Tuesday, December 16, 2008

Mestur og bestur...?

Ég veit ekki afhverju ég fór að pæla í þessu, en er hægt að vera bestur í heimi á öllum minni svæðum? Hljómar asnalega, en hlustið á þetta....

Segjum að ég sé bestur í því að flauta, sem dæmi. Ég, Helgi Hrafn, er besti flautari í heimi. Er ég þar með bestur á öllum minni svæðum? Ef að Leirmundur Zóphónías er besti flautari á Akureyri er það ekki einfaldlega vegna þess að ég, sá besti í heimi, er ekki þar? Hvað ef ég fer þar í gegn á einhverri heimsreisu? Er Leirmundur ekki lengur besti flautarinn á Akureyri meðan ég er þar eða verður hann þaðan af ekkert nema sæmilegur vegna þess að ég átti leið hjá Akureyri?

Ég er örugglega besti flautari í Kópavogi þar sem að ég er þaðan, og sömuleiðis á öllu höfuðborgarsvæðinu. En hvað með einhvern sem gefur sig út fyrir að vera besta flautara Hafnarfjarðar? Hann lýgur því örugglega ekki, en ef ég færi til Hafnarfjarðar væri ég bestur.

Þessi hugleiðing var í boði Helga, svefnleysis og almenns fíflaháttar.

Besti flautari í heimi,
Helgi Hrafn

Öll erum við Megas...

Datt niður á skemmtilega grein á netinu núna áðan þar sem mjög áhugaverðari spurningu er svarað: Ef að ég á 2 foreldra, 2 afa og 2 ömmur, 4 langaafa og 4 langaömmur og þannig séð milljarða ættingja 30 kynslóðir í fortíðinni, afhverju var ekki það mikið fólk til 1000 árum f.Kr?

Svarið? Því að ef að þú ferð nógu langt aftur í ættartrénu fer það að mynda demant. Sifjaspell er algengara en þið haldið. Lesið greinina ef þið nennið, en hún segir basically að með tilliti til tvífara í ættartrénu (þ.e.a.s. ef þú eignast barn með systur þinni þá á það 2 afa og 2 ömmur á ættartrénu, þau eru bara sömu einstaklingarnir) þá gengur minni fjöldi alveg upp.

Þetta fannst mér samt skemmtileg tala: Sumir ættfræðingar telja að allir jarðarbúar séu 50-menningar. Öll erum við Megas...

Næstum-því-prófloka-fagnari,
Helgi Hrafn

Friday, December 12, 2008

Yummy...

Öðru hverju í lífinu þá gerist eitthvað sem gerir lífið aðeins bærilegra og skemmtilegra. Það getur verið gott lag í útvarpinu, falleg stelpa sem þú sérð á röltinu í miðbænum eða eitthvað handtak sem flýtir fyrir húsverki. Gott fólk, ég hef fundið slíkan hlut, og þessi hlutur mun komast í heimsmetabækurnar...

Wait for it....

Hnetusmjör- og bananasamloka...

Ég veit, ég brást svona við líka....allur "Vó!" og svo "Mmmhmmm!"

En í fullri alvöru þá er þetta geðveikt spes samloka sem ég mæli með. Prufaði hana eftir awesome bloggfærslu á síðu sem ég stunda mjög reglulega og vil að allir kíki á: Ctrl-Alt-Del

Þetta er rosalega sérstök samloka, hún festist aðeins í munninum en á rosalega gómsætan hátt.

Prufið það...

Skæruliðaljósmyndari með meiru,
Helgi Hrafn

Friday, December 5, 2008

*Gasp!*

Þá er ég loksins kominn upp úr kafi í bókalestri fyrir fyrstu önnina mína í verkfræði. Engin próf búin, bara aðeins að skipta um gír með smá skapandi skrifum eða hvað sem bloggskrif teljast til.

Önnin hefur verið sérstök, spennandi, erfið, ánægjuleg og helvísk. Stærðfræðin er erfiðust. Ég hef oft getað reiknað hluti fljótt því ég sé þá fyrir mér myndrænt. Ný hugtök innan stærðfræðinnar í línulegri algebru bjóða hins vegar ekki upp á slíkt. Þú getur ekki séð fyrir þér 4-vítt rúm og hvað þá n-víð rúm. Blöh. Sumir hlutir virðast líka vera tilgangslausir, eins og sjálfsmóta varpanir; það að varpa mengi í sjálft sig. Blegh.

Ég er byrjaður aftur í körfubolta þó ég sé nú á öðrum hraða en áður. Ég er sem stendur í 1.flokki Breiðabliks en stefni á það að koma mér aftur upp í meistaraflokk á næsta ári. Ég spila með spelku sem stendur vegna vinstra úlnliðsbrotsins (enn mjög viðkvæmur í úlnliðnum) og stefni á að drulla mér til sjúkraþjálfara eftir próf. Ég verð líka að koma mér í keppnis form á ný. Það hefur sína kosti að missa formið niður svona, ég hef þurft að bæta mig og skotið mitt því ég hef núna nánast engan hraða (ef ég hef þá haft einhvern hraða fyrir slysið).

Ég er farinn að taka myndavélina með mér næstum hvert sem ég fer, bara svona til öryggis. Myndavélin hefur líka þann skemmtilega fítus að ekkert heyrist þegar ég tek mynd, þannig að ég get oft tekið mynd án þess að fólk viti af því. Ég er skæruliðaljósmyndari. Ég hef líka í flestum tilfellum mjög gott myndefni því flestir vinirnir eru tilbúnir að brosa, gretta sig eða gera eitthvað fyndið fyrir myndavélina, þegar ég læt þau vita að ég sé að taka myndir af þeim.

Til að ljúka þessu, eitthvað gagnlaust - Litlir hlutir sem kæta mig og græta:

- að finna pening í gamalli yfirhöfn
- að vera vakinn kl.7:30 með píanóglamri litla bróður þegar ég gat sofið út
- að teygja allrækilega úr sér í rúminu sínu rétt áður en þú ferð að sofa
- að uppgötva of seint að eina klósettrúlla heimilisins er ekki í seilingarfjarlægð
- að finna þessa einu frábæru ljósmynd í 40 sæmilegum
- að brosa til einhvers niður í bæ sem ég þekki ekki og fá bros á móti
- að brosa til einhvers niður í bæ sem ég þekki ekki og vera laminn af kærastanum hennar
- að geta drullað úr mér einni bloggfærslu af og til

Tilneyddur Júdas,
Helgi Hrafn

Monday, August 11, 2008

Make A Wish

Óskið ykkur einhvers og einbeitið ykkur svo að myndinni.....(smellið á myndina ef að þið sjáið ekkert úr henni)

Sunday, July 27, 2008

Officer Shrek og President Obama

Ég sá um daginn tröllkarl í gervi lögregluþjóns. Hann var 210 cm hár (alveg örugglega), 120 kg (að mér sýndist) og hann var frekar ógnvekjandi (fannst mér). Ég ætla að reyna að brjóta aldrei af mér því það væri svo hryllilegt að vera tekinn af þessari löggu. Ég sá hann beygja sig nokkrum sinnum til að komast gegnum dyr. Svo til að fullkomna allt þetta var lögregluþjónninn með honum 175 cm á hæð sem gerði það að verkum að þeir tveir minntu helst á Shrek og Donkey (þó að minni löggan var ekki með framstæðar tennur né hárugur). Gaman að því.

Við reglubundið vafr um netið fann ég nokkuð sem mér fannst ósmekklegt og heimskt og óviðeigandi en það kom mér á óvart að mér hafði ekki dottið í hug að þetta kæmi upp fyrr eða síðar. Mér skilst að það sé til barmmerki sem mælir móti Obama í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart, en það sem stendur á barmmerkinu er ótrúlegt: "If Obama is President ... will we still call it The White House?" ERTU EKKI AÐ GRÍNAST Í MÉR?!?!?!?!

Við svona komment missi ég trúna á stjórnmál. Sá sem hefur gert þetta merki er að reyna ná til rasista. Ég meina, bara svona til að svara þessu þá er Obama ekki einu sinni almennilega svartur. Það er hvort er kjaftæði að pæla í því. Halda rasistar í alvörunni að þeir sem eru ekki hvítir séu ekki starfinu hæfir? Fólk er ekki lengur að pæla í pólitíkinni. Síðasti forseti Bandaríkjanna var kosinn af flestum því að hann var "maður fólksins" og með hjartað á réttum stað. Svo kom í ljós að hann var ekkert almennilega góður forseti því allt fór til fjandans hjá honum. Efnahagurinn í rúst, utanríkisstefnan ekkert til að hrópa húrra fyrir og kannanir sýna að færra og færra treystir honum. Svona gerist þegar fólk kýs eftir hjartanu en ekki heilanum. Málefnin eiga að vera málið, ekki hörundslitur frambjóðandanna.

Ætlaði að skrifa eitthvað meira en man allt í einu ekki um hvað.

Kv.Helgi

Sunday, July 6, 2008

Ekkert að gera

Ég er með tvær pælingar í dag; önnur rosalega lítilvæg og skrýtin og hin hugsanlega stórvægari.

Þessi lítilvæga er sú afhverju fólk valhoppar niður stiga, þ.e.a.s. í þriðja hverju þrepi hoppa þau aðeins og feta næstu tvö eða þrjú þrepin og gera þetta svo aftur. Allir sem hafa einhver lipurð gera þetta. Er þetta lítill rússíbani sem við förum í daglega, hendum okkur niður stigann fyrir eitthvert mini-adrenalín rush? Já, ég er svona upptekinn í vinnunni...

Ég las í teiknimyndasögu samtal sem fór á milli tveggja einstaklinga. Annar var hermaður sem var að hýsa veru sem hafði lifað í hafinu upp að því og kunni ekki á mannkynið. Hann var að segja frá húsinu sem hann átti og fiskstelpan stoppaði hann og spurði hvað það væri að "eiga" eitthvað. Hann skýrði út að það þýddi að eitthvað (eins og fasteignin hans) væri hans og enginn annar ætti hana. Þá spurði fiskstelpan afhverju það væri og hermaðurinn hafði ekki svar á reiðum höndum.

Hvenær byrjaði þetta ferli? Ég á þetta en ekki þú. Ég skil alveg að ef þú býrð til eitthvað þá eigir þú það (nema þú vinnir í verksmiðju eða álíka) en afhverju á nokkurt okkar jörðina? Hvenær og með hvaða rökum byrjuðu mennirnir að leggja undir sig jörðina? Ég skil alveg að þeir hafi þurft íverustað, en öll dýr hafa svoleiðis. Sömuleiðis geta þau átt svæðið í kringum íverustaðinn og geta barist við önnur dýr um yfirráð. Það skil ég alveg.

Nútíminn er hins vegar ekki svona, ekki alveg. Faðir minn barðist ekki fyrir lóðinni okkar. Fasteignafélag hefur keypt það af einhverjum sem átti það á undan honum.

Ég nenni ekki lengur að pæla í tilgangslausum hlutum ef enginn ætlar að koma með komment. Ég geri þetta að einhverju leyti fyrir mig, en ég vil líka heyra álit annarra. Engan aumingjaskap.

Wednesday, June 18, 2008

Þjóðarstolt og Keltarnir

Ég var að klára að horfa á lokaþátt Boston Legal og ég vildi að ég hefði fylgst betur með séríunni.

Í lokaþættinum var bær í Massachusetts sem vildi skilja sig að frá Bandaríkjunum. Þau myndu aldrei vinna, en vildu fá pressuna og athyglina því að þeim þótti stefnan sem bandaríska ríkisstjórnin væri að taka væri röng og siðlaus.

Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér afhverju ég er Íslendingur. Er það bara því að ég fæddist á Íslandi. Þarf ekki meira til en það?

Afhverju ekki? Ég fór nýlega að gera vissar hugartilraunir sem mér finnnst gagnlegar. Hugsaðu þér eitthvað sem þú hefur gengið að vísu, sama hve lengi, og kryfðu það. Sem dæmi: Ég styð Vinstri græna. Afhverju? Sumir sem ég hef kynnst sem styðja Sjálfstæðisflokkinn svara "Af því bara". Ég efast reyndar líka um stuðning minn við Vinstri græna. Það er ekki því að ég er ekki sammála þeim, heldur því mér finnst ég hafa tekið of mikið þátt í starfi þeirra án þess í raun og veru að kynna mér málefnin. Ég veit að sjálfsögðu hvaða stefnur Vinstri græn og Ung vinstri græn taka varðandi hina og þessa hluti en mér finnst ég ekki nógu oft kryfja ástæðurnar. Ég fylgi þeim of mikið.

Þetta er það sem gerist allt of oft. Fólk sem fylgir Geir Haarde eða Steingrími J. gerir það (sumir, ekki allir) því að þeir hafa verið sammála þeim hingað til og efast því ekki um þá. En það verður að gera, fólk verður að efast. Við megum ekki vera kindur og fylgja forystusauðnum í blindni. Kynnum okkur málin og gerum það sem við teljum vera best fyrir okkur, því ef að við gerum það ekki eru ekki margir sem gera það fyrir okkur.

En aftur að þjóðarstolti og hvað það er að vera Íslendingur. Ég tel mig vera stoltan Íslending og kemst í uppnám ef einhver segir eitthvað á móti Íslandi. Þetta er staðhæfing sem ég vil kryfja. Ég væri alveg jafn stoltur ef að ég væri fæddur í Noregi eða Englandi. Það er líka ekki endilega það að einhver segi eitthvað á móti Íslandi heldur segir eitthvað sem er ekki á rökum reist eða eitthvað sem á ekki við um alla, t.d. það að íslenskar stelpur séu lauslátar. Ef einhver segði að honum fyndist Íslendingar keyra frekar meira en þörf krefði miðað við fólksfjölda og aðstæður myndi ég líklegast ekki móðgast ef mér þætti hann rökstyðja málið og segja þetta án fordóma. Sumir stoltir Íslendingar myndu eflaust verða sármóðgaðir og fara í vörn.

Er þjóðarstolt að taka upp hanskann fyrir land þitt þó þú vitir að það sem það geri sé ekki rétt? Að styðja ríkisstjórnina því að hún náði meirihlutakjöri landsmanna? Mark Twain sagði eitt sinn að skilgreiningin á föðurlandsvini væri sá sem gæti hrópað hæst án þess að vita um hvað hann væri að hrópa. Sniðugur maður, hann Mark Twain. Þegar einhver lýsir því yfir að hann sé föðurlandsvinur er það dálítið oft til að útskýra gjörðir hans. Afhverju? Píndu hermennirnir í Abu Ghraib fanganna því að þeir elskuðu Bandaríkin svo rosa, rosa mikið? Nei, þeir gerðu það því þeir voru hræddir. Þeir sem eru hræddir skilja oftast ekki hvað þeir eru hræddir við. Er einhverja útskýringu að finna í því?

Þú ræður ekki þjóðerni þínu, en þú getur að sjálfsögðu ráðið hvort þú sért stoltur að vera Íslendingur, Bandaríkjamaður eða Keníabúi. Það sem maður verður þó að hafa í huga er það að nota það ekki sem afsökun.

-Helgi

P.S.: Ég vil óska öllum Boston-búum og áðdáendum Boston Celtics til hamingju. Celtics eru bestir í ár og verða það vonandi nokkur ár í viðbót. BOSTON CELTICS UNNU!!! BIG THREE!!!!!WHOOOHOOOO!!!!!!

Sunday, June 8, 2008

Ég læri meira á morgun

Ok, ég er að læra fyrir inntökuprófið í læknadeild og er að taka mér hlé núna áður en ég fer að sofa. Þetta hlé verður nýtt í það að rjúfa blogg-þögn mína.

Ég var að surfa á netinu og fann myndband þar sem verið var að taka viðtal við nokkrar klámstjörnur og þær voru rosalega almennilegar og kurteisar. Þeir sem hafa verið í Bandaríkjunum hafa eflaust tekið eftir því hvað flestir fullorðnir Bandaríkjamenn eru kurteisir og hálfgerðar teprur. Ég tók eftir því að þær virtust fara framhjá öllum viðteknum orðum á kynfærum og töluðu undir rós (má beygja þetta? "að tala undir rós"?). Þau gátu ekki talað um það að ríða eða neitt þess háttar. Mér finnst þetta merkilegt. Þau hafa atvinnu af því að gera allskonar óheyrilega hluti, sem flestir telja niðurlægjandi og ósiðlega, en geta síðan ekki talað hreint út um það. Er þetta almennur tepruskapur Bandaríkjamanna eða reyna þau að dempa það ósiðlega í þessu með kurteisishjali og einhverju?

Nú ætla ég að ganga út frá því að allir sem lesa þetta hafa á einhverjum tímapunkti í lífi sínu séð klámmynd. Fyrir framan vélarnar eru klámstjörnurnar gallharðar og með sóðakjaft. Svo verða þær að kurteisum og indælum persónum þegar vélarnar hætta að rúlla. Afhverju? Ég veit að ég haga mér öðruvísi í starfinu mínu en mér finnst þetta frekar mikil breyting.

Sem sagt:
Fagmennska fyrir framan myndavélarnar eða skammast þau sín þegar starfið er búið?
Tepruskapur BNA eða á þetta við alls staðar í heiminum í klámbransanum?
Eru evrópskar klámstjörnur frjálslyndari en bandarískar?

You decide...

This has been a public service announcement courtesy of: Helgi

Tuesday, May 6, 2008

I'm sorry Dave, I'm afraid I can't do that.

Gervigreind hefur í langan tíma verið fyrir suma vísindamenn hinn heilagi kaleikur, tölvugreind sem getur lært, rökhugsað, átt samskipti við manneskjur og séð fyrir atburði.

Ég sá fyrir nokkru fyrirlestur hjá Jeff Hawkins sem hefur verið að krukka í mannsheilanum í þó nokkurn tíma. Hann kvartaði m.a. yfir því að það væri ekki til nein algild kenning um mannsheilann. Það er til aragrúi af upplýsingum og gögnum um mannsheilann en það er enn engin kenning um hann. Jeff var ekki með kenningu um mannsheilann en kom með áhugaverða kenningu um greind manns.

Greind mannverunnar er byggð á hæfni hennar til að sjá hluti fyrir, allavega að hluta. Heilabörkurinn er krumpaða yfirborð heilans. Það liggur ofan á eðlislæga hluta heilans og minnið okkar er geymt í honum. Á meðan að við erum að upplifa venjubundinn dag í lífi okkar er heilabörkurinn að safna upplýsingum og tengja atburði saman. Ef að eitthvað sem við gerum leiðir til einhvers annars þá leggur heilabörkurinn það á minnið. Þegar að við lendum svo í svipuðum aðstæðum eða nákvæmlega þeim sömu þá spáir heilinn fyrir um hvað muni gerast. Þetta er að sjálfsögðu ekki ávísun á að það muni gerast en heilinn gerir að litlum hluta ráð fyrir því. Ef það gerist ekki þá spáir hann því fyrir að annaðhvort þetta eða hitt muni gerast. Hann þróar spárnar eftir upplifunum.

Gott dæmi um þetta er ef að einhver myndi færa hurðarhúninn á útidyrahurðinni þinni nokkra sentimetra til hægri eða vinstri á meðan að þú værir að heiman. Þegar að þú kæmir svo heim myndir þú taka eftir að eitthvað væri breytt. Það tæki þig kannski sekúndu að fatta hvað væri að, en þú tækir eftir breytingunni. Þetta er vegna þess að heilabörkurinn er að spá fyrir um *allt*. Hvar hurðarhúninn á að vera, það að vatnsglas með raka utan á sé líklegast blautt og kalt og að þegar þú leggur höndina á borð þá á höndin að stoppa þegar hún kemur að yfirborði borðsins. Heilabörkurinn spáir fyrir um allt. Það kæmi þér á óvart ef að þú héldir steini metra frá jörðinni, slepptir honum og hann félli ekki til jarðar. Þetta er ekki bara vegna þess að þú þekkir til áhrifa þyngdarafls, heilabörkurinn spáir því að steininn falli til jarðar.

Þetta telur Jeff Hawkins að verði að vera hluti í heilakenningunni sem sé á leiðinni, forspá og tengingar. Tölvur eru ólíkar mannsheilanum að því leyti að þær fara í gegnum allan gagnagrunninn sinn á meðan að við tengjum hluti saman. Ég veit strax að ég hef heyrt lag áður þegar ég heyri það og ég man stefið og kannski textann. Tölvan mun hins vegar fara í gegnum allan gagnagrunninn sinn af lögum og svo fatta að hún hefur heyrt lagið áður. Mannsheilinn lærir gegnum tengingar.

Ég vonast til að lifa nógu lengi til að mæta tölvu sem ég get rætt við. Það gæti gerst á næsta áratug eða ekki fyrr en ég er kominn á eftirlaun. Ég tel sömuleiðis að tölvur framtíðar muni ekki vera byggðar upp eins og þær eru í dag. Þegar algild heilakenning kemur fram er ekki ólíklegt að tölvur muni breytast samhliða því, að þær verði byggðar með mannsheilann í huga, þ.e.a.s. meira en nú. Tölvur sem geta lært, spáð fyrir, tengt ólíka hluti saman og kannski meira að segja haft tilfinningar.

Ég get ekki beðið.

Kv.Helgi

PS: Vonandi lifi ég þó ekki nógu lengi til að þurfa að upplifa vélmenna-uppreisnina. Það væri samt svalt að vera Neo, bara með persónuleika (já, þetta var skot á Keanu Reeves).

PS2: Hérna er fyrirlesturinn um heilakenninguna:


PS3: Fann mjög svalt blogg áðan sem fylgist með áhugaverðum hlutum sem stefna að framtíðinni. Check it out.

Sunday, April 13, 2008

Bloodgroup er best!

Stjórnmálaskóli UVG á höfuðborgarsvæðinu fór alveg rosalega vel fram og allir skemmtu sér og þetta var fræðandi og við náðum að ljúka skólanum á réttum tíma (5 min. fyrr, m.a.s.). Ögmundur Jónasson var með fína framsögu, Katrín Jakobs og Elías Guðjónsson fóru vel yfir stefnumálin, Kristján Ketill og Þórhildur voru flott á því með fyrirlestur um fundarsköp og almenn skrílslæti og Brynja, formaður UVGR, lauk skólanum með mjög góðri ræðu.

Um kvöldið hittumst við í UVG í Friðarhúsinu og fórum þar í Pöbb quiz. Mjög gaman og allt frábært. Svo fór hópur af galvöskum ungliðum á Organ því Þórhildur hafði bent okkur á að þar væri Bloodgroup að halda tónleika. Ég hafði aldrei áður heyrt minnst á hana, en Þórhildur hefur góðan smekk á tónlist og ég ákvað að fara með. Við mættum kát og hress og ég komst þá að því að stelpa sem ég þekkti lauslega úr UVG starfinu, Lilja, væri söngvari í Bloodgroup. Þetta er hress og skemmtileg stelpa sem er þó oftast róleg. Þegar hún hins vegar steig á sviðið þá varð hún að annarri manneskju. Hún var brjáluð og dansaði og söng eins og hún ætti ekki von á morgundeginum (ætli ég geti tekið svona til orða?). Hún breyttist úr sætri kisu í villt tígrisdýr.

Tónlistin var fáranlega góð. Bassinn var svo sterkur að maður heyrði hann í hausnum. Hljóðið dróg þig inn og sleppti ekki af þér takinu. Ég komst í hálfgerðan trans. "Moving Like A Tiger" var real-life lýsing á fólkinu á dansgólfinu. "Ain't Easy" sagði allt sem segja þurfti. Ég hef ekki dansað svona hart í allt of langan tíma. Ég hef heldur ekki verið svona þreyttur í allt of langan tíma. Vá.

Ég mæli hiklaust með Bloodgroup, þau eru svo flott að ég finn ekki nógu stórt og svalt lýsingarorð fyrir þau. Farið á tónleika með þeim, kaupið diskinn og verið viss um að hafa vatn og rúm við höndina eftir á, þið eigið eftir að ganga frá ykkur í dans-transi.

Hér lýkur færslunni.

Kv.Helgi

P.S: Ef það skyldi ekki hafa skinið í gegn í færslunni: BLOODGROUP ROKKAR!

Friday, April 11, 2008

Merkingar

Mig dreymdi í gær að ég hefði fundið íbúfen sem ég týndi um daginn. Í morgun þegar ég leit svo í vasann minn þá var íbúfenið ekki þar.

Hvers konar draumur er þetta? Suma dreymir að þau séu að fljúga, aðra að þau séu í einhverju ævintýri og suma dreymir framtíðina (að þeirra sögn *bullshit*). Mig dreymir að ég finni íbúfen sem ég týndi. Ég held að ég gæti ekki hugsað mér óáhugaverðari draum. Stundum hefur mig dreymt venjulegan mánudag í lífi mínu og vaknað og haldið að það væri kominn þriðjudag. Það er samt áhugaverðara en þetta með íbúfenið.

Ég kann ekki að ráða drauma og hef aldrei haft neina trú á því. Þegar þig dreymir að þú sért að fljúga þá máttu eiga von á mikilli peningalukku á næstunni eða eitthvað slíkt. Þetta er kjaftæði. Allir eru ólíkir. Það sem það þýðir fyrir einn einstakling að fljúga getur haft allt aðra merkingu hjá öðrum.

Draumar eru ekkert nema heilinn þinn að flokka upplýsingar dagsins. Undirmeðvitund þín er ekki skyggn og getur ekki séð fyrir atburði dagsins.

Þó að ég trúi ekki á þetta þá lenti ég í fyrsta skipti í deja vú fyrir stuttu. Um daginn var ég að hjálpa til við að rýma kjallara og rétti rauðhærðri stelpu tvær málningardósir. Um leið og ég gerði þetta fékk ég á tilfinningunni að þetta hefði gerst áður. Ég veit ekki hvort það hefur gerst áður eða hvort mig dreymdi þetta. Þetta var alveg rosalega fríkað.

Það þarf ekki að vera merking á bak við allt. Sumt gerist bara og sumir þýða það bara að þig langi í íbúfen.

Kv. Helgi

Webcomic dagsins: Shortpacked (fyndin inn á milli)

Tuesday, April 8, 2008

Stjórnmálaskóli UVG á höfuðborgarsvæðinu

Stjórnmálaskóli Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu verður haldinn klukkan 11:00 laugardaginn 12.apríl í húsakynnum Vinstri grænna í Hamraborg 1-3 í Kópavogi.

Í „skólanum“ verður boðið upp á fræðslu og umræðu fyrir ungt fólk um róttæk stjórnmál, umhverfisvernd og femínisma. Skólinn er opinn öllum hefst klukkan ellefu árdegis og lýkur upp úr þrjú síðdegis.

Dagskrá
  • Saga og stofnun VG
    • Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, flytur erindi og leiðir umræður í kjölfarið.
  • Hádegishlé
    • Hádegisverður í boði UVG fyrir svanga „nemendur“.
  • Stefna VG og UVG
    • Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG og Elías Jón Guðjónsson varaformaður UVG kynna stefnu VG og UVG og leiða í kjölfarið umræður.
  • Fundir og mótmæli
    • Kristján Ketill Stefánsson og Þórhildur Halla Jónsdóttir fjalla um allt frá fundarsköpum til mótmæla.
  • Ungt fólk í stjórnmálum
    • Brynja Björg Halldórsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík, segir frá sinni aðkomu og ungs fólks almennt að stjórnmálum.

Um kvöldið verður róttæk, friðsöm, umhverfisvæn og femínisk skemmtun.

Skilaboð frá Helga: "Mætið, ellegar ég drep ykkur..."

Helgi elskar netið

Ég elska internetið vegna þess að það gerir mönnum kleift að deila hæfileikum sínum með öðrum. Fullkomið dæmi um það eru þessir tveir snillingar:



Ég er hugsanlega ekki brotinn, kemst að því núna á miðvikudaginn.

Tuesday, April 1, 2008

Well, fuck....

Ég er brotinn. Aftur.
Kominn í gips. Aftur.
Ég hata líf mitt. Aftur.

Þetta er svo grátlegt að ég get ekki annað en gert grín að þessu. Ég var að gantast og nánast daðra við hjúkrunarfræðinginn sem var að setja gipsið á mig, ég var svo ligeglad. Mér er ómögulegt að taka þetta alvarlega í kvöld.

Læt heyra í mér bráðum. Fokk ðis, farinn að sofa.

Tuesday, March 25, 2008

Ábyrgð?

Ég er í alvörunni farinn að taka eilitla ábyrgð. Ég er farinn að elda í matinn þegar ég get. Ég er að leita að tryggingarfyrirtækjum til að tryggja ókeypta bílinn minn. Ég er í þremur vinnum. Ég er að pæla í íbúðum. Ég hef ákveðið að þreyta inntökuprófið inn í læknadeild. Ég ætla í háskóla. Ég er að gera tilraun til að fylgja eftir fjárhagsáætlun sem ég samdi. Ég var að taka eftir því að allar setningar þessarar málsgreinar byrja á mér. Ég er ekki hissa. Ég er númer eitt í mínum huga.

Varðandi ljóðið fyrir neðan þá er sagan á bak við hana ekki flóknari en svo að ég var á skemmtistað , frekar ölvaður, og stelpa bauð mér heim með sér. Ég samþykkti það (held ég) og fór að dansa við hana. Allt í einu varð allt í kringum mig hljóðara og ég varð skýr. Ég gerði mér grein fyrir hve fáranlegt það væri að vera pissfullur niður í bæ og í þann mund að fara heim með stelpu til þess að gera eitthvað allt annað en að spila lúdó. Ég kvaddi stelpuna, labbaði út af staðnum og tók fyrsta leigubílinn sem fékkst heim.

Héðan í frá ætla ég að reyna að halda mig við einfalda reglu: ekki drekka til að vera fullur. Ég er ekki alveg búinn að segja skilið við áfengi, en héðan af hyggst ég nota það til að létta skapi mínu, ekki til að staulast út af skemmtistað kl.5 um nóttina og geta ekki myndað skiljanlegar setningar.

Ég er kominn úr gipsinu, farinn að mæta aftur í ræktina. Harðsperrtur eins og andskoti. Fór of geyst af stað. Held samt ótrauður áfram. Ætla vera kominn í eitthvað form fyrir sumarið og vera allavega í standi til að spila með 1.flokki karla hjá Breiðablik næsta haust.

Kv. Helgi

Webcomic dagsins: A Chat with A Customer

P.S.: Byrjaður að leika mér myndavélina meira og meira. Takmarkið er að ná mynd sem er eins góð og þessar:


Thursday, March 20, 2008

Djammið

Á barnum, umvafinn áfengi, kvenfólki
og dúndrandi tónlist,
verð ég skyndilega skýr,
líkt og þokunni létti.

Ég þarf ekki á þessu að halda,
þessi ólifnaður er óþarfur.
Leigubíllinn heim er hljóðlátur,
kyrr, spyr einskis.

Saturday, March 8, 2008

I put the "laugh" in manslaughter!

Ég fann blað í gömlum frakka sem ég hripaði nokkrar pælingar niður á fyrir löngu síðan. Mjög fróðlegt að sjá hvað maður var að hugsa fyrir löngu.

Í eitt hornið á einu blaðinu hafði ég skrifað eitthvað sem var nánast ólæsilegt: "Besta skáld heims hefur ekki sýnt neinum ljóðin sín." Ég man ekki nákvæmlega ástæðuna fyrir þessu, en mig minnir að ég hafi verið að ræða við fólk um fjölda ljóða og ljóðabóka sem skáld gefa út. Sum gefa eina frábæra bók út og hverfa svo af sjónarsviðinu. Hvort það sé vegna þess að þau höfðu ekki meira í sér eða settu allar sínar tilfinningar og hugmyndir í eina bók og þá var ekkert eftir veit ég ekki. Svo eru skáldin sem hafa gefið út svo margar ljóðabækur að það er hálf fáranlegt. Þorsteinn frá Hamri hefur gefið út tuttugu ljóðabækur og þrjár skáldsögur milli 1958 og 2005. Er það of mikið, er hætti á því að hann sé að minnka gildi hverrar bókar með útgáfu þeirrar næstu? Hvenær verður mikið "of mikið"?

Ég vil trúa því að út í heimi sé gamall maður í Afríku sem hefur í hugarfylgsnum sínum ljóð um fallegustu sólarupprás heims sem hann varð vitni að þegar hann var ungur. Hann hefur haft þetta ljóð í hausnum á sér í 50 ár og það er enn í vinnslu. Á dánarbeðinu sínu mun hann reyna að fara með fullkomna ljóðið sitt, en gefur upp öndina áður en hann getur byrjað.

Annars staðar í heiminum hefur ung stelpa komist nær dauðanum en hún kærði sig um og hún missti alla fjölskyldu sína. Í ár hefur hún rogast með þessi þyngsl í hjartanu, þau mestu sem hún hefur upplifað og ákveður að lokum að fyrirfara sér. Á þeirri stundu sem hún finnur líf sitt fjara út dettur henni í hug ljóð sem er svo sorgmætt og magnþrungið að hún finnur fyrir eilitlum létti á lokastundinni.

Og að lokum er maður sem er á besta aldri og þarfnast einskis og hefur í skáp heima hjá sér bunka af blöðum með fyndnustu, mest spennandi og sorgmæddustu skáldsögu heims sem hann mun aldrei sýna neinum, ekki einu sinni eiginkonunni. Áður en hann deyr mun hann brenna blöðin og taka dauðanum fagnandi, umvafinn ást og hlýju fjölskyldunnar.

Það fallegasta og sorgmæddasta og fyndnasta sem snertir okkur dýpst kemur örsjaldan fram. Þess vegna er mikilvægast af öllu að láta ekki hluti fara framhjá sér því maður hefur séð þá áður eða þykist þekkja þá. Sólarupprásin verður aldrei gömul og leiðinleg, hún er ný og glimrandi í hvert einasta skipti.

Ekki ganga að neinu vísu. Allt getur komið á óvart.

Kv.Helgi

Wednesday, March 5, 2008

Súpukvöld!

Annað kvöld (fimmtudagskvöldið 6. mars) heldur VGK súpukvöld á Kragakaffi (Hamraborg 1). Guðný Dóra mun elda gómsæta súpu og það verður leynigestur.

Súpukvöld.
Annað kvöld.
6. mars.
Kl.19:30.
Leynigestur.
Mega-fjör.

Allir að mæta!

Kv. Helgi

P.S.: Ef einhverjir ætla kvarta yfir hvað þetta sé lítill fyrirvari, tough shit. Ég fékk að vita þetta fyrir 10 mínútum. Samt ætla ég að mæta.

Tuesday, March 4, 2008

Gamangaman

Ég hvet alla til að kíkja á www.fukung.org. Hellingur af fyndnum myndum (og flottum).

Þessi er fyrir Bjarna Pál:




Og þessi er bara snilld.

Monday, March 3, 2008

Newton var nú meiri kallinn

Ég fór til Akureyrar um helgina til að sækja stjórnmálaskóla UVG og sýna lit. Þetta var mergjað fjör, kynntist nóg af skemmtilegu fólki og þetta endurvakti trú mína á stjórnmál og þátttöku mína í því. Var í nokkra mánuði í hálfgerðu fönki, trúði því ekki að framlag mitt skipti einhverju máli.

En ég sá þarna að allir skipta máli og það þarf ekki nema einn til að gera gæfumuninn. Ég er andlega endurnærður.

Núna, aftur á móti er ég hundslappur og veikur. Ég held að ég sé með einhverja pest. Áðan þá fór ég að pæla í því hvort að þriðja lögmál Newtons næði yfir meira en honum hugkvæmdist. Þriðja lögmálið gengur út á það að fyrir hvert átak er jafnt og öfugt gagnátak. Þegar ég sest á stól þá ýti ég niður á hann með líkamanum og stóllinn ýtir þá upp á við á móti mér.

Ég er nýbúinn að endurhlaða andlegu rafhlöðurnar þegar líkaminn bregst mér. Sumir verða heimskari því meira sem þeir rækta líkamann og sömuleiðis verða sumir gáfaðir menn gífurlega veiklulegir. Hafiði líka tekið eftir því að því ríkari og feitari sem viðskiptajöfrar verða því fátækari og veiklulegri verða börnin í Afríku?

Tilviljun? Ég held nú aldeilis ekki. Það þyrfti einhver að tala við hann Newton og spyrja hann hvað hann var að hugsa. Meiri kallinn.

Jæja, ég ætla leggjast undir feld og hvílast. Þegar ég vakna mun allt vera betra.

Kv. Helgi
























Lag dagsins: Broken eftir Lifehouse

Kvikmynd dagsins: The Bucket List - mæli hiklaust með henni; Jack Nicholson og Morgan Freeman beila sjaldan.

Tilvitnun dagsins:
I am only one,
But still I am one.
I cannot do everything,
But still I can do something;
And because I cannot do everything
I will not refuse to do the something that I can do.
- Edward Everett Hale

Monday, February 11, 2008

Blöh

Búinn í vinnunni og þreyttur. Fann þetta í öðru hléi:

Kv. Helgi

P.S.: Það er í sjálfu sér líkamsrækt að nota ekki lyfturnar á spítalanum þegar maður er að erindast.

Down time í vinnunni...

Nýja vinnan mín á pósthúsi Landspítalans við Hringbraut sér til þess að ég sé nokkurn veginn alltaf á ferðinni yfir daginn. Öðru hvoru fæ ég hins vegar smá tíma til að setjast niður og finna skemmtilegar myndir á netinu. Njótið vel:





Monday, February 4, 2008

Fréttir á nýju ári

Sæl, öll og gleðilegt nýtt ár.

Ég hef látið vera að blogga sökum leti, áhugaleysis og tímaleysis. Það læðist reyndar inn smá mórall vegna þess að áramótaskaupið gerði grín að bloggurum. Mér fannst það gífurlega fyndið en ég velti líka fyrir mér hvort ég væri svona. Ojæja.

Bobby Fischer er dáinn. Bandaríkjamenn fagna. Ekkjan og aðstandendur jarðarfararinnar (sem telja mátti á fingrum annarrar handar) jörðuðu hann víst í óleyfi. Prestur svekktur. Mér er nóg boðið. Þessi maður var vissulega snillingur en paranojan hans ásamt einkennilegum beiðnum eru fáranlegar. Ekki misskilja, fráfall þessa skákmeistara er mjög leiðinlegt en ég heyrði að þegar átti að færa hann á spítalann stuttu fyrir andlát hans þá tók hann ekki í mál að sitja í sjúkrabíl. Eitthvað með ofsóknirnar að gera. Vinur hans þurfti að koma og sækja hann. Megi hann hvíla í friði.

Heath Ledger er dáinn. Kvikmyndaáhugamenn gráta. Löggan ekki viss með atburðarás. Fjölskdan hans þverneitar því að um sjálfsmorð hafi verið að ræða. Þessi upprennandi leikari varð bráðkvaddur 22. janúar og ég er forviða á þessu. Jújú, maður býst við að leikarar deyji öðru hvoru, en ekki svona, ekki í blóma lífsins þegar allt virtist ganga honum í hag. Svo vil ég endilega vita hvaða brandarakall saknar hans ekki? Hefurðu ekkert hjarta?

Tjarnarkvartettinn er dáinn. Villi brosir. Svandís grætur. Margrét kemur alveg af fjöllum. Ólafur F. er geðveikur. Sumir vilja halda því fram að Spaugstofan hafi farið yfir strikið. Mér fannst þátturinn rýrna pínku þegar að ég komst að því að Ólafur F. er víst með geðhvarfasýki, en ekki þannig að ég varð móðgaður. Það er eilítið skondið að þessi maður kemur allri Reykjavík í uppnám og verður svo sár út af nokkrum vel völdum skotum í grínþætti sem hlífir engum (ekki svo ég viti, allavega). Og hver líður fyrir allar þessar pólitísku tilfærslur? Reykvíkingar.

Ég er útskrifaður og farinn að vinna á Landspítalanum við Hringbraut sem sendill. Fínt starf. Það vantar starfsfólk (og þá helst stelpur, geðveik pylsuveisla í pósthúsinu) ef einhvern vantar vinnu. Ég get komið ykkur í samband við manninn sem sér um ráðningar.

Ég nenni ekki að blogga meira. Farið og grátið.

Kv. Helgi

Tilgangslaus staðreynd dagsins: Það er kominn eilítill gróandi í brotið. Ég verð kannski bara í gipsi í 2 vikur í viðbót.

P.S.: New England eru aumingjar. Þeir unnu alla leiki sína á leiktímabilinu og töpuðu svo fyrir New York. Ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um þá ætla ég ekki að segja ykkur það.

Wednesday, January 23, 2008

Ain't life grand

Í næsta bloggi mun ég upplýsa ykkur um ástæðu fjarveru minnar á bloggsvæðinu. Núna get ég ekkert gert nema kvarta yfir örlögunum og ólukku minni.

Á morgun, 24. janúar verð ég tvítugur. Það væri yndislegt ef að ég væri ekki fárveikur. Ég er líklegast bara með ótýnt kvef, en það er samt grimmdarlegt.

Ég gleymdi að setja inn útskriftarmynd eftir útskriftardaginn. Hún er hér:


















Hér, á hinn bóginn er ég fárveikur og kvalinn:



















Kv.Helgi