Laugdælir

Laugdælir áttu mjög gott tímabil í fyrra, voru ósigraðir í 15 deildarleikjum og unnu svo alla leikina sína í úrslitakeppninni, þ.á.m. Leikni í úrslitaleiknum. Þeir unnu Hött í 32-liða úrslitum Subway-bikarsins og stóðu í úrvalsdeildarliði Tindastóls í 16-liða úrslitunum, þó að þeir töpuðu fyrir þeim. Aðalmarkmið liðsins er að halda sér uppi í deildinni en það er ekki úr vegi að reyna að stefna á að komast í úrslitakeppnina.

Pétur einhendir bikarinn eftir úrslitaleikinn í fyrra
Pétur Sigurðsson, sem þjálfaði liðið í fyrra, mun vera aftur við stjórnvölinn í ár. Á seinasta ári náði hann frábærum árangri með liðinu og vonast er til að hann nái frábærum árangri aftur á þessu tímabili.
Laugdælir hafa misst nokkra leikmenn frá því í fyrra. Meðal þeirra eru þó nokkrir bakverðir, Jens Guðmundsson, Gísli Pálsson, Snorri Þorvaldsson og Kristinn Ólafsson. Það er vissulega blóðtaka að missa þessa menn en það dugar ekkert að gráta missinn.

Hvíl í friði, þið sem yfirgáfuð okkur
Í staðinn hafa komið inn Oddur Benediktsson og Guðjón Gunnarsson, íþróttafræðinemar við Íþróttakennaraháskólann. Þeir eru vel þegnir og eru að komast inn í flæði liðsins.
Það er ljóst að Laugdælir verða fámennari í ár en þeir voru í fyrra, en þeir verða þá að bíta á jaxlinn, spila fleiri mínútur og halda einbeitingunni allt leiktímabilið.
Að öllu ólöstuðu (meiðsli, forföll o.fl.) ættu Laugdælir að vera í góðri stöðu til að halda sér í 1. deild og gætu hugsanlega komist í úrslitakeppnina ef þeir halda rétt á spilunum (og ef mikilmennskubrjálæði fyrirliðans ríður ekki liðinu til fulls).
Fyrsti leikur á morgun, þá fer þetta af stað og allt kemur í ljós.
Njótið tímabilsins og takk fyrir mig!

- Helgi