Tuesday, March 25, 2008

Ábyrgð?

Ég er í alvörunni farinn að taka eilitla ábyrgð. Ég er farinn að elda í matinn þegar ég get. Ég er að leita að tryggingarfyrirtækjum til að tryggja ókeypta bílinn minn. Ég er í þremur vinnum. Ég er að pæla í íbúðum. Ég hef ákveðið að þreyta inntökuprófið inn í læknadeild. Ég ætla í háskóla. Ég er að gera tilraun til að fylgja eftir fjárhagsáætlun sem ég samdi. Ég var að taka eftir því að allar setningar þessarar málsgreinar byrja á mér. Ég er ekki hissa. Ég er númer eitt í mínum huga.

Varðandi ljóðið fyrir neðan þá er sagan á bak við hana ekki flóknari en svo að ég var á skemmtistað , frekar ölvaður, og stelpa bauð mér heim með sér. Ég samþykkti það (held ég) og fór að dansa við hana. Allt í einu varð allt í kringum mig hljóðara og ég varð skýr. Ég gerði mér grein fyrir hve fáranlegt það væri að vera pissfullur niður í bæ og í þann mund að fara heim með stelpu til þess að gera eitthvað allt annað en að spila lúdó. Ég kvaddi stelpuna, labbaði út af staðnum og tók fyrsta leigubílinn sem fékkst heim.

Héðan í frá ætla ég að reyna að halda mig við einfalda reglu: ekki drekka til að vera fullur. Ég er ekki alveg búinn að segja skilið við áfengi, en héðan af hyggst ég nota það til að létta skapi mínu, ekki til að staulast út af skemmtistað kl.5 um nóttina og geta ekki myndað skiljanlegar setningar.

Ég er kominn úr gipsinu, farinn að mæta aftur í ræktina. Harðsperrtur eins og andskoti. Fór of geyst af stað. Held samt ótrauður áfram. Ætla vera kominn í eitthvað form fyrir sumarið og vera allavega í standi til að spila með 1.flokki karla hjá Breiðablik næsta haust.

Kv. Helgi

Webcomic dagsins: A Chat with A Customer

P.S.: Byrjaður að leika mér myndavélina meira og meira. Takmarkið er að ná mynd sem er eins góð og þessar:


Thursday, March 20, 2008

Djammið

Á barnum, umvafinn áfengi, kvenfólki
og dúndrandi tónlist,
verð ég skyndilega skýr,
líkt og þokunni létti.

Ég þarf ekki á þessu að halda,
þessi ólifnaður er óþarfur.
Leigubíllinn heim er hljóðlátur,
kyrr, spyr einskis.

Saturday, March 8, 2008

I put the "laugh" in manslaughter!

Ég fann blað í gömlum frakka sem ég hripaði nokkrar pælingar niður á fyrir löngu síðan. Mjög fróðlegt að sjá hvað maður var að hugsa fyrir löngu.

Í eitt hornið á einu blaðinu hafði ég skrifað eitthvað sem var nánast ólæsilegt: "Besta skáld heims hefur ekki sýnt neinum ljóðin sín." Ég man ekki nákvæmlega ástæðuna fyrir þessu, en mig minnir að ég hafi verið að ræða við fólk um fjölda ljóða og ljóðabóka sem skáld gefa út. Sum gefa eina frábæra bók út og hverfa svo af sjónarsviðinu. Hvort það sé vegna þess að þau höfðu ekki meira í sér eða settu allar sínar tilfinningar og hugmyndir í eina bók og þá var ekkert eftir veit ég ekki. Svo eru skáldin sem hafa gefið út svo margar ljóðabækur að það er hálf fáranlegt. Þorsteinn frá Hamri hefur gefið út tuttugu ljóðabækur og þrjár skáldsögur milli 1958 og 2005. Er það of mikið, er hætti á því að hann sé að minnka gildi hverrar bókar með útgáfu þeirrar næstu? Hvenær verður mikið "of mikið"?

Ég vil trúa því að út í heimi sé gamall maður í Afríku sem hefur í hugarfylgsnum sínum ljóð um fallegustu sólarupprás heims sem hann varð vitni að þegar hann var ungur. Hann hefur haft þetta ljóð í hausnum á sér í 50 ár og það er enn í vinnslu. Á dánarbeðinu sínu mun hann reyna að fara með fullkomna ljóðið sitt, en gefur upp öndina áður en hann getur byrjað.

Annars staðar í heiminum hefur ung stelpa komist nær dauðanum en hún kærði sig um og hún missti alla fjölskyldu sína. Í ár hefur hún rogast með þessi þyngsl í hjartanu, þau mestu sem hún hefur upplifað og ákveður að lokum að fyrirfara sér. Á þeirri stundu sem hún finnur líf sitt fjara út dettur henni í hug ljóð sem er svo sorgmætt og magnþrungið að hún finnur fyrir eilitlum létti á lokastundinni.

Og að lokum er maður sem er á besta aldri og þarfnast einskis og hefur í skáp heima hjá sér bunka af blöðum með fyndnustu, mest spennandi og sorgmæddustu skáldsögu heims sem hann mun aldrei sýna neinum, ekki einu sinni eiginkonunni. Áður en hann deyr mun hann brenna blöðin og taka dauðanum fagnandi, umvafinn ást og hlýju fjölskyldunnar.

Það fallegasta og sorgmæddasta og fyndnasta sem snertir okkur dýpst kemur örsjaldan fram. Þess vegna er mikilvægast af öllu að láta ekki hluti fara framhjá sér því maður hefur séð þá áður eða þykist þekkja þá. Sólarupprásin verður aldrei gömul og leiðinleg, hún er ný og glimrandi í hvert einasta skipti.

Ekki ganga að neinu vísu. Allt getur komið á óvart.

Kv.Helgi

Wednesday, March 5, 2008

Súpukvöld!

Annað kvöld (fimmtudagskvöldið 6. mars) heldur VGK súpukvöld á Kragakaffi (Hamraborg 1). Guðný Dóra mun elda gómsæta súpu og það verður leynigestur.

Súpukvöld.
Annað kvöld.
6. mars.
Kl.19:30.
Leynigestur.
Mega-fjör.

Allir að mæta!

Kv. Helgi

P.S.: Ef einhverjir ætla kvarta yfir hvað þetta sé lítill fyrirvari, tough shit. Ég fékk að vita þetta fyrir 10 mínútum. Samt ætla ég að mæta.

Tuesday, March 4, 2008

Gamangaman

Ég hvet alla til að kíkja á www.fukung.org. Hellingur af fyndnum myndum (og flottum).

Þessi er fyrir Bjarna Pál:




Og þessi er bara snilld.

Monday, March 3, 2008

Newton var nú meiri kallinn

Ég fór til Akureyrar um helgina til að sækja stjórnmálaskóla UVG og sýna lit. Þetta var mergjað fjör, kynntist nóg af skemmtilegu fólki og þetta endurvakti trú mína á stjórnmál og þátttöku mína í því. Var í nokkra mánuði í hálfgerðu fönki, trúði því ekki að framlag mitt skipti einhverju máli.

En ég sá þarna að allir skipta máli og það þarf ekki nema einn til að gera gæfumuninn. Ég er andlega endurnærður.

Núna, aftur á móti er ég hundslappur og veikur. Ég held að ég sé með einhverja pest. Áðan þá fór ég að pæla í því hvort að þriðja lögmál Newtons næði yfir meira en honum hugkvæmdist. Þriðja lögmálið gengur út á það að fyrir hvert átak er jafnt og öfugt gagnátak. Þegar ég sest á stól þá ýti ég niður á hann með líkamanum og stóllinn ýtir þá upp á við á móti mér.

Ég er nýbúinn að endurhlaða andlegu rafhlöðurnar þegar líkaminn bregst mér. Sumir verða heimskari því meira sem þeir rækta líkamann og sömuleiðis verða sumir gáfaðir menn gífurlega veiklulegir. Hafiði líka tekið eftir því að því ríkari og feitari sem viðskiptajöfrar verða því fátækari og veiklulegri verða börnin í Afríku?

Tilviljun? Ég held nú aldeilis ekki. Það þyrfti einhver að tala við hann Newton og spyrja hann hvað hann var að hugsa. Meiri kallinn.

Jæja, ég ætla leggjast undir feld og hvílast. Þegar ég vakna mun allt vera betra.

Kv. Helgi
























Lag dagsins: Broken eftir Lifehouse

Kvikmynd dagsins: The Bucket List - mæli hiklaust með henni; Jack Nicholson og Morgan Freeman beila sjaldan.

Tilvitnun dagsins:
I am only one,
But still I am one.
I cannot do everything,
But still I can do something;
And because I cannot do everything
I will not refuse to do the something that I can do.
- Edward Everett Hale