Sunday, August 26, 2007

Skólinn byrjaður og allt er skrítið

Jæja, þá er skólinn loks byrjaður. Ég og vinir mínir vorum að tala um hvað það væri gott að vera að fara aftur í skólann. Alveg þangað til að við komum aftur í skólann. Nú er minni frítími og sumir kennarar eru brjálaðari en aðrir. Það er reyndar frábært að hitta gömlu skólafélagana aftur (flesta, ekki alla) og vera með aðeins meiri félagseiningu nú þegar að borðið mitt (félagahóps míns, þ.e.a.s.) í skólanum hefur sameinast á ný. Busarnir eru líka orðnir svo litlir. Ég veit að ég er yfir meðalhæð og því gæti þetta bara verið sjónarhornið mitt, en flestir þessarra busa eru börn fyrir mér.

Æji, ég er bara að vera gamall. Er farinn að taka meira og meira eftir því hvað sumir fullorðnir sem að ég þekki virðast allt í einu ellilegir (engin nöfn nefnd til að hlífa tilfinningum sumra). Tímabil í lífi mínu tekur brátt enda. Menntaskólaaldurinn, þegar að þú fannst fyrir sigurtilfinningu ef að þú komst inn á eftirsóttan bar með aldurstakmark 22 ára, tókst enga almennilega ábyrgð og gast endurskapað þig. Ég verð bráðum ungur maður. Ég er bæði spenntur og hræddur. Hef ekki fundið fyrir því lengi.

Ég er að taka helling af áföngum (of mörgum, meira að segja) og er strax pínku smeykur við afbrotafræðina. Kennarinn hóf fyrsta tímann á því að hræða mig með vinnuálaginu. Ég hélt að þetta yrði sniðugur áfangi til að klára kjörsvið annarra brauta (FÉL263) og smá fjör síðustu önnina. Ónei.......þetta verður víti. ÖLLUM verkefnum VERÐUR að skila STRAX og allt verður að vera fullkomið, annars fæ ég ekki einu sinni að KÍKJA á lokaprófið. Annars bara allt í lagi áfangar, Þrautalausnir (stærðfræði), Strjál stærðfræði, Íslenskar nútímabókmenntir, Aflfræði og afstæðiskenningin, Rafmagnsfræði og Eðlisefnafræði. Nokkuð fín stundarskrá. Svo er ég líka í boltaleikfimi, sem er mesta fjör sem ég hef nokkurn tímann upplifað í líkamsrækt í skóla. Þetta er nákvæmlega það sem nafnið gefur til kynna, boltaleikir. Körfubolti, fótbolti, bandý, handbolti, badminton og allt annað sem notast við einhverja gerð af bolta.

Ég hef komist að nokkrum hlutum undanfarna daga sem að mér fannst bæði fyndnir og skrítnir. Í efnafræðitíma vorum við að ræða eiginleika ljóss, ljóshraða, ljósbrot og rafsegulbylgjur. Þá minntist kennarinn (sem mér finnst vera helvíti fínn) á það að augun okkar sjá ekki lit nema í 90° keilu, þ.e.a.s. 45° til beggja hliða. Hann lagði til smá tilraun til að sýna fram á þetta og ég bauð mig fram. Ég átti að standa og horfa beint áfram með kennarann til hliðar við mig (90°, svo nákvæmni sé gætt). Hann veifaði einhverju að mér og spurðu hvort að ég sæi þetta. Ég sá hreyfinguna en ég gat ekki tilgreint hvað þetta væri né hvernig það væri á litinn. Það var ekki fyrr en að hann kom í 45° við augun mín að ég gat sagt með einhverri vissu að þetta væri rauður tússpenni. Fram að því var þetta bara grá móða. Þetta kemur aðeins inn í þróunina á mannsauganu. Við getum greint hreyfingu í 180° fyrir framan framan okkur en þó ekki hvað það er fyrr en að við beinum augunum að því. Svalt.

Annað skrítið: það er *loksins* búið að reikna út kvenlega fegurð (var það ekki líka gert fyrir nokkrum árum?). Kvenleg fegurð, samkvæmt tveimur stærðfræðiprófessorum við Cambridge-háskólann, felst í hlutfallinu milli ummáls mittis og mjaðma. Hlutfallið 0,7 er talið vera mesta augnayndið. Jessica Alba er t.d. með fullkomin vöxt þar sem að hlutfallið hennar er nákvæmlega 0,7. Nautahægðir. Eintómar nautahægðir. Hvernig gagnast þetta heiminum? Ég VEIT hvað mér finnst flott og ég geri ráð fyrir því að flestir viti það líka. Ef að þú þarft tvo stærðfræðiprófessora til að segja þér hvað þér finnst flott ertu á villigötum, eða þá að þú ert mesta kind sem að þekkist (meh!). Þú getur ekki laðast að því sem að þér finnst ekki aðlaðandi. End of story.

Kv. Helgi

Tilvitnun dagsins: "You know you're getting old when the candles cost more than the cake." -Bob Hope

Lag dagsins: Hey There, Delilah eftir The Plain White T's

Aukapunktur dagsins: Minesweeper: The Movie, tær snilld

No comments: