Tuesday, October 5, 2010

Breakdown 10: Laugdælir

Laugdælir
Laugdælir áttu mjög gott tímabil í fyrra, voru ósigraðir í 15 deildarleikjum og unnu svo alla leikina sína í úrslitakeppninni, þ.á.m. Leikni í úrslitaleiknum. Þeir unnu Hött í 32-liða úrslitum Subway-bikarsins og stóðu í úrvalsdeildarliði Tindastóls í 16-liða úrslitunum, þó að þeir töpuðu fyrir þeim. Aðalmarkmið liðsins er að halda sér uppi í deildinni en það er ekki úr vegi að reyna að stefna á að komast í úrslitakeppnina.

Pétur einhendir bikarinn eftir úrslitaleikinn í fyrra

Pétur Sigurðsson, sem þjálfaði liðið í fyrra, mun vera aftur við stjórnvölinn í ár. Á seinasta ári náði hann frábærum árangri með liðinu og vonast er til að hann nái frábærum árangri aftur á þessu tímabili.

Laugdælir hafa misst nokkra leikmenn frá því í fyrra. Meðal þeirra eru þó nokkrir bakverðir, Jens Guðmundsson, Gísli Pálsson, Snorri Þorvaldsson og Kristinn Ólafsson. Það er vissulega blóðtaka að missa þessa menn en það dugar ekkert að gráta missinn.

Hvíl í friði, þið sem yfirgáfuð okkur

Í staðinn hafa komið inn Oddur Benediktsson og Guðjón Gunnarsson, íþróttafræðinemar við Íþróttakennaraháskólann. Þeir eru vel þegnir og eru að komast inn í flæði liðsins.

Það er ljóst að Laugdælir verða fámennari í ár en þeir voru í fyrra, en þeir verða þá að bíta á jaxlinn, spila fleiri mínútur og halda einbeitingunni allt leiktímabilið.

Að öllu ólöstuðu (meiðsli, forföll o.fl.) ættu Laugdælir að vera í góðri stöðu til að halda sér í 1. deild og gætu hugsanlega komist í úrslitakeppnina ef þeir halda rétt á spilunum (og ef mikilmennskubrjálæði fyrirliðans ríður ekki liðinu til fulls).

Fyrsti leikur á morgun, þá fer þetta af stað og allt kemur í ljós.

Njótið tímabilsins og takk fyrir mig!


- Helgi

Monday, October 4, 2010

Breakdown 9: Ármann

Ármann
Á seinustu leiktíð hafnaði Ármann í 7. sæti undir stjórn Tómasar Hermannssonar. Á þessu ári gæti liðið litið allt öðruvísi út en í fyrra. Mér hefur alltaf þótt Ármann vera hálfgerður suðupottur af reynsluboltum sem koma og fara á leiktímabilinu. Ég byggi þetta reyndar á minningum frá því að ég mætti þeim seinast á árunum 2005-2007 (þó að minnið gæti verið að bregðast mér). Þetta var aldrei lið til að taka með hægindum vegna þess að í röðum þeirra voru vanalega dúndurgóðir leikmenn sem spiluðu þó ekki mikið saman (eða þannig man 18 ára ég eftir þeim).

Í ár verður Tommi áfram með Ármann og ætlar sér að bæta árangurinn frá því í fyrra. Tommi hefur drifið og karakterinn til að keyra mennina sína áfram og það er alls ekki ólíklegt að þeir nái settum markmiðum.

"Ég þarf að skreppa á Ísafjörð, Tommi. Þú þekkir þetta..."

Daði Berg Grétarsson hefur farið á Vestfirði að spila með KFÍ og hefur Ármann þar með misst einn andskoti efnilegan leikmann (14.1 stig, 3.5 fráköst, 3.5 stoðsendingar og 1.5 stolin bolti að meðaltali í 17 leikjum í fyrra).

Halldór Kristmannsson er víst orðinn góður í hnénu en á seinasta tímabili var það víst í maski og hann spilaði bara gegnum það.

Hey, ég líka!

Hann var með 14.4 stig, 4.8 fráköst og hitti 2.9 af 6.1 að meðaltali í þristum. 50% þriggja stiga nýting er ekki slæm tölfræði. Miðað við hvernig hann spilaði á fökkt öpp hnjám (sem er læknisfræðilegt hugtak, ég gáði) í fyrra þá sé ég fyrir mér að hann gæti verið svolítill höfuðverkur fyrir andstæðingana á þessu tímabili.

Ég veit ekki hverjir aðrir verða með Ármanni en það er alveg öruggt að í þeirra röðum verða margir reyndir sem eru tilbúnir að spila og gera hinum liðunum lífið leitt.

Ármann getur bætt sig frá því í fyrra ef flest allt gengur upp hjá þeim, en ég leyfi mér að efast um að þeir komist í úrslitakeppnina. Of margir óvissuþættir til að spá betur fyrir en svo. Kemur í ljós

- Helgi

Breakdown 8: Höttur

Höttur
Höttur fékk skrítinn gálgafrest á þar seinasta leiktímabili þegar þeir sluppu við að falla niður í 2. deild vegna þess að ÍG vildi ekki koma upp í 1. deild. Á seinasta tímabili náðu þeir aðeins að rétta af kútinn (að því leyti að þeir féllu ekki eins og seinast).

Viggó Skúlason hefur tekið við þjálfun meistaraflokksins og Viðar Örn Hafsteinsson hefur snúið aftur á Egilsstaði og mun spila með Hetti ásamt því að þjálfa í yngri flokkum félagsins, nýútskrifaður úr íþróttafræði og með kennararéttindi. Viddi spilaði í fyrra með Hamri og var þar að spila 20 mínútur að meðaltali, skora 6.2 stig og taka 2.7 fráköst að meðaltali í leik ásamt því að nýta 40% af þriggja stiga skotum sínum.

Viddi í öllu sínu veldi

Ágúst Dearborn er farinn annað og Kevin Jolley sömuleiðis, skilst mér. Ég verð að játa að ég veit ekki mikið (lesist: ekki neitt) um Hattarmenn og þeirra hagi.

Ég treysti mér ekki að vera geta mér til um hvernig Höttur á eftir að standa sig en ég held ekki að þeir séu að fara að falla. Þó að það sé bögg fyrir þá að þurfa að fara langa leið fyrir hvern einasta útileik fá þeir alla heimaleiki á móti ferðaþreyttum liðum. Það er enginn brandari að fara til Egilsstaða, þetta gæti allt eins verið á hjara veraldar.

Götuskilti á Egilsstöðum

En að öllu gríni slepptu þá mun Höttur vinna nægilega marga leiki til að falla ekki en ekki nógu marga til að komast í úrslitarimmuna. Viddi og Kaninn (hver sem það verður/er) munu sjá til þess.

- Helgi

Hræsnarinn snýr aftur

Ég er risinn upp úr fori verkefna, fyrirlestra, óskipulags og óreiðu. Það er vanalega ekki svalt að afsaka sig, en í þetta skipti hafði ég bara margt betra við tímann að gera. Ég hef m.a.s. tekið mig til og raðað upp hlutverkum sem ég er í og þurfti að forgangsraða. Bloggið var ekki hátt skrifað, en nú ætla ég að taka smá rykk. Á næstu 36 klst. stefni ég á að kýla út 4-5 greinum (þessi með talin).

Ég ætla að klára Breakdown-séríuna mína og hugsanlega umfjöllun um vináttuleik Los Angeles Lakers og Minnesota Timberwolves sem var spilaður í London í kvöld.

Meðal ástæðna þess að ég hef ekki verið að blogga er að ég hef flutt um herbergi. Flutningurinn var ekki meiri en svo að ég fór yfir ganginn og eitt herbergi til vinstri. Herbergi 24 mun verða sárt saknað.
"Far vel, herbergi 24! Ég mun aldrei gleyma þér..."

Nú hef ég svalir, útsýni yfir Laugarvatn og 1-2 auka fermetra (held ég) fyrir sama pening og í gamla herberginu. Allt í einu sakna ég nr.24 ekki jafn mikið.

Ég man varla númer hvað hitt herbergið var með svona útsýni...

Nýja herbergið er aðeins flottara en gamla þar sem að ég hef hengt upp 99 bottles of beer myndina mína og er líka kominn með töflu úr korki til að skipuleggja mig og setja upp hvað ég þarf að gera. Það er meðal ástæðna þess að ég hef tíma til að blogga í kvöld.

Annars er lítið að frétta.

Heyrðu, nei. Ég var næstum búinn að gleyma að LEIKTÍMABILIÐ HEFST HJÁ LAUGDÆLUM Á MIÐVIKUDAGSKVÖLDIÐ!!!

LAUGDÆLIR - BREIÐABLIK!
6. OKTÓBER (MIÐVIKUDAGINN)!
KL.19:45!

MÆTTU!

"ÉG ER SPENNTUR!!!"

Pís át,
Helgi