Sunday, July 25, 2010

Breakdown 6: Valur

Valur
Valur stóð sig vel í 1. deildinni í fyrra en náðu ekki að slútta tímabilinu eins og þeir hefðu viljað. Þeir luku deildarkeppninni með 12 sigra í 18 leikjum (vinningshlutfall 0.667) og tóku því þátt í úrslitakeppninni um lausa sætið upp í úrvalsdeild. Þeir byrjuðu á því að afgreiða Skallagrím í Vodafonehöllinni en svo tapa á móti þeim á útivelli. Þeir náðu þó að vinna oddaleikinn 84-77 og héldu því áfram í keppninni og mættu Haukum. Valur tapaði báðum leikjum (88-69 og 73-82). Þeir þurfa því að taka sig saman í andlitinu og líta til næsta tímabils.

Yngvi Gunnlaugsson verður sem fyrr þjálfari þeirra á næsta tímabili og leggur áherslu á að hann vilji ekki leggja neina pressu á leikmenn sína.

,,Ég vil ekki að neinn leikmaður beri þetta eins og myllustein um hálsinn, að komast upp í úrvalsdeild eða ekki.“

Páll Fannar Helgason, sem vann titil með Snæfell á seinasta tímabili, hefur skrifað undir hjá Val. Tölfræði hans frá því í fyrra (2.6 stig, 0.7 fráköst og 0.7 stoðsendingar að meðaltali) er ekki mjög tilkomumikil en hann var að fá takmarkaðar mínútur hjá meistaraliði Snæfells. Nú er annað í boði. Hann verður líklega byrjunarliðsmaður og sjötti maður í versta falli. Páll Fannar ætlar væntanlega að gera góða hluti á næsta tímabili og hefur alla burði til að verða lykilmaður hjá Val.

Ekki er enn ljóst hvort Hörður Hreiðarsson verður með á næsta tímabili en Yngvi þjálfari er vongóður. Hörður var nokkuð góður á seinastu leiktíð (12.6 stig, 5.3 fráköst og 1.7 stoðsendingar að meðaltali) en sýndi einstaka takta í úrslitakeppninni (18.8 stig, 8.0 fráköst og 1.8 stoðsendingar að meðaltali í fimm leikjum). Á sumum spjallborðum eru menn að tala um að Hörður sé á leið til Ármanns en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sömuleiðis er óljóst hvort að Byron Davis (21.2 stig, 6.3 fráköst og 4.0 stoðsendingar að meðaltali) snúi aftur.

Bekkurinn hjá Val er ekki slæmur miðað við aðra og má þar t.d. nefna þó nokkra fyrrum unglingalandsliðsmenn (Snorri Páll, Pétur Þór og Toggi), Guðmund Kristjánsson og Guðmund Ásgeirsson og Sigurður Friðrik Gunnarsson (gamall Keflvíkingur sem heldur uppi sæmilegari fréttaveitu á YouTube um allt sem kemur að körfubolta kringum Keflavík) en það er ekki endilega nóg.

Það sem vefst mest fyrir mér er sú staðreynd að Yngvi þjálfari er að sjá um bæði karla- og kvennalið Vals sem eru bæði í 1.deild. Þó að hann fái hjálp frá aðstoðarþjálfurum sínum (Lýður Vignisson hjálpar með strákana og Hafdís Helgadóttir með stelpurnar) þá veit ég ekki hvort að hann fái þá endilega það allra besta úr báðum liðum.

Með nokkrum góðum leikmönnum í viðbót eða tveimur útlendingum í stað eins þá gæti Valur verið á leið upp, en með liðið í núverandi mynd og þjálfara skipt milli tveggja liða þá ættu þeir ekki að búast við þeirri niðurstöðu.

- Helgi

2 comments:

Anonymous said...

I would like to exchange links with your site helgihelgi.blogspot.com
Is this possible?

helgihelgi said...

it might be if knew who you were...and why you'd like to exchange links with a site written exclusively in Icelandic...