Monday, November 19, 2007

HelgiHelgi

Lífið getur ekki verið fullkomið. Þú getur ekki skilið dásemd þess að vera hamingjusamur án þess að vera óhamingjusamur. Viddi kom með góðan punkt um þetta núna áðan: "Án skuggans gætum við ekki séð hvaðan ljósið kæmi." Sönn orð þar á ferð. Ég er ekki með þessu að segja að ég sé óhamingjusamur, ég bara er ekki hamingjusamur einmitt núna. Svolítil lægð í gangi. Ég finn ekki neitt til að vera hamingjusamur yfir, þ.e.a.s. raunverulega hamingjusamur. Hvað er það annars? Hef ég einhvern tímann upplifað alvöru hamingju nema í draumi eða í ímyndun minni á hvernig raunveruleikinn á að vera? Man ekki eftir því. Kannski er ég bara þreyttur.

Yfirsýn getur verið mjög öflugt tól til að losa sig við þessa sýn, eða gert mann enn daprari. Ef hugsað er út í það ertu "ekkert", þú ert andartök, augnablik, síðasti rammi sekúndu í kvikmynd. Þú ert til og áður en nokkur getur tekið eftir þér ertu horfinn í gleymsku. Ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að verða eftirminnilegur. Jesús er þekktasta manneskja heims. Ég er enginn Jesús, ekki einu sinni hálfpartinn. Ég er bara 19 ára ungur maður (finnst hálf asnalegt að kalla mig ungling) sem veit ekki hvað skal gera af sér. Ég hef gert mistök og lært af þeim en ég hef sömuleiðis gert sömu mistök aftur og aftur. Er ég þar af leiðandi misheppnaður. Nei, margir eru eins og ég.

Samt er enginn nákvæmlega eins og ég. Ég vil kærustu til að faðma og til að hlusta á hana tala um eitthvað sem tengist mér ekkert, vil bara hlusta og ræða við hana. Ég vil finna sálufélaga, og fleira en eina, ef að sú fyrsta reynist ekki vera réttur sálufélagi. Sálufélagi er dálítið skrýtið hugtak; að til sé ein og aðeins ein manneskja í heiminum sem passar fullkomlega við mig. Ein úr 6 milljörðum. Ég þarf ekki að vera búinn með tölfræðiáfanga til að vita hve litlar líkurnar séu. Líkindi eru samt bara ímyndað hugtak sem að dugar skammt. Þó að líkurnar á að maður vinni lottó tvisvar séu stjarnfræðilegar hefur það samt gerst. Sá maður hefur ekki spilað lottó milljón sinnum og hefur samt unnið tvisvar. Allavega, sálufélagar eru í mínum huga frekar losaralegt hugtak, rómantísk hugmynd fólks sem hefur fundið manneskju sem virðist henta þeim fullkomlega.

Ég þarf þess ekki, ég þarf stelpu til að hlusta á sem getur svo hlustað á mig og mér finnst falleg.

Þetta var gott hugsanaflæði. Ég man ekki einu sinni um hvað ég byrjaði að skrifa.
Ég er þreyttur.
Lífið hræðir mig eilítið.

Ef allt annað bregst væri ég örugglega ekki svo slæmur rithöfundur eða skáld. Go figure.

Kv. Helgi

Lag dagsins: Con Te Partirò í flutningi Andrea Bocelli. Hér er þýðing á laginu yfir á ensku. "I'll Go With You." Fallegur texti.

Tilvitnun dagsins: "Life is something to do when you can't get to sleep." - Frank Lebowitz

1 comment:

Svefnpurka said...

Ég held að þú sért með smá vott af skammdegisþunglyndi, enda fá flestir svoleiðis. En það sem þú getur verið hamingjusamur yfir er að það eru að koma jól eftir ekkert ofsalega langan tíma og ég er að koma heim eftir ekkert svo langan tíma heldur. Ég stórefa samt að við séum sálufélagar... en það þýðir ekki að þú getir ekki verið hamingjusamur yfir því að ég sé að koma heim. :D

Yfir og út, kveðja frá DK
Alma Ósk