Friday, July 2, 2010

Breakdown 3: Skallagrímur [Uppfært]

Skallagrímur
Skallagrímur varð í 4. sæti í 1. deildinni á seinasta ári með 12 unna leiki af 18 (vinningshlutfall 0.667). Þeir komust því í úrslitakeppnina en töpuðu fyrir Val í oddaleik í undanúrslitunum.

Pálmi Þór Sævarsson mun þjálfa Skallagrím á næsta ári. Hann hefur spilað með Skallagrím í mörg ár en mun einungis vera í þjálfara hlutverkinu núna. Hann hefur þjálfað til margra ára í yngri flokkum Skallagríms og ég held að hann geti náð góðri útkomu með liðinu í ár. Óstaðfestar heimildir mínar herma að hann hafi mann úti að leita að erlendum leikmanni sem getur líka verið góður kennari og fyrirmynd fyrir yngri leikmenn liðsins. Mikill metnaður í gangi, kann að meta það.

Leikmannahópurinn verður nokkuð breyttur á næsta ári. Talsverðar líkur (þ.e.a.s. næstum 100%) eru á að Siggi Þórarins og Trausti Eiríks yfirgefi liðið og haldi í bæinn. Konrad Tota var ekki efni í góðan þjálfara og er ólíklegt að hann snúi aftur sem leikmaður (samkvæmt mínum heimildum). Silver Laku er spurningamerki. Í staðinn fyrir þá hefur Halldór Gunnar Jónsson gengið í raðir liðsins. Halldór er góð skytta (16.8 stig að meðaltali og 36% nýting í þristum) sem kemur úr röðum ÍA og mun skila sínu fyrir liðið á næsta tímabili. Einar Ólafsson úr Reykdælum á líka að vera genginn í liðið. Ég fann ekkert um Einar Ólafsson annað en það að hann var víst í æfingahóp U-16 landsliðsins árið 2005. Karfan.is hefur ekkert að segja um hann nema að hann er bráðefnilegur, sem segir í raun ekki neitt.

UPPFÆRT (15. júlí): Trausti, Siggi, Konrad Tota og Silver Laku spila ekki með Skallagrími. Tota er farinn til Þór Akureyris að vera spilandi þjálfari.

UPPFÆRT (15. ágúst): Darrell Flake hefur samið við Skallagrím og mun spila með þeim á næsta tímabili.

Hafþór Ingi hefur endurnýjað samninginn sinn og Óðinn Guðmundsson sömuleiðis. Haffi verður mjög mikilvægur fyrir liðið á næsta ári (13.8 stig, 5.2 fráköst, 4.8 stoðsendingar og 2.0 stolnir boltar að meðaltali á seinustu leiktíð) og hann mun alveg ráða við það, tel ég. Af tölfræði seinasta tímabils að dæma þá er Óðinn lítið annað en búkur á vellinum (15.2 mín, 2.1 stig og 1.3 fráköst að meðaltali á seinustu leiktíð). Kannski er hann í svörtu vinnunni eða er skrímsli í vörninni, ég veit það ekki. Kannski springur hann út á þessu ári. Sjáum bara til. Annars er hellingur af leikmönnum úr yngri flokkunum að fara koma upp (5 ungir og efnilegir skrifuðu undir fyrir nokkrum dögum) og einn úr drengjaflokki ÍA er líka genginn í Skallagrím.

Skallagrímur er dálítið spurningamerki fyrir þessa leiktíð. Þeir hafa misst 4 af 5 byrjunarliðsmönnum sínum en hafa næga leikmenn á bekknum sem gætu verið reiðubúnir að taka að sér nokkuð stærra hlutverk í liðinu. Þeir gætu fallið eða þeir gætu orðið meðal þriggja efstu. Kemur í ljós.

- Nýkominn af síðustu næturvaktinni minni, Helgi

No comments: