Friday, August 6, 2010

Kraftaverk nútímans

Í heiminum í dag eru mörg hundruð trúfélög og ennþá fleiri sértrúarsöfnuðir. Allir vilja svör við stóru spurningunum og allir þykjast vita betur en næsti maðurinn hver svörin séu. Hvað gerist þegar við deyjum? Hvernig læknast fólk skyndilega af alvarlegum sjúkdómum? Hvernig varð jörðin til?

Trúfélög hafa frá upphafi menningar og til dagsins í dag búið yfir ótrúlegum völdum. Stríð hafa verið háð vegna trúdeilna, menn hafa verið aflífaðir og fólk hefur verið heilaþvegið.

Ég er ekki að ráðast á trúfélög. Mér þykir lítið til margra þeirra koma, en ég hef ekki orku í það gefa þeim skít. Það skiptir líka engu hvaða rök maður notar, trúfélögin láta eins og endur sem hafa fengið yfir sig vatnsgusu. Rök bíta ekki á þau. Það er vegna þess að trú höfðar ekki til huga fylgjenda hennar, heldur hjarta. Rök eru án tilfinninga og kaldar á meðan að blind trú getur yljað þér í köldu svartnættinu. En hún gerir ekkert annað en það. Hún er samt sem áður blind.

Trú leitast við að útskýra hið óútskýranlega. Í fyrstu voru spurningarnar ekki flóknari en svo að fólk vildi vita hvert stóra, bjarta, hlýja kúlan færi á kvöldin. Í heiðinni trú var stóra, bjarta, hlýja kúlan nefnd Sól og var dóttir Mundilfara. Mundilfari átti líka son sem hét...það gæti þó ekki verið...Máni. Nú í dag vita allir að sólin, sem við kölluðum áður stóru, björtu, hlýju kúluna, er stjarna sem við snúumst kringum og tunglið snýst kringum okkur.

Í dag eru allar einföldu spurningarnar komnar. Jörðin er hnöttótt. Þú siglir ekki fram af henni. Þú veikist vegna baktería og veira eða ef eitthvað í líkamanum bilar. Jarðskjálftar eru ekki Loki að kippast til vegna eiturs úr nöðrunni, heldur flekar jarðarinnar að rekast saman eða togast sundur.

Nú í dag vitum við ekki af hverju fólk læknast skyndilega af krabbameini. Sumir telja það vera kraftaverk. Ég tel persónulega að það sé bara eitthvað sem að við höfum ekki uppgötvað í líkamanum sem getur stundum hægt á veikindum eða læknað þau algerlega. Nei, það er ekki ódauðlega sálin þín heldur hugsanlega genamengi sem má skoða og rannsaka og þannig hjálpa fleirum í framtíðinni.

Fyrir 200 árum héldum við að það að tappa lífsnauðsynlegt blóð úr þér læknaði flest mein. Nú í dag er þetta fáranleg hugmynd. Eftir 200 ár mun fólk hugsanlega þykja fáranlegt að við héldum að það væri kraftaverk að fólk læknaðist skyndilega af krabbameini.
"Veistu, ég er bara allur að koma til"

Ég tel mig ekki vera trúleysingja. Ég vil bara ekki trúa einhverju í blindni. Það má vel vera að Guð sé til, ég bara tek því ekki sem vísu. Ég öfunda fólk að geta trúað á Guð án þess að þurfa sönnun. Kunningjar mínir sem trúa á Guð eru vanalega mjög sáttir með tilveruna og ánægðir með lífið. Ég er bara ekki þannig.

"Trúirðu ekki á mig?!" [Lesið með röddu Morgan Freemans]

Lífið er lotterí og allt þetta stóra í lífinu er tilviljanakennt. Góðir menn jafnt sem illir menn geta lent í hremmingum. Ljóninu er sama þó að þú sért grænmetisæta, það étur þig samt.

- Helgi

2 comments:

Siggihaff said...

Heimspekilegt blogg hjá þér gamli. Vil samt segja að ég var afdráttarlaus trúleysingi, þangað til fyrir nokkru, þegar ég uppgötvaði að Guð og Biblían.. þetta er ekkert annað bara lífsreglur ef maður les milli línanna. Maður getur notað þetta við allt mögulegt. Maður til dæmis nennir ekki að laga til í herberginu sínu, þá leitar maður í þetta og hvað segir þetta, vertu þakklátur fyrir að eiga herbergi. menn taka alltof mörgu sem sjálfgefnu í þessum heimi.

Farðu svo að láta heyra í þér drengur, er alltaf með símann á mér

helgihelgi said...

Ég á öðru hvoru í mér svona heimspekilegheit. Annars er ég sammála þér varðandi lífsreglu-pælinguna. Minnir meira að segja að ég hafi bloggað um þetta fyrir löngu.
http://helgihelgi.blogspot.com/2007/08/gu-er-dauur-vi-drpum-hann-vi-ll.html