Monday, May 28, 2007

Ódauðleiki

Fór að pæla í dýrkun nútímamannsins á ódauðleikanum um daginn. Það að deyja aldrei, eldast ekki og falla aldrei í gleymsku.

Allir í dag virðast sækjast eftir því. Fólk reynir að setja stimpilinn sinn á heiminn, eins og það ákvarði hamingju þeirra hve margir þekki þau og hve margir muni eftir þeim þegar þau loks deyja.

Ódauðleikinn fæst að mati sumra með því að komast í fjölmiðla eða sjónvarpið og svoleiðis. Hin umtalaða 15 mínútna frægð. Það að einhver segist hafa séð þig í sjónvarpinu. Að þú hafir verið flottur á imbanum og svoleiðis. Sumir pæla ekki einu sinni í því hvernig þeir komast í sjónvarpið. Ég heyrði í fréttum í dag af nýjum hollenskum raunveruleikaþætti þar sem að dauðvona kona ætlar að gefa einum af þremur nýrnasjúklingum nýrun sín. Hún mun velja þá eftir því hverjum þeirra henni líkar best við og þetta verður allt sjónvarpað. Þetta er sjúkt. Þetta er ekki þátttakendunum að kenna, þeir eru tilbúnir að gera hvað sem er fyrir nýra. Það eru framleiðendurnir sem eru að misnota örvæntingarfullt fólk. Ég vona að þeir fái allir nýrnasjúkdóma og þurfi að koma fram í svona þáttum sjálfir.

Aðrir sækjast eftir ódauðleika með fegrunaraðgerðum. Í mínum huga er ekkert óeðlilegt við það að stelpur farði sig (fyrir sig, ekki fyrir aðra) en lýtaaðgerðir og megrunarkúrar og fæðubótarefni er ekki málið. Lýtaaðgerðir eru kostnaðarsamar og í mínum ekki þess virði. Það er nokkuð augljóst hvað hefur gerst ef að amma kemur í heimsókn með nýjar túttur og fros-bros. Ég skal hins vegar halda mér saman ef að þú gerir þetta til þess að þér líði betur. Megrunarkúrar virka ekki. Jújú, ef að þú sveltir þig í nokkrar vikur muntu missa nokkur kíló en kílóin munu snúa aftur strax og megrunarkúrnum lýkur (og honum mun ljúka vegna þess að líkami þinn þarf mat og næringu). Betri hugmynd er að neita sér um eitthvað sem að þú þarfnast ekki eins og t.d. kex eða kökur eða gos og nammi. Fæðubótarefni eru sama mál. Þau er að mínu mati svindl. Þú átt að geta fengið allt sem þú þarfnast úr fæðunni þinni og vítamíntöflum (sem ég tel ekki vera fæðubótarefni). Viltu fá stærri vöðva? Lyftu og borðaðu rétt, ekki taka stera eða einhverjar bullshit vöðva-stækkandi töflur.

Enn aðrir gera eftirminnilega hluti til að upplifa ódauðleika. Sumir hafa eflaust gert það fyrir sjálfa sig en of margar gera það til þess eins að geta sagt öllum hvað þeir gerðu. "Ég kleif Everest" er vissulega mikið afrek. Sumir gera það til að reyna á sjálfa sig og til að sjá frá nýju sjónarhorni. Aðrir klífa fjallið og fara niður án þess að sjá útsýnið og segja öllum að þeir hafi klifið Everest. Hvor græðir meira á þessu?

Sá er heppinn sem er sama um álit annarra. Ég er ekki með þessu að hvetja fólk til að vera sjálfselskir hálfvitar, heldur að gera eitthvað til að vera góð/ur, ekki vegna álits eða gjafa annarra. Hjálpaðu systkini þínu með eitthvað því að þau þurfa hjálp þína, ekki til að eiga inni hjá þeim greiða síðar. Vaskaðu upp fyrir móður þína því að hún er móðir þín, ekki svo að hún gefi þér vasapening. Segðu þeim sem þú elskar að þú elskar hann/hana því að það er satt, ekki til þess að hann/hún segi "Ég elska þig líka" við þig.

Nú þykist ég ekki vera dýrlingur og hef fallið í margar (ef ekki allar) af ofangreindum gryfjum. Ég hef auglýst hvað ég hef gert í leit að aðdáun annarra. Ég hef hallað mér aftur í stól til að sjást í kosningarsjónvarpinu. Ég hef jafnvel sett smá concealer á vandræðalega bólu þegar ég var í grunnskóla. Ég vil hins vegar reyna að snúa við blaðinu og hætta þessu. Ég hvet alla sem lesa þetta til að reyna hið sama.

Heimaverkefni dagsins: Gerðu eitthvað rosalega gott og ósjálfselskt og segðu engum frá því.

Ykkur á eftir að líða vel eftir á. Ég lofa.

Kv. Helgi

-Shit happens-
Materialism: "Whoever dies with the most shit, wins"
Americanism: "Who gives a shit?"
Einstein: "Shit is relative"
Surrealism: "fish happens"

1 comment:

Alma Ósk said...

Gott blogg, hei ég fór oh hjálpaði systur minni að... nei djók, eg ætla ekki að segja neinum frá því :p Keep up the good shiznit