ný. Við ætlum að fjalla um HM 2010 í körfu og fara eins vel yfir keppnina og við getum. Fyrsti pistilinn birtist kl.08:06 í fyrramálið (23.ágúst) og fjallar um liðin í A-riðli.
  • Sá það í úrslitakeppni Sumardeildar KKÍ að Litháar eru rosaleg körfuboltaþjóð. Hendi inn stuttri frásögn af úrslitaleiknum á næstunni.
  • Titill þessarar greinar vísar til þess að ég hef allt of oft heyrt í blaðinu koma inn um lúguna undanfarið, sem er til marks um að ég hef vakað allt of lengi.
Góða nótt, Helgi

Friday, August 20, 2010

Smackdown milli Serba og Grikkja

Jæja, það er strax kominn smá hiti í menn í aðdraganda HM í Tyrklandi. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt af því, þá fór allt til andskotans þegar stutt var eftir af lokaleik Acropolis mótsins í Grikklandi milli serbneska og gríska landsliðsins.

Smá forsaga: Jafn og spennandi leikur. Í byrjun fjórða höfðu Serbar 6 stiga forystu. Svo fékk Ivkovič, þjálfari Serba, aðra tæknivilluna sína og þurfti að yfirgefa salinn. Serbar töpuðu forystunni. Öllum er mjög heitt í hamsi. Þá gerðist það...

Þegar 2:40 voru eftir af leiknum í stöðunni 74-73, Grikkjum í vil, fór allt í háaloft þegar Antonis Fotsis gekk til móts við Miloš Teodosič til að eiga nokkur orð við hann varðandi harða villu. Menn misstu "aðeins" stjórn á skapinu og svo fór sem fór.


Þetta kalla ég meira en "aðeins"...

Af myndbandinu að dæma sé ég ekki annað en að allir hafi misst stjórn á skapinu og tekið rangar ákvarðanir. Svona sá ég þetta:

Röng ákvörðun: Fotsis (hvítur nr.9) að fara svona upp í grillið á Teodosič (blár nr.18)
Röng ákvörðun: Teodosič að stjaka við andliti Fotsis með hnefanum (hann kýldi hann ekki)
Röng ákvörðun: Fotsis að tapa sér yfir stjakinu og reyna að rífa í hausinn á Teodosič
Röng ákvörðun: Liðsmenn Teodosič, með Krstič (blár nr.12) í broddi fylkingar, að blanda sér í málið og rífa í Fotsis aftan frá
Röng ákvörðun: Schortsanitis (hvítur nr.15), kallaður "gríski Shaq", að ráðast á Krstič
Rétt ákvörðun: Menn fara að stía mönnum í sundur þannig að hlutir róist aðeins
Röng ákvörðun: Fotsis ræðst aftur á Teodosič og tekur hann í gólfið
Röng ákvörðun: Gríski Shaq ræðst á Teodosič liggjandi
Röng ákvörðun: Krstič fer að hamra á bakinu á gríska Shaq
Röng ákvörðun: Gríski Shaq fer á eftir Krstič þegar hann byrjar að hörfa
VERSTA ÁKVÖRÐUNIN: Krstič fleygir stól í átt að gríska Shaq en í stað gríska Shaq hittir hann meidda gríska miðherjann (hvít póló skyrta með hendi í gifsi) í höfuðið þannig að hann fær blæðandi höfuðsár.

Ouch...

Vá...

Ég meina....vá...

Nú er spurning hvað FIBA mun gera. Málið er að þetta mót var á vegum Grikklands og eftir því sem mér skilst kom FIBA hvergi nærri skipulagningu þess og skipaði ekki dómara í það. Það gæti útskýrt ýmislegt. Ef dómarnir hefðu verið skárri hefði þetta hugsanlega aldrei gerst (I'm just sayin').

Eins og þetta kom mér fyrir sjónir í myndbandinu voru Krstič, gríski Shaq (nenni ekki að skrifa þetta langa nafn), Fotsis og Teodosič vondu karlarnir í þessum slag. Mér finnst að þeir ættu allir að taka út eins eða tveggja leikja bann, sjá að sér og mæta hressir til leiks að loknu leikbanninu.

Læt vita þegar FIBA-dómurinn fellur.


- Helgi

Thursday, August 19, 2010

Hvað verður um Cleveland?

Allir ræða endalaust um Miami Heat og hvernig Ofurvinirnir munu standa sig (og hvort að það viðurnefni sé málið). Engin virðist þó vilija ræða bitru fyrrverandi, sem var skilin eftir með ekkert nema sárt ennið og nokkra skítsæmilega leikmenn. Spurning sem einhver þyrfti að fara að velta fyrir sér hlýtur því að vera, hvað verður um Cleveland?

Eftir eina mestu blóðtöku í sögu NBA (Chicago Bulls höfðu þó enn Pippen) situr eigandi Cleveland Cavaliers, Dan Gilbert, eftir með $100,000 sekt eftir að hann dissaði Lebron Í MJÖG REIÐILEGU BRÉFI, enga stjörnu og enga von um frama á næstu árum.

Andlit Cleveland á næsta ári virðist ætla að vera Mo Williams og Anderson Varejao, báðir rosalega spennandi leikmenn.
Ég ræð mér ekki fyrir spennu.

Með lið sem hagaði öllu eftir einum leikmanni þá er dálítið mál að missa hann. Kerfin sem þeir spiluðu voru í kringum hann. Öll auglýsingaherferð var í kringum hann. Liðsandinn byrjaði og endaði með honum. Verða þeir áfram dansandi á bekknum í öllum leikjum eða sitjandi með höfuðið milli handanna og að reyna muna hvenær þeir unnu síðast leik?

Byron Scott, fyrrum þjálfari New Orleans Hornets, hefur tekið að sér að þjálfa liðið. Það hefur svo sem lítið að segja sökum þess hvað hann hefur að vinna með; hávaxinn brasilíumann með verstu hárgreiðslu í NBA síðan að Dennis Rodman var og hét, lítinn nagg sem getur hitt þrista en ekki mikið meira en svo og útbrunninn fyrrum All-Star leikmann sem stóð sig hryllilega í fyrra með Cleveland (skoraði meðal annars engin stig í fyrsta leik sínum þrátt fyrir mörg tækifæri).

Eini ljósi punkturinn í allri vitleysunni er hugsanlega J.J. Hickson ásamt því að Cleveland fékk tvo valkosti frá Miami í staðinn fyrir Lebron. Hickson er ungur og efnilegur og fær fleiri mínútur á næsta ári sem að hann nýtir vonandi til þess að verða betri leikmaður. Við réttar aðstæður gæti hann orðið framtíðarleiðtogi liðsins. Valkostirnir tveir tryggja líka að Cleveland fái nóg af nýjum leikmönnum á næstu árum. Þeir verða samt örugglega New Jersey Nets næsta tímabils (sem tryggir þeim svo fleiri valkosti).

Nokkrum dögum fyrir "The Decision" lét greinahöfundur frá Cleveland hafa eftir sér að ef að Lebron færi (hvert svo sem það væri) þá myndi hann fá MVP þriðja árið í röð. Það mun þó ekki verða vegna þess hve aweosome hann er á þessu ári heldur vegna þess hve illa Cleveland á eftir að standa sig án hans. MVP þýðir verðmætasti leikmaður og ef við það eitt að hann fari þá breytist vinningshlutfall liðsins úr 61-21 í 21-61 (sem er líklegt) gefur augaleið að hann fái nafnbótina þriðja árið í röð.

MVP threepeat? Já, takk

Lebron gaf það annars út um daginn að hann myndi ekki gera neitt öðruvísi varðandi Ákvörðunina. Þá hafið þið það.

- Helgi

P.S: Fékk fyrstu skammirnar fyrir pistil hjá mér um daginn. Ég skrifaði eitthvað sem var ekki vel upplýst og tók það því út. Látið mig vita ef eitthvað er vitlaust hjá mér, ég leiðrétti það. Ég er enn að fóta mig í þessu, sýnið smá þolinmæði. Tek fram að þetta eru mínar skoðanir byggðar á því sem ég les á netinu og þar fram eftir götum.

Hafið svo endilega samband ef þið eruð með fréttir sem eru ferskar, hendi þeim inn eins fljótt og auðið er (og ef ég fæ þær staðfestar).

Wednesday, August 18, 2010

Blöööörghhh!

Smá töf á næstu grein, er með heiftarlega gubbupest.

Mynd tekin af mér í morgun

Tuesday, August 17, 2010

Flake í 1.deild

Darrell Flake ætlar að spila með Skallagrím á næsta tímabili. Flake, sem er 193 cm og framherji, hefur átt mikilli velgengni að fagna í úrvalsdeild karla. Hann hefur spilað með KR, Fjölni, Grindavík og Skallagrím. Meðaltöl hans á seinasta ári með Grindavík voru 20.5 stig, 7.3 fráköst og 3.1 stoðsendingar. Harla slæmt fyrir mann að skríða yfir þrítugt.

Fyrir mig persónulega gæti þetta verið einstaklega áhugavert. Ég mun eflaust þurfa að dekka Flake í einhverjum tilfellum og mín reynsla af ungum leikmönnum að verjast gegn útlendingum er ávísun á margar villur. Sumar þeirra gætu vel verið verðskuldaðar, en dómarar vilja í mínum huga oft dæma Bandaríkjamönnum í vil. Einkar óhentugt fyrir jafn prúðan varnarmann og mig (eða þannig).

- Helgi

Monday, August 16, 2010

HM 2010: Argentína

Argentína hefur á seinustu tíu árum verið mjög sterkir og unnið fjölda titla. Þeir hafa verið nefndir Gullna kynslóðin vegna velgengisins og í liðinu hafa ekki verið minni menn en Manu Ginóbili, Luis Scola, Andres Nocioni, Fabricio Oberto, Carlos Delfino, Wálter Herrmann og Pablo Prigioni.

Emanuel "Manu" Ginóbili er talinn einn mikilvægasti körfuboltaleikmaður í sögu Argentínu. Hann hefur unnið NBA titil (2003 með San Antonio Spurs) og er einn af aðeins tveimur mönnum í sögu körfubolta til að hafa unnið NBA titil, gull á Ólympíuleikunum og titil í meistaradeild Evrópu (hinn var Bill Bradley). Því verr og miður verður Manu Ginobili ekki með liðinu í sumar vegna fjölskylduástæðna.

Fjölskylduástæður...segjum það bara...

Í ljósi þess að Manu spilar ekki mun Argentína líta til Luis Scola að leiða liðið, og hann er vel fær um það. Scola, 206 cm hár framherji, spilar fyrir Houston Rockets og hefur verið valinn verðmætasti leikmaður síðustu tveggja Ameríkubikara (2007 og 2009). Hann var með 23.3 stig, 6.8 fráköst og 2.6 stoðsendingar að meðaltali í leik í Ameríkubikarnum 2009 og var lykilmaður á Ólympíuleikunum 2004 og 2008.

Í ár verður Pablo Prigioni sem fyrr honum til halds og trausts. Prigioni, 191 cm hár leikstjórnandi, og Scola mynda eitt besta teymi í Ameríkunum sem átti stóran þátt í farsæld Argentínu undanfarin ár.


Markmið Argentínu í heimsmeistarakeppninni er ekkert annað en að vinna og ég tel að þeir hafi góða möguleika á því.

Sunday, August 15, 2010

Skiptingar á kantinum...

Loksins, loksins. NBA-frétt sem kemur Þráláta þríeykinu á South Beach ekki við.

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég hef ekki fylgst jafn vel með NBA á seinustu árum og ég geri núna, en mér finnst eins og marg-liða skiptingar séu að taka yfir deildina. Nú til dags eru flestar skiptingar (sem ég hef tekið eftir) milli margra liða en ekki bara tveggja.

Fyrir nokkrum dögum skiptu New Jersey Nets, Houston Rockets, Indiana Pacers og New Orleans Hornets á nokkrum leikmönnum.

Klikkaðu á þumalinn til að like-a þetta

Troy Murphy, 210 cm framherji sem getur neglt þrista og frákastað (45% þriggja stiga nýting og 11.8 fráköst að meðaltali í leik tímabilið '08-'09), fer frá Pacers til Nets. Nets skiptu fyrr í sumar Yi Jianlian til Washington og Murphy er margfalt betri útgáfa af Jianlian. Hann er reyndari, harðari af sér og frákastar betur. Hann getur líka dregið stóru mennina úr teignum sem gefur Devon Harris færi á að keyra inn í teig og Brook Lopez fær líka meira ráðrúm til að vinna inn í teignum í sókninni.

Pacers fá í staðinn fyrir Murphy tvo leikmenn, Darren Collison og James Posey frá New Orleans Hornets. Indiana vantar ungan, efnilegan leikstjórnanda og Collison hefur færi á að vera andlit Pacers í framtíðinni. Eins hefur liðið gott af reyndum leikmanni eins og Posey til að rífa upp móralinn.

Ástæðan fyrir því að New Orleans létu þá af hendi er tvíþætt. Í fyrsta lagi þá er Chris Paul kominn aftur og Darren Collison mun því ekki fá jafnmikinn spilatíma. Tveir frábærir leikstjórnendur í sama liði virkar ekki og því er vit í því að skipta honum fyrir einhvern sem að þeir þurfa meira á að halda.

It wasn't meant to be...

Í öðru lagi þá er James Posey með dýran samning og New Orleans vill komast undir launaþakið. New Orleans virðist því vera að stefna á það sem Chris Paul bað þá um, að redda meira hæfileikafólki í liðið, með því að losa sig við samninga Collison og Posey og fá nýjan leikmann í liðið í skiptunum í staðinn.

New Orleans, í staðinn fyrir Collison og Posey, fá Trevor Ariza frá Houston Rockets. Ariza er 203 cm framherji og hörku duglegur varnarmaður sem getur skotið boltanum nokkuð vel (negldi m.a. 40 þrista í úrslitakeppninni 2009 með LA Lakers þegar þeir urðu meistarar). New Orleans er að leita að nýjum og ferskum mönnum eins og Ariza sem getur lagt sitt af mörkum bæði í sókn og vörn.

