Saturday, March 8, 2008

I put the "laugh" in manslaughter!

Ég fann blað í gömlum frakka sem ég hripaði nokkrar pælingar niður á fyrir löngu síðan. Mjög fróðlegt að sjá hvað maður var að hugsa fyrir löngu.

Í eitt hornið á einu blaðinu hafði ég skrifað eitthvað sem var nánast ólæsilegt: "Besta skáld heims hefur ekki sýnt neinum ljóðin sín." Ég man ekki nákvæmlega ástæðuna fyrir þessu, en mig minnir að ég hafi verið að ræða við fólk um fjölda ljóða og ljóðabóka sem skáld gefa út. Sum gefa eina frábæra bók út og hverfa svo af sjónarsviðinu. Hvort það sé vegna þess að þau höfðu ekki meira í sér eða settu allar sínar tilfinningar og hugmyndir í eina bók og þá var ekkert eftir veit ég ekki. Svo eru skáldin sem hafa gefið út svo margar ljóðabækur að það er hálf fáranlegt. Þorsteinn frá Hamri hefur gefið út tuttugu ljóðabækur og þrjár skáldsögur milli 1958 og 2005. Er það of mikið, er hætti á því að hann sé að minnka gildi hverrar bókar með útgáfu þeirrar næstu? Hvenær verður mikið "of mikið"?

Ég vil trúa því að út í heimi sé gamall maður í Afríku sem hefur í hugarfylgsnum sínum ljóð um fallegustu sólarupprás heims sem hann varð vitni að þegar hann var ungur. Hann hefur haft þetta ljóð í hausnum á sér í 50 ár og það er enn í vinnslu. Á dánarbeðinu sínu mun hann reyna að fara með fullkomna ljóðið sitt, en gefur upp öndina áður en hann getur byrjað.

Annars staðar í heiminum hefur ung stelpa komist nær dauðanum en hún kærði sig um og hún missti alla fjölskyldu sína. Í ár hefur hún rogast með þessi þyngsl í hjartanu, þau mestu sem hún hefur upplifað og ákveður að lokum að fyrirfara sér. Á þeirri stundu sem hún finnur líf sitt fjara út dettur henni í hug ljóð sem er svo sorgmætt og magnþrungið að hún finnur fyrir eilitlum létti á lokastundinni.

Og að lokum er maður sem er á besta aldri og þarfnast einskis og hefur í skáp heima hjá sér bunka af blöðum með fyndnustu, mest spennandi og sorgmæddustu skáldsögu heims sem hann mun aldrei sýna neinum, ekki einu sinni eiginkonunni. Áður en hann deyr mun hann brenna blöðin og taka dauðanum fagnandi, umvafinn ást og hlýju fjölskyldunnar.

Það fallegasta og sorgmæddasta og fyndnasta sem snertir okkur dýpst kemur örsjaldan fram. Þess vegna er mikilvægast af öllu að láta ekki hluti fara framhjá sér því maður hefur séð þá áður eða þykist þekkja þá. Sólarupprásin verður aldrei gömul og leiðinleg, hún er ný og glimrandi í hvert einasta skipti.

Ekki ganga að neinu vísu. Allt getur komið á óvart.

Kv.Helgi

No comments: