Frá því í miðjum ágúst hef ég verið fluttur út að heiman og bý núna í íbúð rétt hjá Hamraborg í Kópavogi með meðleigjanda sem ég þekki gegnum UVG. Hann er eilítið seinn að þrífa upp eftir sig en það er saga fyrir aðra bloggfærslu.
Í tilefni þess að ég er kominn í eigin íbúð hélt ég innflutningspartý fyrir lítinn hóp af vinum mínum fyrir einni helgi síðan. Við drukkum, spjölluðum og skemmtum okkur. Ég var heldur rólegur og ætlaði bara að drekka kippu af litlum bjórum. Ég endaði á að klára þá og fékk mér líka hvítvínið sem ég hafði fengið í innflutningsgjöf frá góðri vinkonu minni. Hópurinn hélt niður í bæ, við héldum á nokkra skemmtilega staði og ég rakst á glás af fólki sem ég þekkti.
Ein þessarra vinkvenna minna ákvað að sjá til þess að ég færi heim með vinkonu hennar því að ég væri svo góður gaur (hah) og þá myndi hún líka vita að vinkonan færi ekki heim með einhverjum fávita (hah). Við höldum áfram að skemmta okkur og að lokum liggur leiðin heim...
...í fokking Hafnarfjörð. Ég hef ekkert á móti Hafnarfirði, ég bara einfaldlega stend ekki í því að gera mér ferð þangað. En hvað gat ég gert? Skemmti mér aðeins of vel og fékk að gjalda fyrir það. Ég hlýt að hafa dottað í leigubílnum því skyndilega erum við komin á áfangastað okkar og mér og henni er hent úr bílnum. Vinkona mín bað mig um pening til að borga í leigarann og ég gef henni allt sem ég hef í veskinu og vösunum: 31 kr.
Nú töltum við, ég og stelpan, upp eftir einhverri götu í Hfj. og endum fyrir utan hús sem að hennar sögn er í eigu móður hennar. Hún stekkur þar inn og kemur út með bíllykla. Til að það sé á hreinu: ég styð það ekki að keyra undir áhrifum, hvað þá eftir djamm í miðbænum. Mér til varnar þá sagði ég að mér litist ekki á þessa hugmynd hennar. En ég var fullur og hún var ákveðin. Hún keyrði okkur heim til hennar (íbúð annars staðar í Hfj.) og við fórum upp til hennar.
Ekkert gerðist. Við sofnuðum í fötunum og ekkert gerðist. Ég asnaðist til Hfj. og svo vorum við of full og þreytt til að gera nokkuð. Epískt feil. Daginn eftir vaknaði ég upp við topp 10 þynnku. Við komumst ekki fram úr rúminu fyrr en um eftirmiðdaginn. Hún skutlaði mér að Firðinum þar sem ég fékk mér eitthvað að drekka og beið svo rólegur eftir strætó. Allt í lagi, ég var ekki rólegur, ég var þunnur. Ég beið bara.
Strætó kom að lokum og lagði af stað í Kópavoginn. Á leiðinni stoppaði hann í Garðabæ og nokkrir Mormónar stigu inn í hann. Þið hafið flest séð þá, ávallt í jakkafötum með bakpoka og nafnspjald þar sem á stendur "Öldungur Somethingorother". Einn þeirra settist gegnt mér og sagði við mig á bjagaðari en merkilega góðri íslensku: "Er allt í lagi með þig?" Hann var ekki að hæðast að mér, hann vildi raunverulega vita hvernig mér leið. Ég svaraði að ég væri bara mjög þreyttur því ég kunni ekki við að segja strák sem hefur líklega aldrei snert áfengi að ég væri þunnur. Hann virtist samt vita hvað væri í gangi og spurði: "Gott kvöld í gær?" Jæja, hann vissi þá eitthvað um þynnku. "Já, aðeins of gott" svaraði ég.
Nú hefði ég bara getað haldið mér saman og farið út á minni stoppistöð þegar að henni kæmi en ég ákvað þess í stað að spjalla við hann um Bandaríkin (hann var frá Utah, þaðan sem mormónar eru flestir) og spurði svo um trúna hans. Þegar við vorum nýbyrjaðir að spjalla um mormónisma þurfti hann og hinir trúboðarnir að fara út á næstu stoppistöð. Enn og aftur hefði ég getað kvatt hann og látið gott heita. Nope, ekkert svoleiðis kjaftæði.
Ég bauð honum að kíkja í kaffi um kvöldið til að spjalla við mig um trúna hans. Hann tók niður heimilisfangið og leiðir okkar skildu. Ég ákvað að taka strætó niður í bæ í stað þess að fara strax heim til að ná mér í besta þynnkubana bæjarins: Ostborgaratilboð + egg og beikon á Vitabar. Meðan ég beið eftir strætó við Landspítalann seinna kom Eva Hrund vinkona mín og settist við hliðina á mér. Hún var líka á leiðinni í Kópavoginn og ég sagði henni söguna. Mér datt skyndilega í hug að ég þyrfti helst einhvern með mér um kvöldið til að passa upp á að ég myndi ekki óvart taka upp mormónatrú eða eitthvað.
Mormónarnir tveir komu kl.19 á slaginu og sá sem hafði spjallað við mig í strætó var ekki með þeim. Mér þótti það einkennilegt en minntist ekki á það, heldur bauð þeim kaffi. Þeir afþökkuðu kaffi en þáðu vatn. Eitthvað með að vera ekki að eitra líkama sinn með tóbaki, áfengi, ólöglegum vímuefnum og kaffeini (whutever). Við byrjuðum á að spjalla um veðrið og ég hrósaði þeim viðleitnina að læra svona góða íslensku. Ég bað þá hins vegar að tala við mig á ensku vegna þess að ég vildi halda mér í æfingu (og svo fannst mér íslenskan þeirra ekki svo góð að ég myndi þola að hlusta á þá endalaust).
Áður en við byrjuðum að tala um trú þeirra báðu þeir bæn og vildu að ég tæki þátt í henni. Ég ákvað að vera ekki ókurteis við gesti mína og laut höfði með þeim. Þeir þökkuðu fyrir himnaföðurinn og fyrir það tækifæri að fá að ræða trú sína við mig. Þegar bæninni var lokið hringdi Eva dyrabjöllunni og ég hleypti henni upp.
Svo það sé á hreinu, ég efaðist stórlega um að ég myndi sjá ljósið eða nokkuð slíkt varðandi mormónisma, ég var bara mjög forvitinn og vildi fræðast um hana. Ég véfengdi fátt sem þeir sögðu og Eva Hrund sagði eftir á að ég hefði mögulega verið of kurteis.
Þrátt fyrir að ég hafi ekki dregið neitt í efa sem þeir sögðu þá er þessi trú mjög þunn, röksemdalega séð. Mormónar voru víst uppi 600 f.Kr. og fluttu sig yfir í Ameríkurnar (ekki vitað hvar). Um það leyti sem Jesús var að fá vöggugjafirnar voru Mormónarnir í stríði við fólk sem trúði ekki á það sem þeir trúðu á. Af því sem þeir sögðu fékk ég á tilfinningunni að Mormónarnir hafi einungis verið að verja sig og væru saklausir (mhm....). Um það leyti sem Jesús var krossfestur hafði Mormónunum verið útrýmt fyrir einn eða tvo. Þeir skrifuðu sögu Mormónanna á einhverjar gulltöflur og grófu í jörðina einhvers staðar í Ameríkunum og dóu svo.
Árið 1820 sá Joseph Smith svo ljósið, þá 15 ára gamall og leitandi að trúnni. Guð og Jesús birtust honum og sögðust standa með honum eða eitthvað á þá leið. Nokkrum árum síðar sýndu þeir Joseph var töflurnar væru grafnar. Joseph gróf þær upp, þýddi þær úr tungumáli sem hafði eflaust verið útdautt frá því að þeir sem grófu töflurnar dóu og þannig hófst Mormónakirkja hinna seinni daga.
....í alvörunni? Já, og Joseph Smith til stuðnings sáu 8 vitni þessar gulltöflur þegar hann sýndi þeim þær.
...í alvörunni?
Þessir tveir drengir sem sögðu okkur þessa skemmtilegu skáldsögu voru annars einstaklega indælir og kurteisir. Það sem mér þykir leiðinlegast er að þeir trúa þessu af öllu hjarta og eru uppfullir af ást og kærleik fyrir vikið. Að vissu leyti öfunda ég þá fyrir að hafa fundið tilgang sinn í lífinu og vera sáttir. Aftur á móti trúa þeir á eitthvað sem hljómar svo fáranlega að ef þeir hefðu bætt við nokkrum 757 flugvélum og geimverum væri ég sannfærður um að þetta væri eitthvað úr Vísindakirkjunni (eða vísindaskáldsögu).
Mjög áhugaverð helgi...gaman að lenda í svona öðru hvoru svona til að lífga upp á tilveruna :P
-Helgi
No comments:
Post a Comment