Friday, August 27, 2010

Úrskurðurinn kominn

Jæja, þá ætlar víst FIBA að refsa mönnum fyrir þennan slag milli Serba og Grikkja.

Úrskurðurinn hljómar þannig að Nenad Krstič fær þriggja leikja bann ásamt því að vera rukkaður um 45.000 svissneska franka, sem er rúmlega 5 milljón íslenskar krónur. Hann mun því missa af leikjunum gegn Angóla, Þýskalandi og Jórdaníu. Sæmilega vel sloppið að hann missi ekki af mikilvægustu leikjunum en fúlt þetta með sektina. Ojæja, hann hættir kannski að vera svona mikill fantur.
"Þetta var kannski ekkert allt of sniðugt hjá mér..."

Miloš Teodosič, liðsfélagi hans fær tveggja leikja bann (missir af Angóla og Þýskalandi) en fær engar sektir. Aftur á móti fær serbneska körfuboltasambandið sekt upp á 20.000 svissneska franka (u.þ.b. 2,5 milljónir íslenskar).

Grísku liðsmennir Antonis Fotsis og Sofoklis Schortsanitis (vígalegt nafn), a.k.a. "Baby Shaq", fá báðir tveggja leikja bann og missa því af leikjunum við Kína og Púertó Ríkó. Enginn herfilegur missir, en þó einhver. Svo fær gríska körfuboltasambandið sömu sekt og það serbneska, 20.000 svissneskir frankar.

Við sleppum við svona óhugnað í tvo leiki, allavega

Þetta er náttúrulega svolítill peningamissir hjá Krstič og serbneska og gríska körfuboltasambandinu, en mér sýnist bæði liðin geta lifað þetta af og hvorugt þeirra er í hættu með að komast ekki upp úr riðlunum sínum.

Munið svo að fylgjast með Fúsíjama.tv, daglegar greinar um gang HM-mótsins! Þetta hefst allt á morgun kl.13:30!

- Helgi

Wednesday, August 25, 2010

Herbergi 24

Þá er ég fluttur inn og allt komið á sinn stað. Eina sem mig vantar upp á er stærra lak fyrir tvíbreiða rúmið og eitthvað til að fest upp eina mynd og bulletin board (sem ég veit ekki enn hvað ég ætla að nota undir).

Til að sýna hve mikið mál það var að koma herberginu í standið sem það er í núna eru nokkrar "fyrir og eftir" myndir:

Eins og þið sjáið var þetta ekki sérstaklega heillandi í fyrstu
Næstum því tilbúið.
Herbergi 24, gjörið þið svo vel...
Vinnustöðin mín
Finnst þetta sérstaklega sniðugt, hólf fyrir mismunandi hluti
Ímyndið ykkur rúmið með stórt lak og stóra sæng

Lítið við ef þið eruð á Laugarvatni, er alltaf til taks og til í spjall.

Þá
er ég farinn í rúmið, á morgun er annar dagur, önnur kennslustund og önnur körfuboltaæfing.

-Helgi

Sunday, August 22, 2010

Áður en blaðið dettur inn um lúguna

Þá er ég nokkurn veginn búinn að pakka og tilbúinn að leggja af stað á Laugarvatn í fyrramálið. Þetta verður nett. Áður en ég fer að sofa eru nokkrir hlutir sem ber að nefna:
  • FIBA hefur ekki enn látið dóm falla og ég er farinn að efast um að þeir geri það með þessu framhaldi. Það gæti verið að þeir hafi ekki vald til að refsa fyrir þetta atvik þó að þeir vildu það endilega.
  • Ég er ekkert hættur að skrifa greinar á þessari síðu, en það gæti orðið smá bið í þá næstu í ljósi þess að ég er að koma mér fyrir á Vatninu. Sýnið þolinmæði.
  • Fúsíjama.tv er komið af stað á ný. Við ætlum að fjalla um HM 2010 í körfu og fara eins vel yfir keppnina og við getum. Fyrsti pistilinn birtist kl.08:06 í fyrramálið (23.ágúst) og fjallar um liðin í A-riðli.
  • Sá það í úrslitakeppni Sumardeildar KKÍ að Litháar eru rosaleg körfuboltaþjóð. Hendi inn stuttri frásögn af úrslitaleiknum á næstunni.
  • Titill þessarar greinar vísar til þess að ég hef allt of oft heyrt í blaðinu koma inn um lúguna undanfarið, sem er til marks um að ég hef vakað allt of lengi.
Góða nótt, Helgi

Friday, August 20, 2010

Smackdown milli Serba og Grikkja

Jæja, það er strax kominn smá hiti í menn í aðdraganda HM í Tyrklandi. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt af því, þá fór allt til andskotans þegar stutt var eftir af lokaleik Acropolis mótsins í Grikklandi milli serbneska og gríska landsliðsins.

Smá forsaga: Jafn og spennandi leikur. Í byrjun fjórða höfðu Serbar 6 stiga forystu. Svo fékk Ivkovič, þjálfari Serba, aðra tæknivilluna sína og þurfti að yfirgefa salinn. Serbar töpuðu forystunni. Öllum er mjög heitt í hamsi. Þá gerðist það...

Þegar 2:40 voru eftir af leiknum í stöðunni 74-73, Grikkjum í vil, fór allt í háaloft þegar Antonis Fotsis gekk til móts við Miloš Teodosič til að eiga nokkur orð við hann varðandi harða villu. Menn misstu "aðeins" stjórn á skapinu og svo fór sem fór.


Þetta kalla ég meira en "aðeins"...

Af myndbandinu að dæma sé ég ekki annað en að allir hafi misst stjórn á skapinu og tekið rangar ákvarðanir. Svona sá ég þetta:

Röng ákvörðun: Fotsis (hvítur nr.9) að fara svona upp í grillið á Teodosič (blár nr.18)
Röng ákvörðun: Teodosič að stjaka við andliti Fotsis með hnefanum (hann kýldi hann ekki)
Röng ákvörðun: Fotsis að tapa sér yfir stjakinu og reyna að rífa í hausinn á Teodosič
Röng ákvörðun: Liðsmenn Teodosič, með Krstič (blár nr.12) í broddi fylkingar, að blanda sér í málið og rífa í Fotsis aftan frá
Röng ákvörðun: Schortsanitis (hvítur nr.15), kallaður "gríski Shaq", að ráðast á Krstič
Rétt ákvörðun: Menn fara að stía mönnum í sundur þannig að hlutir róist aðeins
Röng ákvörðun: Fotsis ræðst aftur á Teodosič og tekur hann í gólfið
Röng ákvörðun: Gríski Shaq ræðst á Teodosič liggjandi
Röng ákvörðun: Krstič fer að hamra á bakinu á gríska Shaq
Röng ákvörðun: Gríski Shaq fer á eftir Krstič þegar hann byrjar að hörfa
VERSTA ÁKVÖRÐUNIN: Krstič fleygir stól í átt að gríska Shaq en í stað gríska Shaq hittir hann meidda gríska miðherjann (hvít póló skyrta með hendi í gifsi) í höfuðið þannig að hann fær blæðandi höfuðsár.

Ouch...

Vá...

Ég meina....vá...

Nú er spurning hvað FIBA mun gera. Málið er að þetta mót var á vegum Grikklands og eftir því sem mér skilst kom FIBA hvergi nærri skipulagningu þess og skipaði ekki dómara í það. Það gæti útskýrt ýmislegt. Ef dómarnir hefðu verið skárri hefði þetta hugsanlega aldrei gerst (I'm just sayin').

Eins og þetta kom mér fyrir sjónir í myndbandinu voru Krstič, gríski Shaq (nenni ekki að skrifa þetta langa nafn), Fotsis og Teodosič vondu karlarnir í þessum slag. Mér finnst að þeir ættu allir að taka út eins eða tveggja leikja bann, sjá að sér og mæta hressir til leiks að loknu leikbanninu.

Læt vita þegar FIBA-dómurinn fellur.


- Helgi

Thursday, August 19, 2010

Hvað verður um Cleveland?

Allir ræða endalaust um Miami Heat og hvernig Ofurvinirnir munu standa sig (og hvort að það viðurnefni sé málið). Engin virðist þó vilija ræða bitru fyrrverandi, sem var skilin eftir með ekkert nema sárt ennið og nokkra skítsæmilega leikmenn. Spurning sem einhver þyrfti að fara að velta fyrir sér hlýtur því að vera, hvað verður um Cleveland?

Eftir eina mestu blóðtöku í sögu NBA (Chicago Bulls höfðu þó enn Pippen) situr eigandi Cleveland Cavaliers, Dan Gilbert, eftir með $100,000 sekt eftir að hann dissaði Lebron Í MJÖG REIÐILEGU BRÉFI, enga stjörnu og enga von um frama á næstu árum.

Andlit Cleveland á næsta ári virðist ætla að vera Mo Williams og Anderson Varejao, báðir rosalega spennandi leikmenn.
Ég ræð mér ekki fyrir spennu.

Með lið sem hagaði öllu eftir einum leikmanni þá er dálítið mál að missa hann. Kerfin sem þeir spiluðu voru í kringum hann. Öll auglýsingaherferð var í kringum hann. Liðsandinn byrjaði og endaði með honum. Verða þeir áfram dansandi á bekknum í öllum leikjum eða sitjandi með höfuðið milli handanna og að reyna muna hvenær þeir unnu síðast leik?

Byron Scott, fyrrum þjálfari New Orleans Hornets, hefur tekið að sér að þjálfa liðið. Það hefur svo sem lítið að segja sökum þess hvað hann hefur að vinna með; hávaxinn brasilíumann með verstu hárgreiðslu í NBA síðan að Dennis Rodman var og hét, lítinn nagg sem getur hitt þrista en ekki mikið meira en svo og útbrunninn fyrrum All-Star leikmann sem stóð sig hryllilega í fyrra með Cleveland (skoraði meðal annars engin stig í fyrsta leik sínum þrátt fyrir mörg tækifæri).

Eini ljósi punkturinn í allri vitleysunni er hugsanlega J.J. Hickson ásamt því að Cleveland fékk tvo valkosti frá Miami í staðinn fyrir Lebron. Hickson er ungur og efnilegur og fær fleiri mínútur á næsta ári sem að hann nýtir vonandi til þess að verða betri leikmaður. Við réttar aðstæður gæti hann orðið framtíðarleiðtogi liðsins. Valkostirnir tveir tryggja líka að Cleveland fái nóg af nýjum leikmönnum á næstu árum. Þeir verða samt örugglega New Jersey Nets næsta tímabils (sem tryggir þeim svo fleiri valkosti).

Nokkrum dögum fyrir "The Decision" lét greinahöfundur frá Cleveland hafa eftir sér að ef að Lebron færi (hvert svo sem það væri) þá myndi hann fá MVP þriðja árið í röð. Það mun þó ekki verða vegna þess hve aweosome hann er á þessu ári heldur vegna þess hve illa Cleveland á eftir að standa sig án hans. MVP þýðir verðmætasti leikmaður og ef við það eitt að hann fari þá breytist vinningshlutfall liðsins úr 61-21 í 21-61 (sem er líklegt) gefur augaleið að hann fái nafnbótina þriðja árið í röð.

MVP threepeat? Já, takk

Lebron gaf það annars út um daginn að hann myndi ekki gera neitt öðruvísi varðandi Ákvörðunina. Þá hafið þið það.

- Helgi

P.S: Fékk fyrstu skammirnar fyrir pistil hjá mér um daginn. Ég skrifaði eitthvað sem var ekki vel upplýst og tók það því út. Látið mig vita ef eitthvað er vitlaust hjá mér, ég leiðrétti það. Ég er enn að fóta mig í þessu, sýnið smá þolinmæði. Tek fram að þetta eru mínar skoðanir byggðar á því sem ég les á netinu og þar fram eftir götum.

Hafið svo endilega samband ef þið eruð með fréttir sem eru ferskar, hendi þeim inn eins fljótt og auðið er (og ef ég fæ þær staðfestar).

Wednesday, August 18, 2010

Blöööörghhh!

Smá töf á næstu grein, er með heiftarlega gubbupest.

Mynd tekin af mér í morgun

Tuesday, August 17, 2010

Flake í 1.deild

Darrell Flake ætlar að spila með Skallagrím á næsta tímabili. Flake, sem er 193 cm og framherji, hefur átt mikilli velgengni að fagna í úrvalsdeild karla. Hann hefur spilað með KR, Fjölni, Grindavík og Skallagrím. Meðaltöl hans á seinasta ári með Grindavík voru 20.5 stig, 7.3 fráköst og 3.1 stoðsendingar. Harla slæmt fyrir mann að skríða yfir þrítugt.

Fyrir mig persónulega gæti þetta verið einstaklega áhugavert. Ég mun eflaust þurfa að dekka Flake í einhverjum tilfellum og mín reynsla af ungum leikmönnum að verjast gegn útlendingum er ávísun á margar villur. Sumar þeirra gætu vel verið verðskuldaðar, en dómarar vilja í mínum huga oft dæma Bandaríkjamönnum í vil. Einkar óhentugt fyrir jafn prúðan varnarmann og mig (eða þannig).

- Helgi

Monday, August 16, 2010

HM 2010: Argentína

Argentína hefur á seinustu tíu árum verið mjög sterkir og unnið fjölda titla. Þeir hafa verið nefndir Gullna kynslóðin vegna velgengisins og í liðinu hafa ekki verið minni menn en Manu Ginóbili, Luis Scola, Andres Nocioni, Fabricio Oberto, Carlos Delfino, Wálter Herrmann og Pablo Prigioni.

Emanuel "Manu" Ginóbili er talinn einn mikilvægasti körfuboltaleikmaður í sögu Argentínu. Hann hefur unnið NBA titil (2003 með San Antonio Spurs) og er einn af aðeins tveimur mönnum í sögu körfubolta til að hafa unnið NBA titil, gull á Ólympíuleikunum og titil í meistaradeild Evrópu (hinn var Bill Bradley). Því verr og miður verður Manu Ginobili ekki með liðinu í sumar vegna fjölskylduástæðna.

Fjölskylduástæður...segjum það bara...

Í ljósi þess að Manu spilar ekki mun Argentína líta til Luis Scola að leiða liðið, og hann er vel fær um það. Scola, 206 cm hár framherji, spilar fyrir Houston Rockets og hefur verið valinn verðmætasti leikmaður síðustu tveggja Ameríkubikara (2007 og 2009). Hann var með 23.3 stig, 6.8 fráköst og 2.6 stoðsendingar að meðaltali í leik í Ameríkubikarnum 2009 og var lykilmaður á Ólympíuleikunum 2004 og 2008.

Í ár verður Pablo Prigioni sem fyrr honum til halds og trausts. Prigioni, 191 cm hár leikstjórnandi, og Scola mynda eitt besta teymi í Ameríkunum sem átti stóran þátt í farsæld Argentínu undanfarin ár.


Markmið Argentínu í heimsmeistarakeppninni er ekkert annað en að vinna og ég tel að þeir hafi góða möguleika á því.

Sunday, August 15, 2010

Skiptingar á kantinum...

Loksins, loksins. NBA-frétt sem kemur Þráláta þríeykinu á South Beach ekki við.

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég hef ekki fylgst jafn vel með NBA á seinustu árum og ég geri núna, en mér finnst eins og marg-liða skiptingar séu að taka yfir deildina. Nú til dags eru flestar skiptingar (sem ég hef tekið eftir) milli margra liða en ekki bara tveggja.

Fyrir nokkrum dögum skiptu New Jersey Nets, Houston Rockets, Indiana Pacers og New Orleans Hornets á nokkrum leikmönnum.

Klikkaðu á þumalinn til að like-a þetta

Troy Murphy, 210 cm framherji sem getur neglt þrista og frákastað (45% þriggja stiga nýting og 11.8 fráköst að meðaltali í leik tímabilið '08-'09), fer frá Pacers til Nets. Nets skiptu fyrr í sumar Yi Jianlian til Washington og Murphy er margfalt betri útgáfa af Jianlian. Hann er reyndari, harðari af sér og frákastar betur. Hann getur líka dregið stóru mennina úr teignum sem gefur Devon Harris færi á að keyra inn í teig og Brook Lopez fær líka meira ráðrúm til að vinna inn í teignum í sókninni.

Pacers fá í staðinn fyrir Murphy tvo leikmenn, Darren Collison og James Posey frá New Orleans Hornets. Indiana vantar ungan, efnilegan leikstjórnanda og Collison hefur færi á að vera andlit Pacers í framtíðinni. Eins hefur liðið gott af reyndum leikmanni eins og Posey til að rífa upp móralinn.

Ástæðan fyrir því að New Orleans létu þá af hendi er tvíþætt. Í fyrsta lagi þá er Chris Paul kominn aftur og Darren Collison mun því ekki fá jafnmikinn spilatíma. Tveir frábærir leikstjórnendur í sama liði virkar ekki og því er vit í því að skipta honum fyrir einhvern sem að þeir þurfa meira á að halda.

It wasn't meant to be...

Í öðru lagi þá er James Posey með dýran samning og New Orleans vill komast undir launaþakið. New Orleans virðist því vera að stefna á það sem Chris Paul bað þá um, að redda meira hæfileikafólki í liðið, með því að losa sig við samninga Collison og Posey og fá nýjan leikmann í liðið í skiptunum í staðinn.

New Orleans, í staðinn fyrir Collison og Posey, fá Trevor Ariza frá Houston Rockets. Ariza er 203 cm framherji og hörku duglegur varnarmaður sem getur skotið boltanum nokkuð vel (negldi m.a. 40 þrista í úrslitakeppninni 2009 með LA Lakers þegar þeir urðu meistarar). New Orleans er að leita að nýjum og ferskum mönnum eins og Ariza sem getur lagt sitt af mörkum bæði í sókn og vörn.

Houston þurfti að skipta Ariza vegna þess að hann og Aaron Brooks, byrjunarliðs leikstjórnandinn, voru ekki að ná vel saman sem var ekki gott fyrir liðið. Courtney Lee mun því fara frá New Jersey til Houston til að loka lykkju skiptinga milli þessara fjögurra liða. Lee er 195 cm bakvörður sem hefur verið í deildinni í tvö ár. Á nýliðatímabilinu sínu ('08-'09) spilaði hann fyrir Orlando Magic og átti þátt í velgengni þeirra og viðkomu í úrslitarimmunni móti Lakers (þó þeir hafi verið kramdir í 5 leikjum).

Hvað sem Lee reyndi, þá gat hann ekki gefið Kobe high-five

Lee er fín skytta (40% þriggja stiga nýting á fyrsta tímabilinu) og bætti 10 tölfræðilega þætti á milli ára, þ.á.m. vítanýtingu, stuldi, stigaskor og fráköst. Hann er þessi skytta sem Aaron Brooks getur kýlt boltanum út á eftir keyrslu inn í teig eða þessi sem Luis Scola getur sent út á ef hann verður tvídekkaður. Bróðirinn telur svo að Lee sé hugsaður sem arftaki Shane Battier sökum þess hve góður varnarmaður hann er. Litli bró hefur nokkuð góða tilfinningu fyrir þessu þannig að ég reyni vanalega að hlusta á hann.

Þegar skiptingar fara fram vilja menn reyna sjá fyrir sér hvort liðið lætur í minni pokann. Það er aldrei hægt að skilja algerlega að jöfnu.

Það virðist þó vera svo í þessari marg-liða skiptingu. Allir eru að fá eitthvað sem að þeir þurfa og losna við eitthvað sem þeir geta alveg misst. Þetta er eitt af þessum goðsagnarkenndu "win-win situations". Ef ég þyrfti að velja hverjir græða mest á þessu þá myndi ég segja Indiana fyrir það eitt að fá tvo eðal leikmenn (og einn af þeim er Collison) en allir hinir fengu einn í skiptunum.

Big Bird kann að meta þetta

Í öðrum fréttum: Tracy McGrady hefur komist að samkomulagi við Detroit Pistons og Boston Celtics hafa fyrirgert samningi sínum við Rasheed Wallace, sem þýðir að það eru 99% líkur á að hann sé farinn á eftirlaun.

- Helgi

Sumarfríið er búið

Alveg er þetta ótrúlegt, ég skrepp til Ísafjarðar til að slappa af, kem svo til baka og það er allt að gerast!

Mynd tekin á Ísafirði meðan ég var þar

Ég sat þó ekki á mér í fríinu. Ég skrifaði nokkrar greinar og mun birta þær á næstu dögum (dugar ekki að fá allt í einu, það er bara kaos). Það hefur svo mikið gerst að ég tel mig geta lofað einni grein á dag næstu vikuna og ein á hverjum tveimur dögum eftir það.

Þess skal þó geta að allar NBA greinar mínar munu birtast á Fúsíjama.tv en ekki hér eftir nokkrar vikur (síðan er enn að pússa út nokkra hluti). Sömuleiðis mun öll umfjöllun um HM í körfubolta fara þar fram en ég ætla þó að birta eina og eina grein um það hér, þ.á.m. gróf umfjöllun um Argentínu á morgun.

"I sense a disturbance in the Force..."

Svo ætla ég líka að nýta þetta tækifæri til að skíta yfir Körfuna.is fyrir það að gera ekkert annað en að birta leikmannalistana fyrir liðin á HM. Ótrúlegt. Það er svo mikið hægt að skrifa um sum liðin að ég fæ bara í hausinn af því. Lesendur mínir vita allavega hvar almennilegar umfjallanir er að finna.

Fyrir þá sem eru enn í sumarfríi, njótið þess! Fyrir þá sem eru komnir úr sumarfríi þá vona ég að þið nutuð þess! Fyrir þá sem fengu ekkert sumarfrí, ég þekki tilfinninguna!

- Allir góðir hlutir taka enda (sumarfrí, þ.e.a.s.), Helgi

Friday, August 6, 2010

Kraftaverk nútímans

Í heiminum í dag eru mörg hundruð trúfélög og ennþá fleiri sértrúarsöfnuðir. Allir vilja svör við stóru spurningunum og allir þykjast vita betur en næsti maðurinn hver svörin séu. Hvað gerist þegar við deyjum? Hvernig læknast fólk skyndilega af alvarlegum sjúkdómum? Hvernig varð jörðin til?

Trúfélög hafa frá upphafi menningar og til dagsins í dag búið yfir ótrúlegum völdum. Stríð hafa verið háð vegna trúdeilna, menn hafa verið aflífaðir og fólk hefur verið heilaþvegið.

Ég er ekki að ráðast á trúfélög. Mér þykir lítið til margra þeirra koma, en ég hef ekki orku í það gefa þeim skít. Það skiptir líka engu hvaða rök maður notar, trúfélögin láta eins og endur sem hafa fengið yfir sig vatnsgusu. Rök bíta ekki á þau. Það er vegna þess að trú höfðar ekki til huga fylgjenda hennar, heldur hjarta. Rök eru án tilfinninga og kaldar á meðan að blind trú getur yljað þér í köldu svartnættinu. En hún gerir ekkert annað en það. Hún er samt sem áður blind.

Trú leitast við að útskýra hið óútskýranlega. Í fyrstu voru spurningarnar ekki flóknari en svo að fólk vildi vita hvert stóra, bjarta, hlýja kúlan færi á kvöldin. Í heiðinni trú var stóra, bjarta, hlýja kúlan nefnd Sól og var dóttir Mundilfara. Mundilfari átti líka son sem hét...það gæti þó ekki verið...Máni. Nú í dag vita allir að sólin, sem við kölluðum áður stóru, björtu, hlýju kúluna, er stjarna sem við snúumst kringum og tunglið snýst kringum okkur.

Í dag eru allar einföldu spurningarnar komnar. Jörðin er hnöttótt. Þú siglir ekki fram af henni. Þú veikist vegna baktería og veira eða ef eitthvað í líkamanum bilar. Jarðskjálftar eru ekki Loki að kippast til vegna eiturs úr nöðrunni, heldur flekar jarðarinnar að rekast saman eða togast sundur.

Nú í dag vitum við ekki af hverju fólk læknast skyndilega af krabbameini. Sumir telja það vera kraftaverk. Ég tel persónulega að það sé bara eitthvað sem að við höfum ekki uppgötvað í líkamanum sem getur stundum hægt á veikindum eða læknað þau algerlega. Nei, það er ekki ódauðlega sálin þín heldur hugsanlega genamengi sem má skoða og rannsaka og þannig hjálpa fleirum í framtíðinni.

Fyrir 200 árum héldum við að það að tappa lífsnauðsynlegt blóð úr þér læknaði flest mein. Nú í dag er þetta fáranleg hugmynd. Eftir 200 ár mun fólk hugsanlega þykja fáranlegt að við héldum að það væri kraftaverk að fólk læknaðist skyndilega af krabbameini.
"Veistu, ég er bara allur að koma til"

Ég tel mig ekki vera trúleysingja. Ég vil bara ekki trúa einhverju í blindni. Það má vel vera að Guð sé til, ég bara tek því ekki sem vísu. Ég öfunda fólk að geta trúað á Guð án þess að þurfa sönnun. Kunningjar mínir sem trúa á Guð eru vanalega mjög sáttir með tilveruna og ánægðir með lífið. Ég er bara ekki þannig.

"Trúirðu ekki á mig?!" [Lesið með röddu Morgan Freemans]

Lífið er lotterí og allt þetta stóra í lífinu er tilviljanakennt. Góðir menn jafnt sem illir menn geta lent í hremmingum. Ljóninu er sama þó að þú sért grænmetisæta, það étur þig samt.

- Helgi

Thursday, August 5, 2010

Til að friða ykkur

Ég er enn að bíða fregna varðandi liðin sem eiga eftir að fá breakdown hjá mér. Þangað til:

Nýr leikmaður Grindavíkur, Andre "Dre" Smith, er víst einfættur. Það er eitthvað nýtt.