Thursday, July 8, 2010

Breakdown 4: Þór Akureyri

Þór Akureyri
Þór Akureyri vann ekki nema 6 af 18 leikjum á síðasta tímabili (vinningshlutfall 0.333) og varð því að sætta sig við 8. sætið. Þeir unnu báða leiki við bæði fallliðin (Hrunamenn og ÍA) og unnu tvo tæpa leiki við liðin í 6. og 7. sæti í deildinni. Þeir voru ekki í það mikilli hættu á því að falla niður í 2. deild en töpuðu seinustu þremur leikjum sínum í röð svo að þeir gátu ekki gengið að neinu vísu fyrr en eftir þriðju seinustu umferðina þegar ÍA tapaði og gat því ekki nema jafnað vinningshlutfall Þórs (og hefði þá fallið á innbyrðis viðureignum).

Fyrir næsta tímabil hefur Þór Akureyri ráðið Konrad Tota, fyrrum þjálfara Skallagríms, sem þjálfara. Hann verður spilandi þjálfari og Sigurður G. Sigurðsson hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari. Sigurður hefur lagt skóna á hilluna eftir farsælan leikferil með Þór Akureyri vegna meiðsla og mun stýra bekknum þegar Tota er inn á vellinum.

Ólafur H. Torfason er kominn heim frá námi í USA og hefur skrifað undir samning við liðið. Hann er 23 ára og hefur spilað með yngri flokkum Þórs og spilað einn og einn leik með meistaraflokki þegar hann hefur komið heim um hátíðarnar. Í þeim fáu leikjum sem hann hefur spilað í 1. deild hefur hann verið með 17.1 stig að meðaltali í leik. Leit mín á alvefnum gefur til kynna að Ólafur hafi stundað bæði körfubolta og amerískan ruðning úti meðan hann var í námi (eða það var annar Ólafur Torfason úti í námi á sama tíma og hann). Hann er því væntanlega nokkuð sterkur og verður án efa erfiður viðureignar á næsta ári.

Wesley Hsu hefur endurnýjað samninginn sinn við félagið sem eru mjög góðar fréttir fyrir þá. Hsu var á seinasta ári með 13.5 stig, 3.8 fráköst og 1.3 stoðsendingar að meðaltali í leikWesley og Ólafur þekkjast frá USA og miðað við heimasíðu Þórs þá hafa þeir spilað nokkuð mikið saman og þekkja vel til hvors annars.

Óðinn Ásgeirsson var án efa verðmætasti leikmaður Þórs á seinustu leiktíð og er einn besti leikmaður sem Þór Akureyri hefur alið af sér. Hann stóð sig glæsilega á seinasta ári og skilaði 17.4 stigum, 10.6 fráköstum og 1.9 stoðsendingum að meðaltali í leik. Hann komst m.a. í úrvalslið 1. deildar. Það er ekki staðfest að hann verði með á næsta tímabili (ennþá), en ég held að annað væri fáranlegt.

Bjarki Ármann Oddsson hefur spilað með Þór Akureyri allan feril sinn nema eitt ár með KR (varð þá Íslandsmeistari með þeim). Á seinasta ári var hann byrjunarliðsmaður og stóð undir því með 10.7 stigum, 3.8 fráköstum og 2.9 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Aðrir leikmenn eru 22 ára Keflvíkingarnir Elvar Þór Sigurjónsson (byrjunarliðsmaður með 8.4 stig, 6.6 fráköst og 1.9 stoðsending að meðaltali í leik) og Páll Halldór Kristinsson (7.5 stig og 39% þriggja stiga nýting), Baldur Helgi Árnason (10.2 stig og 3.4 fráköst í 5 leikjum) og Sigmundur Óli Eiríksson (einn efnilegasti leikmaður Þórs samkvæmt heimasíðunni þeirra).

Þá eru helstu leikmenn upptaldir og liðið farið að taka á sig einhverja mynd. Þór Akureyri mun stórbæta sig á næsta ári. Þeir hafa öfluga stóra menn í Óðni, Ólafi og Elvari og góða bakverði í Bjarka Ármanni, Baldri Helga og Páli Halldóri. Í þokkabót hafa þeir Konrad Tota, stigahæsta leikmann síðustu leiktíðar, og Wesley Hsu sem þekkir liðið og á mikið inni frá seinustu leiktíð (var sveiflukenndur í fyrra).

Ég spái að Þór Akureyri verði með öflugari liðunum á næsta ári og verði líka með þeim frákastahæstu. Þetta er lið til að passa sig á. Sjáið bara til.

- Besta færsla hingað til, Helgi

No comments: