Friday, July 30, 2010

Molar vikunnar

House í Heat
Eddie House hefur skrifað undir samning við Miami Heat upp á $2,800,000 yfir tvö ár. Hann mun hafa verið ráðinn til að gefa liðinu meiri reynslu og dýpt og hann getur gert góða hluti fyrir þetta lið. Eins og flestir muna var hann í Boston Celtics þegar þeir unnu Finals 2008 og hann getur kýlt út góðum fléttum ef þeirra er þörf.

Lorenzen Wright RIP

Í seinustu viku tilkynnti fjölskylda Lorenzen Wright til lögreglu að hann hefði ekki sést eða látið heyra í sér í fjóra daga, sem væri óvenjuleg hegðun hjá honum. Í gær fannst hann látinn í skógi fyrir utan Memphis. Lögreglan er að rannsaka málið og telur að um morð sé að ræða. Wright spilaði 13 ár í NBA, fyrst með LA Clippers, svo Atlanta Hawks, Memphis Grizzlies, Sacramento Kings og að lokum hjá Cleveland Cavaliers. Megi hann hvíla í friði.










Starbury áfram í Kína
Stephon Marbury ætlar að halda áfram að spila körfubolta í Kína. Hann samdi nýlega við kínverskt lið sem ætlar að hjálpa honum að koma af stað íþróttafatalínu sinni, Starbury. Hann spilar á sama tíma fyrir liðið sem leikstjórnandi. Og öllum er sama....

Josh Howard skrifar undir hjá Wizards

Josh Howard hefur skrifað undir eins árs samning við Washington Wizards upp á $4,000,000. Í samningnum eru einhverjar klásúlur sem hann verður að fylgja sem tengjast ábyggilega sjúkraþjálfun hans og því að hann hætti að reykja gras. Ef hann getur fylgt því eftir gæti hann orðið hluti í uppbyggingu Wizards. Vonum að svo sé, hann á nóg eftir í tanknum ef hann getur haldið sig frá meiðslum.








Thursday, July 29, 2010

Breakdown 7: Leiknir

Leiknir
Leiknir komst upp úr 2. deildinni á síðasta tímabili með því að verða í öðru sæti í úrslitakeppninni (tapaði í úrslitaleik fyrir Laugdælum). Takmark þeirra hlýtur að vera að halda sér uppi í ár.

Samkvæmt heimildum mínum mun Ari Gunnarsson þjálfa Leiknismenn á næsta tímabili. Ari spilaði lengi í efstu deildum, þ.a. mest með Skallagrími. Hann þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá Val í fyrra en ætlar núna væntanlega að vippa Leiknismönnum í form og halda þeim í 1. deild.

Það eru engin brottföll í liði Leiknis (að mér skilst), en nokkrir gætu bæst við. Þau nöfn eru ekki þekkt en heimildir herma að nokkur ný andlit hafi sést á sumaræfingum.

Leikmenn Leiknis frá því í fyrra verða flestir áfram. Helst ber þar að nefna Hallgrím Tómasson, Úlfar Kára Guðmundsson, Hilmi Hjálmarsson, Einar Hansberg Árnason og Daða Stein Sigurðsson.

Í fyrra voru þessir fimm oftast byrjunarliðsmenn og eru allir sterkir í sínum stöðum. Hallgrímur Tómasson, kallaður Halli Boom Boom, hefur verið valinn besti leikmaður Leiknis í nokkur ár og er öflugur framherji. Úlfar Kári er miðherji liðsins, langur (yfir 2 m á hæð), sterkur og mikill sóknarfrákastari. Hilmir Hjálmarsson er orkubolti (af því sem ég sá í úrslitakeppninni) og í góðu formi. Hann er aftur á móti með slæm hné sem gætu gert honum erfitt fyrir í 1. deildinni. Á seinasta tímabili var hann oft ekki í byrjunarliðinu út af hnjánum. Einar Hansberg er leikstjórnandi liðsins og samkvæmt tölfræðinni einn af þessum sem eru allt í öllu (10.4 stig, 4.8 fráköst, 2.8 stoðsendingar og 2.6 stolnir boltar að meðaltali í úrslitakeppninni). Daði Steinn er skotbakvörðurinn og samkvæmt heimildamanni mínum góð þriggja stiga skytta og baneitraður í að stela (þó að tölfræði hans í úrslitakeppninni gefi slíkt ekki til kynna).

Aðrir spámenn í liðinu eru þriggja stiga sérfræðingur liðsins og varaleikstjórnandi, Snorri Fannar Guðlaugsson. Í úrslitakeppninni, þar sem hann spilaði 4 leiki, hitti hann úr 7 af 16 þriggja stiga skotum (43.8% nýting), þ.a. 3 af 5 á móti Laugdælum í riðlakeppninni. Sigurður Gíslason er annar sérstakur. Hann spilar bakvörð en er víst rosalegur frákastari (þrátt fyrir að hann hafi ekki hæðina með sér). Jón Mikael Jónasson, sem var meiddur góðan hluta af seinasta tímabili, verður annar sem kemur sterkur af bekknum.

Í deild sem er jafn öflug og 1. deildin verður á komandi tímabili, þá verða einhver lið að verða í fallsætinu. Ég held að Leiknir eigi eftir að þurfa að sætta sig við fallsætið eftir næsta tímabil. Margir leikmenn Leiknis eru mjög góðir en ef þetta verður svipað lið og í fyrra þá munu þeir falla. Annað hvort verður Ari Gunnars þjálfari að koma með nýjar áherslur og hugmyndir eða þeir þurfa einfaldlega betri leikmenn (hugsanlega útlending). Ég spái Leikni botnsætinu.

