Friday, August 20, 2010

Smackdown milli Serba og Grikkja

Jæja, það er strax kominn smá hiti í menn í aðdraganda HM í Tyrklandi. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt af því, þá fór allt til andskotans þegar stutt var eftir af lokaleik Acropolis mótsins í Grikklandi milli serbneska og gríska landsliðsins.

Smá forsaga: Jafn og spennandi leikur. Í byrjun fjórða höfðu Serbar 6 stiga forystu. Svo fékk Ivkovič, þjálfari Serba, aðra tæknivilluna sína og þurfti að yfirgefa salinn. Serbar töpuðu forystunni. Öllum er mjög heitt í hamsi. Þá gerðist það...

Þegar 2:40 voru eftir af leiknum í stöðunni 74-73, Grikkjum í vil, fór allt í háaloft þegar Antonis Fotsis gekk til móts við Miloš Teodosič til að eiga nokkur orð við hann varðandi harða villu. Menn misstu "aðeins" stjórn á skapinu og svo fór sem fór.


Þetta kalla ég meira en "aðeins"...

Af myndbandinu að dæma sé ég ekki annað en að allir hafi misst stjórn á skapinu og tekið rangar ákvarðanir. Svona sá ég þetta:

Röng ákvörðun: Fotsis (hvítur nr.9) að fara svona upp í grillið á Teodosič (blár nr.18)
Röng ákvörðun: Teodosič að stjaka við andliti Fotsis með hnefanum (hann kýldi hann ekki)
Röng ákvörðun: Fotsis að tapa sér yfir stjakinu og reyna að rífa í hausinn á Teodosič
Röng ákvörðun: Liðsmenn Teodosič, með Krstič (blár nr.12) í broddi fylkingar, að blanda sér í málið og rífa í Fotsis aftan frá
Röng ákvörðun: Schortsanitis (hvítur nr.15), kallaður "gríski Shaq", að ráðast á Krstič
Rétt ákvörðun: Menn fara að stía mönnum í sundur þannig að hlutir róist aðeins
Röng ákvörðun: Fotsis ræðst aftur á Teodosič og tekur hann í gólfið
Röng ákvörðun: Gríski Shaq ræðst á Teodosič liggjandi
Röng ákvörðun: Krstič fer að hamra á bakinu á gríska Shaq
Röng ákvörðun: Gríski Shaq fer á eftir Krstič þegar hann byrjar að hörfa
VERSTA ÁKVÖRÐUNIN: Krstič fleygir stól í átt að gríska Shaq en í stað gríska Shaq hittir hann meidda gríska miðherjann (hvít póló skyrta með hendi í gifsi) í höfuðið þannig að hann fær blæðandi höfuðsár.

Ouch...

Vá...

Ég meina....vá...

Nú er spurning hvað FIBA mun gera. Málið er að þetta mót var á vegum Grikklands og eftir því sem mér skilst kom FIBA hvergi nærri skipulagningu þess og skipaði ekki dómara í það. Það gæti útskýrt ýmislegt. Ef dómarnir hefðu verið skárri hefði þetta hugsanlega aldrei gerst (I'm just sayin').

Eins og þetta kom mér fyrir sjónir í myndbandinu voru Krstič, gríski Shaq (nenni ekki að skrifa þetta langa nafn), Fotsis og Teodosič vondu karlarnir í þessum slag. Mér finnst að þeir ættu allir að taka út eins eða tveggja leikja bann, sjá að sér og mæta hressir til leiks að loknu leikbanninu.

Læt vita þegar FIBA-dómurinn fellur.


- Helgi

No comments: