Sæl, öll og gleðilegt nýtt ár.
Ég hef látið vera að blogga sökum leti, áhugaleysis og tímaleysis. Það læðist reyndar inn smá mórall vegna þess að áramótaskaupið gerði grín að bloggurum. Mér fannst það gífurlega fyndið en ég velti líka fyrir mér hvort ég væri svona. Ojæja.
Bobby Fischer er dáinn. Bandaríkjamenn fagna. Ekkjan og aðstandendur jarðarfararinnar (sem telja mátti á fingrum annarrar handar) jörðuðu hann víst í óleyfi. Prestur svekktur. Mér er nóg boðið. Þessi maður var vissulega snillingur en paranojan hans ásamt einkennilegum beiðnum eru fáranlegar. Ekki misskilja, fráfall þessa skákmeistara er mjög leiðinlegt en ég heyrði að þegar átti að færa hann á spítalann stuttu fyrir andlát hans þá tók hann ekki í mál að sitja í sjúkrabíl. Eitthvað með ofsóknirnar að gera. Vinur hans þurfti að koma og sækja hann. Megi hann hvíla í friði.
Heath Ledger er dáinn. Kvikmyndaáhugamenn gráta. Löggan ekki viss með atburðarás. Fjölskdan hans þverneitar því að um sjálfsmorð hafi verið að ræða. Þessi upprennandi leikari varð bráðkvaddur 22. janúar og ég er forviða á þessu. Jújú, maður býst við að leikarar deyji öðru hvoru, en ekki svona, ekki í blóma lífsins þegar allt virtist ganga honum í hag. Svo vil ég endilega vita hvaða brandarakall saknar hans ekki? Hefurðu ekkert hjarta?
Tjarnarkvartettinn er dáinn. Villi brosir. Svandís grætur. Margrét kemur alveg af fjöllum. Ólafur F. er geðveikur. Sumir vilja halda því fram að Spaugstofan hafi farið yfir strikið. Mér fannst þátturinn rýrna pínku þegar að ég komst að því að Ólafur F. er víst með geðhvarfasýki, en ekki þannig að ég varð móðgaður. Það er eilítið skondið að þessi maður kemur allri Reykjavík í uppnám og verður svo sár út af nokkrum vel völdum skotum í grínþætti sem hlífir engum (ekki svo ég viti, allavega). Og hver líður fyrir allar þessar pólitísku tilfærslur? Reykvíkingar.
Ég er útskrifaður og farinn að vinna á Landspítalanum við Hringbraut sem sendill. Fínt starf. Það vantar starfsfólk (og þá helst stelpur, geðveik pylsuveisla í pósthúsinu) ef einhvern vantar vinnu. Ég get komið ykkur í samband við manninn sem sér um ráðningar.
Ég nenni ekki að blogga meira. Farið og grátið.
Kv. Helgi
Tilgangslaus staðreynd dagsins: Það er kominn eilítill gróandi í brotið. Ég verð kannski bara í gipsi í 2 vikur í viðbót.
P.S.: New England eru aumingjar. Þeir unnu alla leiki sína á leiktímabilinu og töpuðu svo fyrir New York. Ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um þá ætla ég ekki að segja ykkur það.
No comments:
Post a Comment