Sunday, April 13, 2008

Bloodgroup er best!

Stjórnmálaskóli UVG á höfuðborgarsvæðinu fór alveg rosalega vel fram og allir skemmtu sér og þetta var fræðandi og við náðum að ljúka skólanum á réttum tíma (5 min. fyrr, m.a.s.). Ögmundur Jónasson var með fína framsögu, Katrín Jakobs og Elías Guðjónsson fóru vel yfir stefnumálin, Kristján Ketill og Þórhildur voru flott á því með fyrirlestur um fundarsköp og almenn skrílslæti og Brynja, formaður UVGR, lauk skólanum með mjög góðri ræðu.

Um kvöldið hittumst við í UVG í Friðarhúsinu og fórum þar í Pöbb quiz. Mjög gaman og allt frábært. Svo fór hópur af galvöskum ungliðum á Organ því Þórhildur hafði bent okkur á að þar væri Bloodgroup að halda tónleika. Ég hafði aldrei áður heyrt minnst á hana, en Þórhildur hefur góðan smekk á tónlist og ég ákvað að fara með. Við mættum kát og hress og ég komst þá að því að stelpa sem ég þekkti lauslega úr UVG starfinu, Lilja, væri söngvari í Bloodgroup. Þetta er hress og skemmtileg stelpa sem er þó oftast róleg. Þegar hún hins vegar steig á sviðið þá varð hún að annarri manneskju. Hún var brjáluð og dansaði og söng eins og hún ætti ekki von á morgundeginum (ætli ég geti tekið svona til orða?). Hún breyttist úr sætri kisu í villt tígrisdýr.

Tónlistin var fáranlega góð. Bassinn var svo sterkur að maður heyrði hann í hausnum. Hljóðið dróg þig inn og sleppti ekki af þér takinu. Ég komst í hálfgerðan trans. "Moving Like A Tiger" var real-life lýsing á fólkinu á dansgólfinu. "Ain't Easy" sagði allt sem segja þurfti. Ég hef ekki dansað svona hart í allt of langan tíma. Ég hef heldur ekki verið svona þreyttur í allt of langan tíma. Vá.

Ég mæli hiklaust með Bloodgroup, þau eru svo flott að ég finn ekki nógu stórt og svalt lýsingarorð fyrir þau. Farið á tónleika með þeim, kaupið diskinn og verið viss um að hafa vatn og rúm við höndina eftir á, þið eigið eftir að ganga frá ykkur í dans-transi.

Hér lýkur færslunni.

Kv.Helgi

P.S: Ef það skyldi ekki hafa skinið í gegn í færslunni: BLOODGROUP ROKKAR!

No comments: