Ég er með tvær pælingar í dag; önnur rosalega lítilvæg og skrýtin og hin hugsanlega stórvægari.
Þessi lítilvæga er sú afhverju fólk valhoppar niður stiga, þ.e.a.s. í þriðja hverju þrepi hoppa þau aðeins og feta næstu tvö eða þrjú þrepin og gera þetta svo aftur. Allir sem hafa einhver lipurð gera þetta. Er þetta lítill rússíbani sem við förum í daglega, hendum okkur niður stigann fyrir eitthvert mini-adrenalín rush? Já, ég er svona upptekinn í vinnunni...
Ég las í teiknimyndasögu samtal sem fór á milli tveggja einstaklinga. Annar var hermaður sem var að hýsa veru sem hafði lifað í hafinu upp að því og kunni ekki á mannkynið. Hann var að segja frá húsinu sem hann átti og fiskstelpan stoppaði hann og spurði hvað það væri að "eiga" eitthvað. Hann skýrði út að það þýddi að eitthvað (eins og fasteignin hans) væri hans og enginn annar ætti hana. Þá spurði fiskstelpan afhverju það væri og hermaðurinn hafði ekki svar á reiðum höndum.
Hvenær byrjaði þetta ferli? Ég á þetta en ekki þú. Ég skil alveg að ef þú býrð til eitthvað þá eigir þú það (nema þú vinnir í verksmiðju eða álíka) en afhverju á nokkurt okkar jörðina? Hvenær og með hvaða rökum byrjuðu mennirnir að leggja undir sig jörðina? Ég skil alveg að þeir hafi þurft íverustað, en öll dýr hafa svoleiðis. Sömuleiðis geta þau átt svæðið í kringum íverustaðinn og geta barist við önnur dýr um yfirráð. Það skil ég alveg.
Nútíminn er hins vegar ekki svona, ekki alveg. Faðir minn barðist ekki fyrir lóðinni okkar. Fasteignafélag hefur keypt það af einhverjum sem átti það á undan honum.
Ég nenni ekki lengur að pæla í tilgangslausum hlutum ef enginn ætlar að koma með komment. Ég geri þetta að einhverju leyti fyrir mig, en ég vil líka heyra álit annarra. Engan aumingjaskap.
No comments:
Post a Comment