Houston þurfti að skipta Ariza vegna þess að hann og Aaron Brooks, byrjunarliðs leikstjórnandinn, voru ekki að ná vel saman sem var ekki gott fyrir liðið. Courtney Lee mun því fara frá New Jersey til Houston til að loka lykkju skiptinga milli þessara fjögurra liða. Lee er 195 cm bakvörður sem hefur verið í deildinni í tvö ár. Á nýliðatímabilinu sínu ('08-'09) spilaði hann fyrir Orlando Magic og átti þátt í velgengni þeirra og viðkomu í úrslitarimmunni móti Lakers (þó þeir hafi verið kramdir í 5 leikjum).

Hvað sem Lee reyndi, þá gat hann ekki gefið Kobe high-five

Lee er fín skytta (40% þriggja stiga nýting á fyrsta tímabilinu) og bætti 10 tölfræðilega þætti á milli ára, þ.á.m. vítanýtingu, stuldi, stigaskor og fráköst. Hann er þessi skytta sem Aaron Brooks getur kýlt boltanum út á eftir keyrslu inn í teig eða þessi sem Luis Scola getur sent út á ef hann verður tvídekkaður. Bróðirinn telur svo að Lee sé hugsaður sem arftaki Shane Battier sökum þess hve góður varnarmaður hann er. Litli bró hefur nokkuð góða tilfinningu fyrir þessu þannig að ég reyni vanalega að hlusta á hann.

Þegar skiptingar fara fram vilja menn reyna sjá fyrir sér hvort liðið lætur í minni pokann. Það er aldrei hægt að skilja algerlega að jöfnu.

Það virðist þó vera svo í þessari marg-liða skiptingu. Allir eru að fá eitthvað sem að þeir þurfa og losna við eitthvað sem þeir geta alveg misst. Þetta er eitt af þessum goðsagnarkenndu "win-win situations". Ef ég þyrfti að velja hverjir græða mest á þessu þá myndi ég segja Indiana fyrir það eitt að fá tvo eðal leikmenn (og einn af þeim er Collison) en allir hinir fengu einn í skiptunum.

Big Bird kann að meta þetta

Í öðrum fréttum: Tracy McGrady hefur komist að samkomulagi við Detroit Pistons og Boston Celtics hafa fyrirgert samningi sínum við Rasheed Wallace, sem þýðir að það eru 99% líkur á að hann sé farinn á eftirlaun.

- Helgi

Sumarfríið er búið

Alveg er þetta ótrúlegt, ég skrepp til Ísafjarðar til að slappa af, kem svo til baka og það er allt að gerast!

Mynd tekin á Ísafirði meðan ég var þar

Ég sat þó ekki á mér í fríinu. Ég skrifaði nokkrar greinar og mun birta þær á næstu dögum (dugar ekki að fá allt í einu, það er bara kaos). Það hefur svo mikið gerst að ég tel mig geta lofað einni grein á dag næstu vikuna og ein á hverjum tveimur dögum eftir það.

Þess skal þó geta að allar NBA greinar mínar munu birtast á Fúsíjama.tv en ekki hér eftir nokkrar vikur (síðan er enn að pússa út nokkra hluti). Sömuleiðis mun öll umfjöllun um HM í körfubolta fara þar fram en ég ætla þó að birta eina og eina grein um það hér, þ.á.m. gróf umfjöllun um Argentínu á morgun.

"I sense a disturbance in the Force..."

Svo ætla ég líka að nýta þetta tækifæri til að skíta yfir Körfuna.is fyrir það að gera ekkert annað en að birta leikmannalistana fyrir liðin á HM. Ótrúlegt. Það er svo mikið hægt að skrifa um sum liðin að ég fæ bara í hausinn af því. Lesendur mínir vita allavega hvar almennilegar umfjallanir er að finna.

Fyrir þá sem eru enn í sumarfríi, njótið þess! Fyrir þá sem eru komnir úr sumarfríi þá vona ég að þið nutuð þess! Fyrir þá sem fengu ekkert sumarfrí, ég þekki tilfinninguna!

- Allir góðir hlutir taka enda (sumarfrí, þ.e.a.s.), Helgi

Friday, August 6, 2010

Kraftaverk nútímans

Í heiminum í dag eru mörg hundruð trúfélög og ennþá fleiri sértrúarsöfnuðir. Allir vilja svör við stóru spurningunum og allir þykjast vita betur en næsti maðurinn hver svörin séu. Hvað gerist þegar við deyjum? Hvernig læknast fólk skyndilega af alvarlegum sjúkdómum? Hvernig varð jörðin til?

Trúfélög hafa frá upphafi menningar og til dagsins í dag búið yfir ótrúlegum völdum. Stríð hafa verið háð vegna trúdeilna, menn hafa verið aflífaðir og fólk hefur verið heilaþvegið.

Ég er ekki að ráðast á trúfélög. Mér þykir lítið til margra þeirra koma, en ég hef ekki orku í það gefa þeim skít. Það skiptir líka engu hvaða rök maður notar, trúfélögin láta eins og endur sem hafa fengið yfir sig vatnsgusu. Rök bíta ekki á þau. Það er vegna þess að trú höfðar ekki til huga fylgjenda hennar, heldur hjarta. Rök eru án tilfinninga og kaldar á meðan að blind trú getur yljað þér í köldu svartnættinu. En hún gerir ekkert annað en það. Hún er samt sem áður blind.

Trú leitast við að útskýra hið óútskýranlega. Í fyrstu voru spurningarnar ekki flóknari en svo að fólk vildi vita hvert stóra, bjarta, hlýja kúlan færi á kvöldin. Í heiðinni trú var stóra, bjarta, hlýja kúlan nefnd Sól og var dóttir Mundilfara. Mundilfari átti líka son sem hét...það gæti þó ekki verið...Máni. Nú í dag vita allir að sólin, sem við kölluðum áður stóru, björtu, hlýju kúluna, er stjarna sem við snúumst kringum og tunglið snýst kringum okkur.

Í dag eru allar einföldu spurningarnar komnar. Jörðin er hnöttótt. Þú siglir ekki fram af henni. Þú veikist vegna baktería og veira eða ef eitthvað í líkamanum bilar. Jarðskjálftar eru ekki Loki að kippast til vegna eiturs úr nöðrunni, heldur flekar jarðarinnar að rekast saman eða togast sundur.

Nú í dag vitum við ekki af hverju fólk læknast skyndilega af krabbameini. Sumir telja það vera kraftaverk. Ég tel persónulega að það sé bara eitthvað sem að við höfum ekki uppgötvað í líkamanum sem getur stundum hægt á veikindum eða læknað þau algerlega. Nei, það er ekki ódauðlega sálin þín heldur hugsanlega genamengi sem má skoða og rannsaka og þannig hjálpa fleirum í framtíðinni.

Fyrir 200 árum héldum við að það að tappa lífsnauðsynlegt blóð úr þér læknaði flest mein. Nú í dag er þetta fáranleg hugmynd. Eftir 200 ár mun fólk hugsanlega þykja fáranlegt að við héldum að það væri kraftaverk að fólk læknaðist skyndilega af krabbameini.
"Veistu, ég er bara allur að koma til"

Ég tel mig ekki vera trúleysingja. Ég vil bara ekki trúa einhverju í blindni. Það má vel vera að Guð sé til, ég bara tek því ekki sem vísu. Ég öfunda fólk að geta trúað á Guð án þess að þurfa sönnun. Kunningjar mínir sem trúa á Guð eru vanalega mjög sáttir með tilveruna og ánægðir með lífið. Ég er bara ekki þannig.

"Trúirðu ekki á mig?!" [Lesið með röddu Morgan Freemans]

Lífið er lotterí og allt þetta stóra í lífinu er tilviljanakennt. Góðir menn jafnt sem illir menn geta lent í hremmingum. Ljóninu er sama þó að þú sért grænmetisæta, það étur þig samt.

- Helgi

Thursday, August 5, 2010

Til að friða ykkur

Ég er enn að bíða fregna varðandi liðin sem eiga eftir að fá breakdown hjá mér. Þangað til:

Nýr leikmaður Grindavíkur, Andre "Dre" Smith, er víst einfættur. Það er eitthvað nýtt.

Friday, July 30, 2010

Molar vikunnar

House í Heat
Eddie House hefur skrifað undir samning við Miami Heat upp á $2,800,000 yfir tvö ár. Hann mun hafa verið ráðinn til að gefa liðinu meiri reynslu og dýpt og hann getur gert góða hluti fyrir þetta lið. Eins og flestir muna var hann í Boston Celtics þegar þeir unnu Finals 2008 og hann getur kýlt út góðum fléttum ef þeirra er þörf.

Lorenzen Wright RIP

Í seinustu viku tilkynnti fjölskylda Lorenzen Wright til lögreglu að hann hefði ekki sést eða látið heyra í sér í fjóra daga, sem væri óvenjuleg hegðun hjá honum. Í gær fannst hann látinn í skógi fyrir utan Memphis. Lögreglan er að rannsaka málið og telur að um morð sé að ræða. Wright spilaði 13 ár í NBA, fyrst með LA Clippers, svo Atlanta Hawks, Memphis Grizzlies, Sacramento Kings og að lokum hjá Cleveland Cavaliers. Megi hann hvíla í friði.










Starbury áfram í Kína
Stephon Marbury ætlar að halda áfram að spila körfubolta í Kína. Hann samdi nýlega við kínverskt lið sem ætlar að hjálpa honum að koma af stað íþróttafatalínu sinni, Starbury. Hann spilar á sama tíma fyrir liðið sem leikstjórnandi. Og öllum er sama....

Josh Howard skrifar undir hjá Wizards

Josh Howard hefur skrifað undir eins árs samning við Washington Wizards upp á $4,000,000. Í samningnum eru einhverjar klásúlur sem hann verður að fylgja sem tengjast ábyggilega sjúkraþjálfun hans og því að hann hætti að reykja gras. Ef hann getur fylgt því eftir gæti hann orðið hluti í uppbyggingu Wizards. Vonum að svo sé, hann á nóg eftir í tanknum ef hann getur haldið sig frá meiðslum.








Thursday, July 29, 2010

Breakdown 7: Leiknir

Leiknir
Leiknir komst upp úr 2. deildinni á síðasta tímabili með því að verða í öðru sæti í úrslitakeppninni (tapaði í úrslitaleik fyrir Laugdælum). Takmark þeirra hlýtur að vera að halda sér uppi í ár.

Samkvæmt heimildum mínum mun Ari Gunnarsson þjálfa Leiknismenn á næsta tímabili. Ari spilaði lengi í efstu deildum, þ.a. mest með Skallagrími. Hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá Val í fyrra en ætlar núna væntanlega að vippa Leiknismönnum í form og halda þeim í 1. deild.

Það eru engin brottföll í liði Leiknis (að mér skilst), en nokkrir gætu bæst við. Þau nöfn eru ekki þekkt en heimildir herma að nokkur ný andlit hafi sést á sumaræfingum.

Leikmenn Leiknis frá því í fyrra verða flestir áfram. Helst ber þar að nefna Hallgrím Tómasson, Úlfar Kára Guðmundsson, Hilmi Hjálmarsson, Einar Hansberg Árnason og Daða Stein Sigurðsson.

Í fyrra voru þessir fimm oftast byrjunarliðsmenn og eru allir sterkir í sínum stöðum. Hallgrímur Tómasson, kallaður Halli Boom Boom, hefur verið valinn besti leikmaður Leiknis í nokkur ár og er öflugur framherji. Úlfar Kári er miðherji liðsins, langur (yfir 2 m á hæð), sterkur og mikill sóknarfrákastari. Hilmir Hjálmarsson er orkubolti (af því sem ég sá í úrslitakeppninni) og í góðu formi. Hann er aftur á móti með slæm hné sem gætu gert honum erfitt fyrir í 1. deildinni. Á seinasta tímabili var hann oft ekki í byrjunarliðinu út af hnjánum. Einar Hansberg er leikstjórnandi liðsins og samkvæmt tölfræðinni einn af þessum sem eru allt í öllu (10.4 stig, 4.8 fráköst, 2.8 stoðsendingar og 2.6 stolnir boltar að meðaltali í úrslitakeppninni). Daði Steinn er skotbakvörðurinn og samkvæmt heimildamanni mínum góð þriggja stiga skytta og baneitraður í að stela (þó að tölfræði hans í úrslitakeppninni gefi slíkt ekki til kynna).

Aðrir spámenn í liðinu eru þriggja stiga sérfræðingur liðsins og varaleikstjórnandi, Snorri Fannar Guðlaugsson. Í úrslitakeppninni, þar sem hann spilaði 4 leiki, hitti hann úr 7 af 16 þriggja stiga skotum (43.8% nýting), þ.a. 3 af 5 á móti Laugdælum í riðlakeppninni. Sigurður Gíslason er annar sérstakur. Hann spilar bakvörð en er víst rosalegur frákastari (þrátt fyrir að hann hafi ekki hæðina með sér). Jón Mikael Jónasson, sem var meiddur góðan hluta af seinasta tímabili, verður annar sem kemur sterkur af bekknum.

Í deild sem er jafn öflug og 1. deildin verður á komandi tímabili, þá verða einhver lið að verða í fallsætinu. Ég held að Leiknir eigi eftir að þurfa að sætta sig við fallsætið eftir næsta tímabil. Margir leikmenn Leiknis eru mjög góðir en ef þetta verður svipað lið og í fyrra þá munu þeir falla. Annað hvort verður Ari Gunnars þjálfari að koma með nýjar áherslur og hugmyndir eða þeir þurfa einfaldlega betri leikmenn (hugsanlega útlending). Ég spái Leikni botnsætinu.

- Helgi

Sunday, July 25, 2010

Breakdown 6: Valur

Valur
Valur stóð sig vel í 1. deildinni í fyrra en náðu ekki að slútta tímabilinu eins og þeir hefðu viljað. Þeir luku deildarkeppninni með 12 sigra í 18 leikjum (vinningshlutfall 0.667) og tóku því þátt í úrslitakeppninni um lausa sætið upp í úrvalsdeild. Þeir byrjuðu á því að afgreiða Skallagrím í Vodafonehöllinni en svo tapa á móti þeim á útivelli. Þeir náðu þó að vinna oddaleikinn 84-77 og héldu því áfram í keppninni og mættu Haukum. Valur tapaði báðum leikjum (88-69 og 73-82). Þeir þurfa því að taka sig saman í andlitinu og líta til næsta tímabils.

Yngvi Gunnlaugsson verður sem fyrr þjálfari þeirra á næsta tímabili og leggur áherslu á að hann vilji ekki leggja neina pressu á leikmenn sína.

,,Ég vil ekki að neinn leikmaður beri þetta eins og myllustein um hálsinn, að komast upp í úrvalsdeild eða ekki.“

Páll Fannar Helgason, sem vann titil með Snæfell á seinasta tímabili, hefur skrifað undir hjá Val. Tölfræði hans frá því í fyrra (2.6 stig, 0.7 fráköst og 0.7 stoðsendingar að meðaltali) er ekki mjög tilkomumikil en hann var að fá takmarkaðar mínútur hjá meistaraliði Snæfells. Nú er annað í boði. Hann verður líklega byrjunarliðsmaður og sjötti maður í versta falli. Páll Fannar ætlar væntanlega að gera góða hluti á næsta tímabili og hefur alla burði til að verða lykilmaður hjá Val.

Ekki er enn ljóst hvort Hörður Hreiðarsson verður með á næsta tímabili en Yngvi þjálfari er vongóður. Hörður var nokkuð góður á seinastu leiktíð (12.6 stig, 5.3 fráköst og 1.7 stoðsendingar að meðaltali) en sýndi einstaka takta í úrslitakeppninni (18.8 stig, 8.0 fráköst og 1.8 stoðsendingar að meðaltali í fimm leikjum). Á sumum spjallborðum eru menn að tala um að Hörður sé á leið til Ármanns en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sömuleiðis er óljóst hvort að Byron Davis (21.2 stig, 6.3 fráköst og 4.0 stoðsendingar að meðaltali) snúi aftur.

Bekkurinn hjá Val er ekki slæmur miðað við aðra og má þar t.d. nefna þó nokkra fyrrum unglingalandsliðsmenn (Snorri Páll, Pétur Þór og Toggi), Guðmund Kristjánsson og Guðmund Ásgeirsson og Sigurður Friðrik Gunnarsson (gamall Keflvíkingur sem heldur uppi sæmilegari fréttaveitu á YouTube um allt sem kemur að körfubolta kringum Keflavík) en það er ekki endilega nóg.

Það sem vefst mest fyrir mér er sú staðreynd að Yngvi þjálfari er að sjá um bæði karla- og kvennalið Vals sem eru bæði í 1.deild. Þó að hann fái hjálp frá aðstoðarþjálfurum sínum (Lýður Vignisson hjálpar með strákana og Hafdís Helgadóttir með stelpurnar) þá veit ég ekki hvort að hann fái þá endilega það allra besta úr báðum liðum.

Með nokkrum góðum leikmönnum í viðbót eða tveimur útlendingum í stað eins þá gæti Valur verið á leið upp, en með liðið í núverandi mynd og þjálfara skipt milli tveggja liða þá ættu þeir ekki að búast við þeirri niðurstöðu.

- Helgi

Wednesday, July 21, 2010

Aukaleikarar Miami Heat

Miami Heat liðið er komið fyrir árið 2010-2011. Eftir nokkrar vikur af óvissu og tilfærslum er búið að þjappa á bekkinn. Samningar hafa verið staðfestir, skjalfestir og þinglýstir. Allir og ömmur þeirra hafa lýst sínum skoðunum á þessu og nú er komið að mér.

"Hvað er málið með þennan Lebron?"

Eftir að Wade, Bosh og Lebron ákváðu að leiða saman hesta sína og löðrunga NBA-deildina næstu árin þá fóru menn að leitast eftir að ganga í raðir Miami og taka þátt í leitinni að The One Ring. Það má þó aldrei gleyma stuðningsmönnunum. Þrír menn vinna ekki titil. Hérna eru helstu spámenn og klappstýrur liðsins.

Udonis Haslem (nr.40) var meðal þeirra fyrstu til að ganga (aftur) í raðir Miami. Haslem á sér nokkuð sérstaka sögu. Hann var ekki valinn í nýliðavalinu 2002 og fór þá til Frakklands að spila í eitt ár. Árið eftir skrifaði hann undir hjá Heat og hefur verið þar allar götur síðan. Hann hefur verið fyrirliði Heat síðustu þrjú tímabilin (eða öllu heldur co-captain með Wade) og er hjarta liðsins. Haslem og Wade eru nánir vinir og komu einmitt inn í deildina á sama tíma og hafa verið liðsfélagar í 7 ár. Það kom því ekkert annað til greina en að hann sneri aftur.

Mike Miller (nr."?") var einn sá fyrsti til að vera nefndur sem leikmaður sem Heat vildu fá í sínar raðir. Lebron og Wade geta alveg hitt úr þristum, en Miller er sérfræðingur. Hann var með 48% þriggja stiga nýtingu í fyrra hjá Washington og ég tel að hann eigi eftir að bæta þetta hlutfall. Hann fær ábyggilega ekkert nema opin skot fyrst að vörnin verður ávallt að þjappa og bregðast við Þráláta Þríeykinu (copyright pending). Bíðið bara, ég spái 55% þriggja stiga nýtingu á komandi tímabili. Eins og ég bjóst við fær hann í kringum $5,000,000 á ári ($25,000,000 fimm ára samningur, do the math). Þess má geta að hann og Haslem eru báðir fyrrum liðsfélagar úr háskólanum í Flórída. Það hefur haft eitthvað að segja í ákvörðun þeirra beggja.

Zydrunas Ilgauskas (nr.11) sá í hvað stefndi hjá Cleveland og ákvað að taka saman föggur sínar og redda sér titli í sólinni. Hann er púsluspilið sem vantaði í byrjunarlið Miami og mun gera það sem þarf til að vinna leiki: frákasta og þvælast ekki fyrir þremenningunum. Nú hefur Heat stóra manninn sinn. Hann mun þurfa að sætta sig við launalækkun ásamt því að skora minna, en hey, hann er þó ekki skósveinn Shaq lengur.

Mario Chalmers (nr.15) og Carlos Arroyo (nr.30) eru í dálítilli óvissu þessa dagana. Þeir eru pure leikstjórnendur en gætu verið að fara taka sæti á bekknum fyrir mönnum eins og Lebron og hugsanlega Wade í byrjun leikja og í lok þeirra. Hvort að Chalmers og Arroyo byrji inn á í stað Miller fer eftir hver þeirra eigi besta undirbúningstímabilið, held ég.

Rumarnir - Joel Anthony (nr.50), Juwan Howard (nr.5), Jamaal Magloire (nr.21) og Dexter Pittman (nr.54) eru allir stórir menn sem munu gisja bekkinn. Manni gæti þótt þetta vera frekar skrítið að hafa svona marga leikmenn sem eru allir kringum 2.10 m á hæð og eru allir miðherjar. En þegar þú pælir í því þá eru þrír menn í liðinu sem geta spilað og munu spila 40 mínútur að meðaltali í leik. Það þýðir að góður hluti skiptinga verða á stóru mönnunum og öðru hvoru milli Miller, Chalmers og Arroyo. Magloire og Howard hafa reynsluna (10 og 16 ár í deildinni), Joel Anthony er varnarsinnaður blokkari og Dexter Pittman er ungur, þungur (131 kg) og efnilegur.

Rumarnir: Magloire, Howard, Anthony og Pittman

James Jones (nr.22), varamaður Heat og skítsæmileg skytta (36,5% þriggja stiga nýting undanfarin tvö ár hjá Miami), verður svo einn af þeim sem mun vera að berjast um 12. sætið á bekknum við Pittman og Magloire.

Bónus: Anfernee "Penny" Hardaway?!?!
Penny Hardaway (39 ára) hefur lýst yfir áhuga á að snúa aftur í NBA og reyna við að komast í liðið hjá Miami Heat. Hann hætti í NBA árið 2007 vegna slæmra hnjáa. Hann segir að hann sé skárri í hnjánum og sé núna að spila körfubolta 5 sinnum í viku. Hann gerir sér grein fyrir að hann fái litlar eða engar mínútur en hann er tilbúinn að vera rödd reynslunnar í búningsklefanum og á bekknum. En sú fórnfýsi. Þetta hefur ábyggilega ekkert með það að gera að hann hefur aldrei unnið titil og vilji komast í sögubækurnar með allavega einn titil í farteskinu. Örugglega ekki...

"Drullaðu þér út, Penny"

Pat Riley segir að hann ætlar alls ekki að þjálfa Miami á þessu ári. Hann er búinn að andmæla gróusögunum svo lengi að ég held að hann sé að segja satt. Eða hvað....

"Hvað er þetta, trúið þið mér ekki?"

Miami er að fara eiga gott tímabil ef Þráláta þríeykinu tekst að spila saman og ef Lebron verður ekki púaður af leikvellinum þegar þeir spila í New York-borg, Cleveland, Chicago, Los Angeles og hugsanlega á nokkrum öðrum stöðum. Spái ekki færri sigrum en 50 og ekki fleiri en 60.

- Helgi