Dagurinn í dag var upp og niður. Ég fór í 4 tíma próf um morguninn í Vexti og þroska barna og unglinga. Margar sérstakar spurningar (fannst þær sumar svo huglægar) og ég tók mér alveg 3 og hálfan tíma í að svara öllu. Held ég nái þessu þægilega, bara.
Strax eftir prófið var ráðist í það að þrífa eldhúsið fyrir sumarið (fyrst allir á fyrsta ári voru á svæðinu). Það verða nokkrir sem nota eldhúsið áður en við skilum því, en nú hefur það verið tekið rækilega í gegn og allt héðan verður auðþrifið ef þess gerist þörf. Eins og vanalega lentu mestu þrifin á ákveðnu fólki á meðan að sumir svikust undan (allavega framan af). Það versta var hve frábært veðrið var einmitt meðan við þrifum eldhúsið. Glampandi sól og dúnalogn og allir að stikna inni í eldhúsi að pússa allt og þrífa. Það kláraðist þó að lokum og á sama tíma brá ský fyrir sólu. Ég sver það, stundum finnst mér eins og íslenskt veður er aðeins hægt að fylgjast með, aldrei njóta.
Eftir þrifin fór ég og sótti nýju íþróttafötin mín sérmerkt íþróttafræði HÍ. Mjög flott (og þægileg, í þokkabót). Fór í þau glæný og hrein eftir ræktina og sundsprett. Kvartbuxur eru eitthvað nýtt fyrir mig en ég er að fíla þau.
Mér fannst ég eiga skilið smá verðlaun eftir allt þetta erfiði (og ég nennti ekki að elda) þannig að ég fór í Tjaldmiðstöðina að fá mér hamborgara með Stefaníu og Helenu. Maturinn var í meðallagi en það var sama, ég var bara svo sáttur við að þurfa ekki að elda.
Ég var samferða Helenu heim og fór einhvern veginn að því að koma óboðinn í afmælisveislu hjá Kollu. Fékk tertu og kaffi og lenti á skemmtilegu spjalli.
Ein umræðan sem fór fram var ADD (Attention Deficit Disorder) eða athyglisbrestur á íslensku. Kolla var með talsverða þekkingu á þessu og núna er ég nánast hárviss um að ég hafi ADD. Ég þori samt ekki að láta greina mig því að það kostar víst 70 þ. krónur og mér liggur ekki svo mikið á að komast að því að ég hafi hálfpartinn afsökun fyrir því að hlusta ekki á fólk.
Eftir kaffi/afmælisboðið kíkti ég í heimsókn til Önnu Hildar. Hún er búin með prófin sín (var bara að taka Vöxt og þroska barna og unglinga þessa önn) og á leiðinni heim í sumar. Ég og Anna Hildur fórum að hanga saman eftir að við unnum saman að fyrirlestri fyrir málstofu og mér þykir einstaklega leiðinlegt að við fórum ekki að hanga saman fyrr. Það er rosalega gaman að spjalla við hana um allt milli himins og jarðar.
Þegar ég yfirgaf íbúðina hennar leið mér eins og ég væri í Bandaríkjunum. Það er ennþá logn úti og nokkuð hlýtt en það sem gerir þetta veður svona bandarískt er rakinn í loftinu. Það er léttur úði úti og rosalega rakt svo að ég finn lyktina af nýsprottna grasinu hér á Vatninu. Grasið er að grænka, fuglarnir farnir að syngja og það er loks að hlýna.
Ég vildi að ég gæti verið hérna á Vatninu um sumarið, það er ábyggilega frábært.
Lag dagsins: Loser eftir Switchfoot (merkilegt hvað ég fíla þessa hljómsveit þrátt fyrir hve mikið christian music þetta er)
Tilvitnun dagsins: Öflugur boðskapur (höfundur óþekktur)
Síða dagsins: Ég hló... :D
-Rakur eins og heitur sumardagur í Bandaríkjunum, Helgi
1 comment:
[url=http://www.playatonlinecasinos.com/]free casino bonus[/url] [url=http://www.casinovisa.com/blackjack/]online casinos[/url] , [url=http://www.concordiaresearch.com/games/roulette/index.html]Casino gratuiti[/url] , [url=http://www.realcazinoz.com/lit]online casino[/url] , [url=http://www.avi.vg/category.php?a=sex4sexx&cid=36]condoms[/url]
Post a Comment