Thursday, January 12, 2012

Project #1

Upp úr móki veikinda ætla ég að reyna að klára eitt verkefni sem ég fann fyrir nokkru síðan á áhugaverðari síðu. Verkefnið heitir 52 Projects og snýst um að skrifa út frá 52 verkefnum sem lögð eru fyrir. Af tölunni að dæma mætti álykta að gera eigi eitt verkefni á viku í ár. Ég ætla þó að reyna klára þetta einfaldlega fyrir næstu áramót. Skilafrestir fara mér ekki (spyrðu kennarana mína) og svona get ég frekar gert tvö verkefni ef þörfin grípur mig og vika án verkefnis sleppur til.

Project 1#:
Finndu gömul bréfin þín. Safnaðu öllum gömlum bréfum þínum frá einum elsta vini þínum yfir árin. Ljósritaðu bréfin, settu ljósritin í umslag og sendu þau til vinar þíns.

Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tímann á ævi minni handskrifað bréf til nokkurar manneskju. Gamla póstfangið mitt er úr sér gengið og ég lét eyða því fyrir ári síðan þannig að engir tölvupóstar þaðan eru lengur til.

Ég hef aðeins einu sinni haft pennavin og við erum enn í mjög óverulegu sambandi gegnum Facebook.

Við kynntumst gegnum kanadíska unglingasíðu sem ég uppgötvaði gegnum íslenskan kunningja sem átti heima í Kanada fyrir löngu síðan. Þrátt fyrir hæfilega mikla viðleitni til að enduruppgötva síðuna varð ekkert úr því ævintýri.

Þessi pennavinur var nokkuð mikið fyrir ljósmyndun og við skiptumst reglulega á tölvupóstum í þó nokkurn tíma. Ég á þessa tölvpósta því miður ekki lengur sökum þess að ég eyddi gamla tölvupóstfanginu. Það verður að hafa sig.

Það er að vísu leiðinlegt að hafa ekki póstana, en ég man eftir pennavininum og verð að láta það duga.

Handskrifar engin bréf lengur? Er tölvuöldin orðin svoleiðis? Persónulega finnst mér gott að hafa helling af blaðasnifsum og skriffærum í kringum íbúðina til að hripa niður hugmyndir eða hvað sem þarf. Háskólanemar glósa ekki lengur í stílabækur, þeir eru allir fyrir framan fartölvurnar og þá er aðeins helmingurinn að glósa með þeim. Restin er á Facebook. Such is the way of life. Lyklaborð koma í stað penna. Word-skjöl í stað blaðahefta.

Heilsa og friður,
Helgi

No comments: