Leiknir

Samkvæmt heimildum mínum mun Ari Gunnarsson þjálfa Leiknismenn á næsta tímabili. Ari spilaði lengi í efstu deildum, þ.a. mest með Skallagrími. Hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá Val í fyrra en ætlar núna væntanlega að vippa Leiknismönnum í form og halda þeim í 1. deild.
Það eru engin brottföll í liði Leiknis (að mér skilst), en nokkrir gætu bæst við. Þau nöfn eru ekki þekkt en heimildir herma að nokkur ný andlit hafi sést á sumaræfingum.
Leikmenn Leiknis frá því í fyrra verða flestir áfram. Helst ber þar að nefna Hallgrím Tómasson, Úlfar Kára Guðmundsson, Hilmi Hjálmarsson, Einar Hansberg Árnason og Daða Stein Sigurðsson.
Í fyrra voru þessir fimm oftast byrjunarliðsmenn og eru allir sterkir í sínum stöðum. Hallgrímur Tómasson, kallaður Halli Boom Boom, hefur verið valinn besti leikmaður Leiknis í nokkur ár og er öflugur framherji. Úlfar Kári er miðherji liðsins, langur (yfir 2 m á hæð), sterkur og mikill sóknarfrákastari. Hilmir Hjálmarsson er orkubolti (af því sem ég sá í úrslitakeppninni) og í góðu formi. Hann er aftur á móti með slæm hné sem gætu gert honum erfitt fyrir í 1. deildinni. Á seinasta tímabili var hann oft ekki í byrjunarliðinu út af hnjánum. Einar Hansberg er leikstjórnandi liðsins og samkvæmt tölfræðinni einn af þessum sem eru allt í öllu (10.4 stig, 4.8 fráköst, 2.8 stoðsendingar og 2.6 stolnir boltar að meðaltali í úrslitakeppninni). Daði Steinn er skotbakvörðurinn og samkvæmt heimildamanni mínum góð þriggja stiga skytta og baneitraður í að stela (þó að tölfræði hans í úrslitakeppninni gefi slíkt ekki til kynna).

Í deild sem er jafn öflug og 1. deildin verður á komandi tímabili, þá verða einhver lið að verða í fallsætinu. Ég held að Leiknir eigi eftir að þurfa að sætta sig við fallsætið eftir næsta tímabil. Margir leikmenn Leiknis eru mjög góðir en ef þetta verður svipað lið og í fyrra þá munu þeir falla. Annað hvort verður Ari Gunnars þjálfari að koma með nýjar áherslur og hugmyndir eða þeir þurfa einfaldlega betri leikmenn (hugsanlega útlending). Ég spái Leikni botnsætinu.
- Helgi
No comments:
Post a Comment