- Helgi

Sunday, July 25, 2010

Breakdown 6: Valur

Valur
Valur stóð sig vel í 1. deildinni í fyrra en náðu ekki að slútta tímabilinu eins og þeir hefðu viljað. Þeir luku deildarkeppninni með 12 sigra í 18 leikjum (vinningshlutfall 0.667) og tóku því þátt í úrslitakeppninni um lausa sætið upp í úrvalsdeild. Þeir byrjuðu á því að afgreiða Skallagrím í Vodafonehöllinni en svo tapa á móti þeim á útivelli. Þeir náðu þó að vinna oddaleikinn 84-77 og héldu því áfram í keppninni og mættu Haukum. Valur tapaði báðum leikjum (88-69 og 73-82). Þeir þurfa því að taka sig saman í andlitinu og líta til næsta tímabils.

Yngvi Gunnlaugsson verður sem fyrr þjálfari þeirra á næsta tímabili og leggur áherslu á að hann vilji ekki leggja neina pressu á leikmenn sína.

,,Ég vil ekki að neinn leikmaður beri þetta eins og myllustein um hálsinn, að komast upp í úrvalsdeild eða ekki.“

Páll Fannar Helgason, sem vann titil með Snæfell á seinasta tímabili, hefur skrifað undir hjá Val. Tölfræði hans frá því í fyrra (2.6 stig, 0.7 fráköst og 0.7 stoðsendingar að meðaltali) er ekki mjög tilkomumikil en hann var að fá takmarkaðar mínútur hjá meistaraliði Snæfells. Nú er annað í boði. Hann verður líklega byrjunarliðsmaður og sjötti maður í versta falli. Páll Fannar ætlar væntanlega að gera góða hluti á næsta tímabili og hefur alla burði til að verða lykilmaður hjá Val.

Ekki er enn ljóst hvort Hörður Hreiðarsson verður með á næsta tímabili en Yngvi þjálfari er vongóður. Hörður var nokkuð góður á seinastu leiktíð (12.6 stig, 5.3 fráköst og 1.7 stoðsendingar að meðaltali) en sýndi einstaka takta í úrslitakeppninni (18.8 stig, 8.0 fráköst og 1.8 stoðsendingar að meðaltali í fimm leikjum). Á sumum spjallborðum eru menn að tala um að Hörður sé á leið til Ármanns en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sömuleiðis er óljóst hvort að Byron Davis (21.2 stig, 6.3 fráköst og 4.0 stoðsendingar að meðaltali) snúi aftur.

Bekkurinn hjá Val er ekki slæmur miðað við aðra og má þar t.d. nefna þó nokkra fyrrum unglingalandsliðsmenn (Snorri Páll, Pétur Þór og Toggi), Guðmund Kristjánsson og Guðmund Ásgeirsson og Sigurður Friðrik Gunnarsson (gamall Keflvíkingur sem heldur uppi sæmilegari fréttaveitu á YouTube um allt sem kemur að körfubolta kringum Keflavík) en það er ekki endilega nóg.

Það sem vefst mest fyrir mér er sú staðreynd að Yngvi þjálfari er að sjá um bæði karla- og kvennalið Vals sem eru bæði í 1.deild. Þó að hann fái hjálp frá aðstoðarþjálfurum sínum (Lýður Vignisson hjálpar með strákana og Hafdís Helgadóttir með stelpurnar) þá veit ég ekki hvort að hann fái þá endilega það allra besta úr báðum liðum.

Með nokkrum góðum leikmönnum í viðbót eða tveimur útlendingum í stað eins þá gæti Valur verið á leið upp, en með liðið í núverandi mynd og þjálfara skipt milli tveggja liða þá ættu þeir ekki að búast við þeirri niðurstöðu.

- Helgi

Wednesday, July 21, 2010

Aukaleikarar Miami Heat

Miami Heat liðið er komið fyrir árið 2010-2011. Eftir nokkrar vikur af óvissu og tilfærslum er búið að þjappa á bekkinn. Samningar hafa verið staðfestir, skjalfestir og þinglýstir. Allir og ömmur þeirra hafa lýst sínum skoðunum á þessu og nú er komið að mér.

"Hvað er málið með þennan Lebron?"

Eftir að Wade, Bosh og Lebron ákváðu að leiða saman hesta sína og löðrunga NBA-deildina næstu árin þá fóru menn að leitast eftir að ganga í raðir Miami og taka þátt í leitinni að The One Ring. Það má þó aldrei gleyma stuðningsmönnunum. Þrír menn vinna ekki titil. Hérna eru helstu spámenn og klappstýrur liðsins.

Udonis Haslem (nr.40) var meðal þeirra fyrstu til að ganga (aftur) í raðir Miami. Haslem á sér nokkuð sérstaka sögu. Hann var ekki valinn í nýliðavalinu 2002 og fór þá til Frakklands að spila í eitt ár. Árið eftir skrifaði hann undir hjá Heat og hefur verið þar allar götur síðan. Hann hefur verið fyrirliði Heat síðustu þrjú tímabilin (eða öllu heldur co-captain með Wade) og er hjarta liðsins. Haslem og Wade eru nánir vinir og komu einmitt inn í deildina á sama tíma og hafa verið liðsfélagar í 7 ár. Það kom því ekkert annað til greina en að hann sneri aftur.

Mike Miller (nr."?") var einn sá fyrsti til að vera nefndur sem leikmaður sem Heat vildu fá í sínar raðir. Lebron og Wade geta alveg hitt úr þristum, en Miller er sérfræðingur. Hann var með 48% þriggja stiga nýtingu í fyrra hjá Washington og ég tel að hann eigi eftir að bæta þetta hlutfall. Hann fær ábyggilega ekkert nema opin skot fyrst að vörnin verður ávallt að þjappa og bregðast við Þráláta Þríeykinu (copyright pending). Bíðið bara, ég spái 55% þriggja stiga nýtingu á komandi tímabili. Eins og ég bjóst við fær hann í kringum $5,000,000 á ári ($25,000,000 fimm ára samningur, do the math). Þess má geta að hann og Haslem eru báðir fyrrum liðsfélagar úr háskólanum í Flórída. Það hefur haft eitthvað að segja í ákvörðun þeirra beggja.

Zydrunas Ilgauskas (nr.11) sá í hvað stefndi hjá Cleveland og ákvað að taka saman föggur sínar og redda sér titli í sólinni. Hann er púsluspilið sem vantaði í byrjunarlið Miami og mun gera það sem þarf til að vinna leiki: frákasta og þvælast ekki fyrir þremenningunum. Nú hefur Heat stóra manninn sinn. Hann mun þurfa að sætta sig við launalækkun ásamt því að skora minna, en hey, hann er þó ekki skósveinn Shaq lengur.

Mario Chalmers (nr.15) og Carlos Arroyo (nr.30) eru í dálítilli óvissu þessa dagana. Þeir eru pure leikstjórnendur en gætu verið að fara taka sæti á bekknum fyrir mönnum eins og Lebron og hugsanlega Wade í byrjun leikja og í lok þeirra. Hvort að Chalmers og Arroyo byrji inn á í stað Miller fer eftir hver þeirra eigi besta undirbúningstímabilið, held ég.

Rumarnir - Joel Anthony (nr.50), Juwan Howard (nr.5), Jamaal Magloire (nr.21) og Dexter Pittman (nr.54) eru allir stórir menn sem munu gisja bekkinn. Manni gæti þótt þetta vera frekar skrítið að hafa svona marga leikmenn sem eru allir kringum 2.10 m á hæð og eru allir miðherjar. En þegar þú pælir í því þá eru þrír menn í liðinu sem geta spilað og munu spila 40 mínútur að meðaltali í leik. Það þýðir að góður hluti skiptinga verða á stóru mönnunum og öðru hvoru milli Miller, Chalmers og Arroyo. Magloire og Howard hafa reynsluna (10 og 16 ár í deildinni), Joel Anthony er varnarsinnaður blokkari og Dexter Pittman er ungur, þungur (131 kg) og efnilegur.

Rumarnir: Magloire, Howard, Anthony og Pittman

James Jones (nr.22), varamaður Heat og skítsæmileg skytta (36,5% þriggja stiga nýting undanfarin tvö ár hjá Miami), verður svo einn af þeim sem mun vera að berjast um 12. sætið á bekknum við Pittman og Magloire.

Bónus: Anfernee "Penny" Hardaway?!?!
Penny Hardaway (39 ára) hefur lýst yfir áhuga á að snúa aftur í NBA og reyna við að komast í liðið hjá Miami Heat. Hann hætti í NBA árið 2007 vegna slæmra hnjáa. Hann segir að hann sé skárri í hnjánum og sé núna að spila körfubolta 5 sinnum í viku. Hann gerir sér grein fyrir að hann fái litlar eða engar mínútur en hann er tilbúinn að vera rödd reynslunnar í búningsklefanum og á bekknum. En sú fórnfýsi. Þetta hefur ábyggilega ekkert með það að gera að hann hefur aldrei unnið titil og vilji komast í sögubækurnar með allavega einn titil í farteskinu. Örugglega ekki...

"Drullaðu þér út, Penny"

Pat Riley segir að hann ætlar alls ekki að þjálfa Miami á þessu ári. Hann er búinn að andmæla gróusögunum svo lengi að ég held að hann sé að segja satt. Eða hvað....

"Hvað er þetta, trúið þið mér ekki?"

Miami er að fara eiga gott tímabil ef Þráláta þríeykinu tekst að spila saman og ef Lebron verður ekki púaður af leikvellinum þegar þeir spila í New York-borg, Cleveland, Chicago, Los Angeles og hugsanlega á nokkrum öðrum stöðum. Spái ekki færri sigrum en 50 og ekki fleiri en 60.

- Helgi

Tuesday, July 20, 2010

Flutningur [Uppfært]

Mér hefur boðist að ganga í lið með tveimur öðrum sem vilja flytja fréttir af NBA-deildinni á næsta ári með smá persónuleika í greinunum. Ég ætla að þiggja það. Það er gaman að skrifa greinar um NBA deildina og skíta yfir hluti eins og sýndarmennsku Lebrons eða yfirlæti Kobes en ég mun ekki hafa tíma til að kýla út nokkrum greinum á dag í vetur.

Ég ætla samt að taka þessu alvarlega og er m.a.s. að pæla í að fjárfesta í áskrift að tímaritum um NBA (keyword: pæla). Það er gaman að hafa eitthvað svona til að detta í ef maður hefur lausan tíma fyrir framan tölvuna. Það er nóg af fréttum að hafa og það er alltaf eitthvað skemmtilegt sem ég get skrifað um.

Lokatakmarkið er að verða eins og David Aldridge, þ.e.a.s. verða svartur

Ætla henda inn einni grein í viðbót um væntanlegt lið Miami (ég fæ ekki nóg af þessum sirkus á South Beach) á morgun.

[Uppfært] Síðan fer ekki alveg strax af stað, við kickum henni af stað samhliða/rétt fyrir HM í körfubolta sem byrjar 28. ágúst. Ætla þá að klára Breakdown séríuna og skila inn greininni um Miami þegar veðrið hættir að vera svona awesome.

Lebron er á rangri hillu í lífinu:


Svona varð Kobe Bryant að egóistanum sem hann er í dag:

Friday, July 16, 2010

Molar vikunnar

Bosh er team player, Lebron er dreamer
Chris Bosh vill vera team player og er tilbúinn að sætta sig við að skora minna. Lebron James telur aftur á móti að tölfræði þeirra þriggja muni ekki lækka svo mikið vegna þess að engir þeirra muni þurfa að taka erfið skot. Með þrjár stjörnur í liðinu er minna álag á hverjum og einum þeirra og þeir taka því betri skot og bæta nýtinguna sína. Finnst þetta tæp rökleiðsla hjá honum.



The Mili-shit has hit the fan
David Kahn, eigandi Timberwolves, heldur að Darko Mili-shit eigi eftir að springa út á þessu ári og sýna það að hann sé leikmaðurinn sem búist var við þegar hann varð annar í nýliðavalinu 2003, valinn á eftir Lebron James. Kahn fór dálítið í vörn þegar hann var spurður út í há laun Darkos og gekk svo langt að líkja Mili-shit við þann sem var að taka viðtalið við hann: Chris Webber. Webber tók ekki vel í það eins og sést á myndbandinu.



"Ummm, hi, I'm Michael Beasley..."
Michael Beasley hefur verið skipt frá Miami Heat til Minnesota Timberwolves. Miami fær í staðinn tvö af drögum Minnesota í nýliðavalinu að ári. Beasley var valinn annar í nýliðavalinu 2008 á eftir Derrick Rose. Hann stóð sig ekki illa en aldrei jafn vel og Miami hefði viljað. Nú fær Beasley að njóta sín sem hugsanlegur leiðtogi Timberwolves og Miami hefur meiri launarýmd til að bæta við leikmönnum á launaskrá sína. Win-win í mínum augum. Kynningin hans gekk svo vel að hann var beðinn að kynna sig og hann hafði þetta að segja (eða hvísla, öllu heldur): "Ummm, hi, I'm Michael Beasley." Hann leit pínu út eins og hann væri á einhverju...

The bitter taste of Quitness
Great Lakes Brewing Company bauð upp á bjór í takmörkuðu upplagi í Cleveland síðast liðinn miðvikudag. Bjórinn hefur einkennandi biturt eftirbragð og hefur fengið nafnbótina "Quitness" til heiðurs Lebron James, sem margir borgarbúar Cleveland hafa ekki fyrirgefið "svikin". Bjórinn seldist upp á 3 klukkustundum og stefndi Great Lakes á að framleiða meira og koma því á bari Cleveland fyrir laugardagskvöldið.

Skál fyrir vonbrigðum!

The Decision 2
Steve Carell tók Lebron fyrir á ESPYs verðlaunahátíðinni fyrir nokkrum kvöldum síðan. Snilldarlega gert og mjög fyndið.


- Helgi

Wednesday, July 14, 2010

Big Z goes to Miami

Svo virðist sem að Cleveland Cavaliers séu endalaust að fá slæmar fréttir. Nú er orðið ljóst að Zydrunas Ilgauskas ætlar að yfirgefa Cavs og halda til Miami. Lebron hefur augljóslega náð að fá gamla segginn með sér með loforðum um titil.

"Pssst! Miami er málið. Láttu það ganga."

Ég styð Big Z í þessarri ákvörðun. Hann hefur verið hjá Cleveland í 11 ár og þeir launa honum tryggðina með því að skipta honum til Washington í fyrra og sömdu svo við hann aftur (á lægri launum) eftir að Wizards losuðu sig við hann og hann kom til baka. Mér þykir það ekki svalt. Þeir borguðu honum $925,000 í fyrra. Skammarlegt. Miami getur að sjálfsögðu ekki boðið honum neinn stjörnu samning, en þeir hafa eitthvað verðmætara. Öruggt sæti í úrslitakeppninni að ári, Lebron félaga hans og sólríkar strendur. Cleveland hefur ekkert af þessu.

Cleveland verður að sætta sig við að þeir munu varla ná inn í úrslitakeppnina á næsta ári. Bréf Dan Gilberts, eiganda Cavaliers, þar sem hann skítur yfir Lebron og lofar að Cavs nái titli á undan Lebron, var skrifað í reiðikasti. Hann getur ekki reddað Cavs úr þessarri klípu fyrir næsta tímabil. Ég veit það, Lebron veit það og ég er viss um að Dan Gilbert gráti í koddann sinn á hverju kvöldi því að hann veit það líka (ásamt því að hann skuldar $100,000 fyrir þetta skítkast sitt).

"Pay up, bitch."

Mér finnst að það sem að þeir ættu að gera í þessarri stöðu er að reyna byggja upp ungu leikmennina sína (JJ Hickson getur orðið öflugur eftir 1-2 ár), spara pening og kannski m.a.s. íhuga að standa sig svo illa á næsta ári að þeir gætu náð nokkrum góðum sætum í Nýliðavalinu á næsta ári. Þeir eru nú þegar komnir með tvö sæti í viðbót í valinu frá Miami. Þeir gætu mögulega eignað sér góðan hluta af 2011 árgangi nýliða.

Cleveland rýmkaði nokkuð vel til í launaþakinu sínu fyrir Kónginn sem síðan ákvað að yfirgefa hásætið og senda borgina aftur í myrku aldirnar. Þeir ættu samt ekkert endilega að vera spreða þessu rými bara til að nota það. Hvað með að bíða í eitt ár? Nokkrir leikmenn í viðbót munu losna undan samningi á næsta ári og Cavs geta þá byggt liðið upp nánast frá grunni. Þeir gætu reynt að púlla Celtics, þ.e.a.s. setja saman nokkrar reyndar stjörnur með efnilega nýliða á bak við þær. Virkaði fyrir Celtics, Cavs gætu náð einhverjum árangri með því. Það er bara leitt hvað Cleveland er óspennandi borg.

Dwayne Wade hefur núna gefið út að Miami séu komnir yfir erfiðasta hjallann. Haslem hefur endurnýjað samninginn sinn, Big Z er kominn í miðherjann og Miller hefur lýst yfir áhuga á að koma til Miami ef samningar ganga upp (sem hlýtur að fara að skýrast á næstu dögum).

Þá gæti byrjunarliðið verið komið. Sumir telja að Lebron gæti tekið að sér leikstjórnendastöðuna í ljósi þess hve góður sendingamaður hann er (8.6 stoðsendingar að meðaltali á seinustu leiktíð, 6. hæstur í deildinni) og hve mikla líkamlega burði hann hefði yfir aðra leikstjórnendur (ekki ósvipað og Magic nokkur forðum). Wade yrði þá í sinni venjulegu stöðu sem skotbakvörður og Miller myndi þá fara í þristinn (köllum hann skotframherjann). Bosh færi í framherjann og Big Z yrði miðherjinn með Haslem tilbúinn á bekknum í afleysingar fyrir stóru mennina. Chalmers fengi svo að koma inn á þegar hans hátign myndi þóknast að láta skipta sér út af.

Hey, minn tími mun koma

Ekki í bráð, félagi. Ekki í bráð...

Sem sagt:

PG: Lebron James
SG: Dwayne Wade
SF: Mike Miller
PF: Chris Bosh
C : Zydrunas Ilgauskas
6th: Haslem
Ruslmínútur: Chalmers

Þetta gæti bara gengið. Veit samt ekki með Lebron hvað varðar vörnina. Hann vill fara inn í teig til að blokka skot en gefur þá leikstjórnendunum sem hann á að vera verjast gullin tækifæri í þristum. Kemur í ljós. Miami eru ekki búnir, það er nóg af leikmönnum ekki á samning sem vilja koma í sólina.

Niðurlag: Miami Heat virðist vera á góðu róli og Cleveland er fökkt.

-Helgi

Tuesday, July 13, 2010

Breakdown 5: Þór Þorlákshöfn

Þór Þorlákshöfn
Þór Þorlákshöfn stóðu sig vel í 1. deild í fyrra þó að það hafi að lokum ekki skilað þeim sæti í úrvalsdeildinni. Þeir unnu 12 af 18 leikjum (vinningshlutfall 0.667) líkt og Skallagrímur og Valur. Þeir fóru því í úrslitakeppnina um lausa sætið upp um deild en töpuðu í oddaleik fyrir Haukum (sem enduðu á að vinna Val og komust því upp í úrvalsdeild).

Benedikt Guðmundsson, betur þekktur sem Benni Gumm, hefur skrifað undir samning við Þór Þorlákshöfn um að vera þjálfari til næstu þriggja ára. Benni þjálfaði í fyrra meistaraflokk kvenna í KR þegar þær urðu Íslandsmeistarar og þjálfaði árið þar á undan meistaraflokk karla í KR þegar þeir urðu Íslandsmeistarar. Góð meðmæli þar á ferð. Hann mun reynast Þór vel á komandi tímabili.

Hann tekur þó ekki við sama liði og í fyrra. Samkvæmt Körfunni.is verða 12 af 17 leikmönnum seinasta tímabils ekki með. Af myndinni frá undirskrift samningsins leyfi ég mér að giska að Grétar Ingi Erlendsson (17.6 stig og 7.3 fráköst að meðaltali) og Baldur Þór Ragnarsson (11.2 stig, 3.8 fráköst og 6.0 stoðsendingar að meðaltali) verði með.

Nema þeir hafi verið þarna sem lífverðir formannsins...

Þorsteinn Ragnars, yngri bróðir Baldurs, mun sömuleiðis vera með. Ég veit ekki alveg með Emil Karel. Hann hefur fengið nokkrar mínútur hjá Þór og nýtt þær sæmilega (2.7 stig og 1.2 fráköst á 8:15 að meðaltali), en FSu gæti verið meira fyrir hann. Hann fengi fleiri mínútur þó að hann væri ekki endilega með jafn góðu liði. Á þessum aldri er ekkert endilega gott fyrir hann að vera í betra liði og sitja á bekknum, það gæti reynst honum vel að fá fleiri mínútur og öðlast meira sjálfstraust með meistaraflokki. Annars er þetta bara hugleiðing hjá mér, hef ekkert heyrt um hvað hann eigi eftir að gera.

Magnús Pálsson verður ekki með þennan vetur og ætlar að taka sér pásu frá körfuboltaiðkun. Ég veit ekki af hverju. Hann var mjög öflugur á seinustu leiktíð (15.5 stig og 5.8 fráköst að meðaltali) og var ein af ástæðum þess að Benni Gumm ákvað að koma til Þorlákshafnar. Hann kemur þá bara á næstu leiktíð eða eitthvað. Óþarfi að pæla í honum í ár nema hvað varðar missi liðsins af honum. Richard Fields kemur heldur ekki aftur.

Í staðinn eru Þórsarar nú þegar komnir með Kana að nafni Courtney Beasley sem á að sögn Benna að vera ekki ósvipaður leikmaður og AJ Moye. Getur allt og er til almennra leiðinda fyrir varnarmenn andstæðinga. Sheeeeeit...

Ég hef engar fleiri fregnir í bili en þykist viss um að einhverjir eiga eftir að ganga í lið með Þór Þorlákshöfn, hvort sem að Benni Gumm fær þá til þess eða þeir koma af sjálfsdáðum.

Annars held ég að Þór verði erfiðir í fyrri hálfleik en það fari að draga úr þeim seinni part leikja nema þeir geti sett góða varamenn á bekkinn í staðinn fyrir þessa 12 (örugglega ekki svo margir) sem verða ekki með frá því í fyrra. Fæst lið geta unnið heila leiki á byrjunarliðinu.

- Helgi

Kobe vs. Raja?

Los Angeles Lakers (með Kobe Bryant í forystu) hafa undanfarið verið að reyna að fá Raja Bell til að skrifa undir samning hjá þeim.

Bell er góður varnarmaður og góð þriggja stiga skytta. Ég ímynda mér að Lakers séu að hugsa sér að þeir þurfi fleiri varnarmaskínur til að ráða við Þrjá Kónga Miami og til að styrkja bekkinn sinn.

Það er ekki endilega ástæða til að halda öðru fram en að þetta sé bara hver annar samningur, en mér finnst þetta áhugavert miðað við eftirfarandi mola úr fortíð Kobe og Raja:



Eftir þennan leik var Raja Bell settur í eins leiks bann og hann og Kobe skiptust á skömmum. Bell kallaði Kobe hrokafullan og tilgerðarlegan og Kobe kallaði Bell "krakka" (þrátt fyrir að Bell sé eldri en Kobe) sem óþarfa væri að velta sér upp úr. Atvikið gerðist í fimmta leik Lakers og Suns í fyrstu lotu úrslitakeppninnar árið 2006. Phoenix endaði á því að vinna séríuna.

One Source (litli bróðir Multiple Sources) gaf út að þetta væri ein af höfuð ástæðum þess að Kobe vildi fá Bell í liðið, að leikmaður sem væri ekki hræddur við að gefa honum einn á hann væri leikmaður sem hann vildi hafa í liðinu sínu.

Lakers hafa þó ekki nema $1,800,000 eftir af mid-level undanþágunni sinni til að gefa honum á næsta ári. Er það nóg? Bell hefur verið meiddur í þó nokkurn tíma og er núna fyrst 100% eftir aðgerð í desember 2009. Þeir geta borgað honum svona lítið, en það er ekki víst að hann þiggi það. Hann langar meira til Flórída vegna tengsla sinna við staðinn og vegna fjölskyldu sinnar (ekki vegna þess að hann hefur aldrei tekið Dwayne Wade í headlock).

Multiple Sources gáfu út að Bell og Kobe séu löngu búnir að sættast og því ætti þetta ekki að vera neitt mál.


Gaur, þetta var allt í djóki. Þú ert awesome.

Persónulega held ég að hann komi Lakers vel að gagni og geti hjálpað þeim að rífa titilinn af Miami á fyrsta árinu áður en þeir verða óstöðvandi. Hann ætti að sætta sig við þessi laun til að fá að spila með Lakers. Hann er ekki svo mikill fengur að hann hafi efni á að gefa skít í þá.

UPPFÆRT: Raja Bell hefur skrifað undir þriggja ára samning við Utah Jazz. Hann hefur líklega verið ráðinn inn í stað Kyle Korver sem fór til Chicago Bulls með Carlos Boozer.

- Helgi

Bell er klassa varnarmaður og enn betri leikari

Monday, July 12, 2010

Three Kings [UPPFÆRT]

Jæja, þá verða Heat á toppi NBA deildarinnar næstu árin. Lebron James, Dwayne Wade og Chris Bosh hafa skrifað undir 6 ára samning við Miami Heat og munu því að öllum líkindum ríkja yfir deildinni á komandi árum. Sumir eru byrjaðir að kalla þá Three Kings. Mér finnst það flott.

Chris Bosh: "Three Kings? Hell, yeeeaahhh...!"
Dwayne Wade: "Man, I look gooood..."
Lebron James: [This better get me a championship ring...]

Þá er bara spurning hverjir vilji taka að sér hinar 13 stöðurnar í liðinu fyrir engan pening? Málið er að öll lið þurfa að hafa 16 leikmenn á samning (gæti verið 14 eð 18) og samkvæmt NBA.com þá eru 4 menn í liðinu þeirra á samningi: Lebron, D-Wade, Bosh og Mario Chalmers. Kóngarnir hafa allir fallist á að taka minni laun en þeir gætu beðið um til að Miami geti fengið góðan stuðning við þá.

Í fyrra fékk D-Wade $15,779,912 í laun hjá Miami Heat. Ef gert er ráð fyrir að hinir tveir þiggi svipuð laun þá hefur Miami eytt u.þ.b. $48,000,000 í þrjá leikmenn.

Launaþakið fyrir 2010-2011 verður $58,044,000 en lið mega slaga upp í $70,307,000 áður en þau fara að greiða sektir. Til þess að lið megi borga leikmönnum meira en launaþakið leyfir þurfa þau að nýta ákveðnar undanþágur. Miami á þá $10,044,000 upp í launaþakið og $12,263,000 ofan á það. Undanþágur geta verið flóknar en eru í raun þannig að laun sumra leikmanna geta verið undanþegin frá launum liðsins svo það sé undir launaþakinu. Allt um þetta hér (undanþágur er liður nr.19). Ef lið fer yfir $70,307,000 þá borgar það $1 fyrir hvern $1 sem það er yfir.

Miami hefur í mesta lagi $22,307,000 til umsýslu á þessu ári (ef þeir vilja ekki borga tvöfalt fyrir hvern dollara eftir það). Chalmers fær $854,389. $21,452,641 eftir. Orðrómar eru um að Mike Miller, 3 stiga sérfræðingurinn, sé á leið til þeirra. Laun hans í fyrra voru $9,780,957. Jafnvel þó hann taki talsverða launalækkun þá er fáranlegt að ætlast til að hann taki minna en $5,000,000. Derek Fisher, gamalreyndi leikstjórnandi Lakers, fékk skítaboð frá Lakers ($2,500,000) og eru Miami að reyna fá hann í raðir sínar. Þeir hljóta að bjóða honum $3,000,000-$5,000,000. Nú eru sex leikmenn á samningi og Miami á ca. $12,000,000 eftir.

UPPFÆRT: Fisher verður áfram hjá Lakers. Hann hafnaði boði Miami og tilkynnti á vefsíðu sinni að hann yrði áfram hjá Lakers. Hann sagði: "While this may not be the most lucrative contract I've been offered this off season, it is the most valuable." Þar hafið þið það.

Þá vantar líka miðherja. Bosh er ekki nógu sterkur varnarlega og það verður einhver að frákasta öll skotin sem kóngarnir (og Miller) eiga eftir að taka. Jamaal Magloire og Juwan Howard hafa báðir verið í sambandi við Miami og eru báðir nokkuð reyndir (Magloire er á sínu 9. ári í deildinni og Howard á sínu 16.) stórir menn sem flækjast lítið fyrir stjörnunum í liðunum sem þeir spila með. Góðir stuðningsleikmenn. Hvorugur þeirra má þiggja minna en ca. $1,200,000 og eru ekki í aðstöðu til að krefjast hárra launa.

Úr Summer League hafa nokkrir efnilegir verið að spila fyrir Miami, þeir Hasbrouck, Randolph og Scheyer. Kenny Hasbrouck og Jon Scheyer eru bakverðir á fyrsta ári og Shavlik Randolph er framherji sem hefur verið í deildinni í 5 ár en ekki fengið mikinn séns. Saman myndu þeir þrír kosta u.þ.b. $2,000,000.

Það er ljóst að Miami getur alveg skrapað einhverjum saman ef allir taka launalækkun og undanþágur ganga upp. Þetta verður samt nokkuð mikið maus, ímynda ég mér. Pat Riley er samt klókur eigandi. Fyrst hann náði þremur ofurstjörnum saman hlýtur hann að geta hóað saman tylft af leikmönnum í kringum þá. Það er bara spurning hve góð sú tylft verður. Kemur í ljós.

Hér er svo listi yfir þá sem hafa skrifað undir nýja samninga þann 11.júlí fyrir komandi tímabil:
Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

- Helgi

Thursday, July 8, 2010

Breakdown 4: Þór Akureyri

Þór Akureyri
Þór Akureyri vann ekki nema 6 af 18 leikjum á síðasta tímabili (vinningshlutfall 0.333) og varð því að sætta sig við 8. sætið. Þeir unnu báða leiki við bæði fallliðin (Hrunamenn og ÍA) og unnu tvo tæpa leiki við liðin í 6. og 7. sæti í deildinni. Þeir voru ekki í það mikilli hættu á því að falla niður í 2. deild en töpuðu seinustu þremur leikjum sínum í röð svo að þeir gátu ekki gengið að neinu vísu fyrr en eftir þriðju seinustu umferðina þegar ÍA tapaði og gat því ekki nema jafnað vinningshlutfall Þórs (og hefði þá fallið á innbyrðis viðureignum).

Fyrir næsta tímabil hefur Þór Akureyri ráðið Konrad Tota, fyrrum þjálfara Skallagríms, sem þjálfara. Hann verður spilandi þjálfari og Sigurður G. Sigurðsson hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari. Sigurður hefur lagt skóna á hilluna eftir farsælan leikferil með Þór Akureyri vegna meiðsla og mun stýra bekknum þegar Tota er inn á vellinum.

Ólafur H. Torfason er kominn heim frá námi í USA og hefur skrifað undir samning við liðið. Hann er 23 ára og hefur spilað með yngri flokkum Þórs og spilað einn og einn leik með meistaraflokki þegar hann hefur komið heim um hátíðarnar. Í þeim fáu leikjum sem hann hefur spilað í 1. deild hefur hann verið með 17.1 stig að meðaltali í leik. Leit mín á alvefnum gefur til kynna að Ólafur hafi stundað bæði körfubolta og amerískan ruðning úti meðan hann var í námi (eða það var annar Ólafur Torfason úti í námi á sama tíma og hann). Hann er því væntanlega nokkuð sterkur og verður án efa erfiður viðureignar á næsta ári.

Wesley Hsu hefur endurnýjað samninginn sinn við félagið sem eru mjög góðar fréttir fyrir þá. Hsu var á seinasta ári með 13.5 stig, 3.8 fráköst og 1.3 stoðsendingar að meðaltali í leikWesley og Ólafur þekkjast frá USA og miðað við heimasíðu Þórs þá hafa þeir spilað nokkuð mikið saman og þekkja vel til hvors annars.

Óðinn Ásgeirsson var án efa verðmætasti leikmaður Þórs á seinustu leiktíð og er einn besti leikmaður sem Þór Akureyri hefur alið af sér. Hann stóð sig glæsilega á seinasta ári og skilaði 17.4 stigum, 10.6 fráköstum og 1.9 stoðsendingum að meðaltali í leik. Hann komst m.a. í úrvalslið 1. deildar. Það er ekki staðfest að hann verði með á næsta tímabili (ennþá), en ég held að annað væri fáranlegt.

Bjarki Ármann Oddsson hefur spilað með Þór Akureyri allan feril sinn nema eitt ár með KR (varð þá Íslandsmeistari með þeim). Á seinasta ári var hann byrjunarliðsmaður og stóð undir því með 10.7 stigum, 3.8 fráköstum og 2.9 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Aðrir leikmenn eru 22 ára Keflvíkingarnir Elvar Þór Sigurjónsson (byrjunarliðsmaður með 8.4 stig, 6.6 fráköst og 1.9 stoðsending að meðaltali í leik) og Páll Halldór Kristinsson (7.5 stig og 39% þriggja stiga nýting), Baldur Helgi Árnason (10.2 stig og 3.4 fráköst í 5 leikjum) og Sigmundur Óli Eiríksson (einn efnilegasti leikmaður Þórs samkvæmt heimasíðunni þeirra).

Þá eru helstu leikmenn upptaldir og liðið farið að taka á sig einhverja mynd. Þór Akureyri mun stórbæta sig á næsta ári. Þeir hafa öfluga stóra menn í Óðni, Ólafi og Elvari og góða bakverði í Bjarka Ármanni, Baldri Helga og Páli Halldóri. Í þokkabót hafa þeir Konrad Tota, stigahæsta leikmann síðustu leiktíðar, og Wesley Hsu sem þekkir liðið og á mikið inni frá seinustu leiktíð (var sveiflukenndur í fyrra).

Ég spái að Þór Akureyri verði með öflugari liðunum á næsta ári og verði líka með þeim frákastahæstu. Þetta er lið til að passa sig á. Sjáið bara til.

- Besta færsla hingað til, Helgi

Friday, July 2, 2010

Breakdown 3: Skallagrímur [Uppfært]

Skallagrímur
Skallagrímur varð í 4. sæti í 1. deildinni á seinasta ári með 12 unna leiki af 18 (vinningshlutfall 0.667). Þeir komust því í úrslitakeppnina en töpuðu fyrir Val í oddaleik í undanúrslitunum.

Pálmi Þór Sævarsson mun þjálfa Skallagrím á næsta ári. Hann hefur spilað með Skallagrím í mörg ár en mun einungis vera í þjálfara hlutverkinu núna. Hann hefur þjálfað til margra ára í yngri flokkum Skallagríms og ég held að hann geti náð góðri útkomu með liðinu í ár. Óstaðfestar heimildir mínar herma að hann hafi mann úti að leita að erlendum leikmanni sem getur líka verið góður kennari og fyrirmynd fyrir yngri leikmenn liðsins. Mikill metnaður í gangi, kann að meta það.

Leikmannahópurinn verður nokkuð breyttur á næsta ári. Talsverðar líkur (þ.e.a.s. næstum 100%) eru á að Siggi Þórarins og Trausti Eiríks yfirgefi liðið og haldi í bæinn. Konrad Tota var ekki efni í góðan þjálfara og er ólíklegt að hann snúi aftur sem leikmaður (samkvæmt mínum heimildum). Silver Laku er spurningamerki. Í staðinn fyrir þá hefur Halldór Gunnar Jónsson gengið í raðir liðsins. Halldór er góð skytta (16.8 stig að meðaltali og 36% nýting í þristum) sem kemur úr röðum ÍA og mun skila sínu fyrir liðið á næsta tímabili. Einar Ólafsson úr Reykdælum á líka að vera genginn í liðið. Ég fann ekkert um Einar Ólafsson annað en það að hann var víst í æfingahóp U-16 landsliðsins árið 2005. Karfan.is hefur ekkert að segja um hann nema að hann er bráðefnilegur, sem segir í raun ekki neitt.

UPPFÆRT (15. júlí): Trausti, Siggi, Konrad Tota og Silver Laku spila ekki með Skallagrími. Tota er farinn til Þór Akureyris að vera spilandi þjálfari.

UPPFÆRT (15. ágúst): Darrell Flake hefur samið við Skallagrím og mun spila með þeim á næsta tímabili.

Hafþór Ingi hefur endurnýjað samninginn sinn og Óðinn Guðmundsson sömuleiðis. Haffi verður mjög mikilvægur fyrir liðið á næsta ári (13.8 stig, 5.2 fráköst, 4.8 stoðsendingar og 2.0 stolnir boltar að meðaltali á seinustu leiktíð) og hann mun alveg ráða við það, tel ég. Af tölfræði seinasta tímabils að dæma þá er Óðinn lítið annað en búkur á vellinum (15.2 mín, 2.1 stig og 1.3 fráköst að meðaltali á seinustu leiktíð). Kannski er hann í svörtu vinnunni eða er skrímsli í vörninni, ég veit það ekki. Kannski springur hann út á þessu ári. Sjáum bara til. Annars er hellingur af leikmönnum úr yngri flokkunum að fara koma upp (5 ungir og efnilegir skrifuðu undir fyrir nokkrum dögum) og einn úr drengjaflokki ÍA er líka genginn í Skallagrím.

Skallagrímur er dálítið spurningamerki fyrir þessa leiktíð. Þeir hafa misst 4 af 5 byrjunarliðsmönnum sínum en hafa næga leikmenn á bekknum sem gætu verið reiðubúnir að taka að sér nokkuð stærra hlutverk í liðinu. Þeir gætu fallið eða þeir gætu orðið meðal þriggja efstu. Kemur í ljós.

- Nýkominn af síðustu næturvaktinni minni, Helgi