Sunday, August 26, 2007

Skólinn byrjaður og allt er skrítið

Jæja, þá er skólinn loks byrjaður. Ég og vinir mínir vorum að tala um hvað það væri gott að vera að fara aftur í skólann. Alveg þangað til að við komum aftur í skólann. Nú er minni frítími og sumir kennarar eru brjálaðari en aðrir. Það er reyndar frábært að hitta gömlu skólafélagana aftur (flesta, ekki alla) og vera með aðeins meiri félagseiningu nú þegar að borðið mitt (félagahóps míns, þ.e.a.s.) í skólanum hefur sameinast á ný. Busarnir eru líka orðnir svo litlir. Ég veit að ég er yfir meðalhæð og því gæti þetta bara verið sjónarhornið mitt, en flestir þessarra busa eru börn fyrir mér.

Æji, ég er bara að vera gamall. Er farinn að taka meira og meira eftir því hvað sumir fullorðnir sem að ég þekki virðast allt í einu ellilegir (engin nöfn nefnd til að hlífa tilfinningum sumra). Tímabil í lífi mínu tekur brátt enda. Menntaskólaaldurinn, þegar að þú fannst fyrir sigurtilfinningu ef að þú komst inn á eftirsóttan bar með aldurstakmark 22 ára, tókst enga almennilega ábyrgð og gast endurskapað þig. Ég verð bráðum ungur maður. Ég er bæði spenntur og hræddur. Hef ekki fundið fyrir því lengi.

Ég er að taka helling af áföngum (of mörgum, meira að segja) og er strax pínku smeykur við afbrotafræðina. Kennarinn hóf fyrsta tímann á því að hræða mig með vinnuálaginu. Ég hélt að þetta yrði sniðugur áfangi til að klára kjörsvið annarra brauta (FÉL263) og smá fjör síðustu önnina. Ónei.......þetta verður víti. ÖLLUM verkefnum VERÐUR að skila STRAX og allt verður að vera fullkomið, annars fæ ég ekki einu sinni að KÍKJA á lokaprófið. Annars bara allt í lagi áfangar, Þrautalausnir (stærðfræði), Strjál stærðfræði, Íslenskar nútímabókmenntir, Aflfræði og afstæðiskenningin, Rafmagnsfræði og Eðlisefnafræði. Nokkuð fín stundarskrá. Svo er ég líka í boltaleikfimi, sem er mesta fjör sem ég hef nokkurn tímann upplifað í líkamsrækt í skóla. Þetta er nákvæmlega það sem nafnið gefur til kynna, boltaleikir. Körfubolti, fótbolti, bandý, handbolti, badminton og allt annað sem notast við einhverja gerð af bolta.

Ég hef komist að nokkrum hlutum undanfarna daga sem að mér fannst bæði fyndnir og skrítnir. Í efnafræðitíma vorum við að ræða eiginleika ljóss, ljóshraða, ljósbrot og rafsegulbylgjur. Þá minntist kennarinn (sem mér finnst vera helvíti fínn) á það að augun okkar sjá ekki lit nema í 90° keilu, þ.e.a.s. 45° til beggja hliða. Hann lagði til smá tilraun til að sýna fram á þetta og ég bauð mig fram. Ég átti að standa og horfa beint áfram með kennarann til hliðar við mig (90°, svo nákvæmni sé gætt). Hann veifaði einhverju að mér og spurðu hvort að ég sæi þetta. Ég sá hreyfinguna en ég gat ekki tilgreint hvað þetta væri né hvernig það væri á litinn. Það var ekki fyrr en að hann kom í 45° við augun mín að ég gat sagt með einhverri vissu að þetta væri rauður tússpenni. Fram að því var þetta bara grá móða. Þetta kemur aðeins inn í þróunina á mannsauganu. Við getum greint hreyfingu í 180° fyrir framan framan okkur en þó ekki hvað það er fyrr en að við beinum augunum að því. Svalt.

Annað skrítið: það er *loksins* búið að reikna út kvenlega fegurð (var það ekki líka gert fyrir nokkrum árum?). Kvenleg fegurð, samkvæmt tveimur stærðfræðiprófessorum við Cambridge-háskólann, felst í hlutfallinu milli ummáls mittis og mjaðma. Hlutfallið 0,7 er talið vera mesta augnayndið. Jessica Alba er t.d. með fullkomin vöxt þar sem að hlutfallið hennar er nákvæmlega 0,7. Nautahægðir. Eintómar nautahægðir. Hvernig gagnast þetta heiminum? Ég VEIT hvað mér finnst flott og ég geri ráð fyrir því að flestir viti það líka. Ef að þú þarft tvo stærðfræðiprófessora til að segja þér hvað þér finnst flott ertu á villigötum, eða þá að þú ert mesta kind sem að þekkist (meh!). Þú getur ekki laðast að því sem að þér finnst ekki aðlaðandi. End of story.

Kv. Helgi

Tilvitnun dagsins: "You know you're getting old when the candles cost more than the cake." -Bob Hope

Lag dagsins: Hey There, Delilah eftir The Plain White T's

Aukapunktur dagsins: Minesweeper: The Movie, tær snilld

Tuesday, August 14, 2007

Guð er dauður. Við drápum hann, við öll.

Ég rakst á yndislega viðbót við Firefox fyrir nokkru. Hún er þannig að ég skrái niður áhugamál og hluti sem að ég fíla og vista það hjá síðunni sem er tengd þessu forriti. Svo er takki í efra vinstra horninu á vafranum mínum sem að ég get ýtt á. Þegar að ég virkja hann þá fer hann með mig á einhverja "random" síðu sem að ég gæti haft áhuga á, út frá því sem að ég hakaði við á síðu forritsins. Snilldar græja. Hef séð svo marga snilldarlega hluti á þessu að öðru hvoru þegar að mér leiðist þá tek ég smá törn þar sem að ég flakka með þessum takka, aftur og aftur. Forritið heitir StumbleUpon.

Nokkrar snilldar síður sem að ég hef lent á:
Meat - ótrúlega fyndinn texti um geimverur og mannverur
What Socialism Means - góð lýsing á sósíalisma
Beer Advocate - skemmtileg fréttasíða um bjór
Double Wires - munið þið eftir gamla þyrlu leiknum? ekki ósvipað
Zen Sarcasm - fyndin orðatiltæki

Á einni af þessum "random" síðum er farið út í heimspekilegar útskýringar á Guði. Mjög svöl lesning. Þar rakst ég á mína útskýringu á Guði (God as "First Cause" argument), eða því sem næst. Önnur útskýring þar var mjög sniðug. Það er kenning Marx og Feuerbachs. Maðurinn skapaði Guð. Í augum Marx er Guð aðferð þeirra kúguðu til að sætta sig við ástæðurnar sem þeir lifa við: "It is the opium of the people".

Þó að ég sé ekki alveg sammála Marx og Feuerbach er mikið vit í fyrri hluta kenningu þeirra, að mínu mati. Guð skapaði ekki Manninn. Guð er ímynduð vera sköpuð úr vitund Manna. Merkilegt, við búum til veru sem við getum ekki sannað að sé til, er fullkomnari en allt, fyrr og síðar, og er skapari himins og jarðar. Trúin er merkilegt fyrirbæri.

Önnur kenning, sem er pínku fyndin, er þannig að þér sé tölfræðilega hollast að trúa á Guð. Ef að þú trúir á Guð og þú lifir góðu og syndlausu lífi, þá öðlastu himneska sælu á himnaríki þegar að þú deyrð. Ef Hann er ekki til, þá lifðir þú lífinu án þess að leyfa þér nokkrar syndir og ekkert gerist í dauðanum (and let's face it, þér er hvort er sama, þú ert dauður). Ef að þú trúir ekki á Guð og þú lifir syndugu lífi, þá ferðu rakleiðis til helvítis þegar að þú deyrð. Ef Hann er ekki til, þá lifðir þú syndugu lífi og komst upp með það. Til hamingju.
Spurning Pascals (sem setti fram þessa kenningu/útskýringu) er þessi: Hvaða heilvita maður myndi hætta á eilífa vist í helvíti í staðinn fyrir nokkrar syndir sem auðveldlega mætti sleppa?

Ég er mjög tvístígandi varðandi Guð. Ég þarf sannanir á svona stórum hlutum til að taka þá góða og gilda. Þó þori ég ekki annað en að lifa syndlausu lífi, eftir minni eigin sannfæringu.

Og þar kemur skýringin. Guð er eitthvað sem sumir nota til að styðja við sínar eigin siðferðislegu sannfæringar. Þeir sem að vilja ekki kynlíf fyrir giftingu (pffff) styðja við þessa sannfæringu þeirra með bók sem var skrifuð af mönnum. MÖNNUM. Guð kom ekki niður af himnum og gaf okkur fullkomna "reglubók" yfir siðferðisleg markmið mannanna. Biblían var skrifuð af mörgum mönnum sem voru með nokkurn veginn eins hugmyndir um hvað væri siðferðislega rétt.

Allir verða að fylgja eigin sannfæringu. Að sjálfsögðu eru sumir sem að skaða aðra með því að fara eftir sannfæringu þeirra, en þeir eru annað hvort asnar eða ekki-heilvita-menn. Stríð eru háð vegna mismunandi hugmynda um hvað sé rétt og hvað sé rangt, hver eigi rétt á hverju og hverjir hafi vald til að ákveða hvað.

Guð er siðferðisleg sannfæring margra milljóna manna "holdi klæddur". Hann stjórnar okkur ekki, við stjórnum honum. Allir eiga sinn eigin Guð. Það er bara tilviljun háð hvort að hann sé líkur Guði vinar þíns.

Kv. Helgi

Tilvitnun dagsins: "All God does is watch us and kill us when we get boring. We must never, ever be boring." -Chuck Palahniuk

Lag dagsins: One of Us eftir Joan Osborne. Hann gæti allt eins verið meðal okkar...

Aukapunktur dagsins: Planet Terror eftir Quentin Tarantino er snilldar mynd. Hún á að vera B-mynd og er því besta B-mynd sem að ég hef séð á allri ævi minni. Hann reynir ekki að hafa hana alvarlega (nema þegar að það er fyndið) og gerir frábæra gore-zombie-B-mynd. Two thumbs up!

Friday, August 3, 2007

Skömmusta, hollusta, þjónusta

Ég er snortinn. Einhver bað mig að blogga. Það var gert heldur harkalega og án kurteisi, en ég tek þessu samt sem hrósi. Gaman að fá smá feedback.

Um daginn barst umræða milli mín og vinkonu vinar míns til skömmustulegra hluta úr æsku. Þegar þú hugsar aftur til æskuáranna þinna finnst mér eins og maður muni betur eftir skömmustulegu atburðunum. Ég á miklu auðveldara með að muna þegar ég stórslasaði næstum því strák með snjósleða en afmælisveislunni minni sama ár. Ætli þetta sé inni í því að læra af mistökum? Maður lærir frekar af mistökum og man því betur eftir atburðum sem voru mistök? Pæling.

Ég hef verið einn heima alla þessa viku og ég hef ekki komið nálægt hollri máltíð. American Style, Dominos Pizza (fæ þær hvort er ókeypis) og aðrir staðir sem eru þekktir fyrir annað en næringaríkar máltíðir. Ég fór einmitt með Vidda á McDonald's núna á þriðjudaginn. Ég er ekki stoltur af því, en ég var svangur og latur.

Allavega, við komum inn um dyrnar 21:59:55 og búðin lokar 22:00. Samt var stúlkan í afgreiðslunni merkilega almennileg og mér fannst nánast eins og hún væri að daðra við mig. Þetta fíla ég. Ekki daðrið heldur það að ég sá hvað hún var þreytt og pirruð og samt var hún eins og áður sagði, merkilega almennileg (ok, ég fílaði samt líka daðrið). Ég vann/vinn í þjónustustarfi og veit að það er ósanngjarnt við kúnnann að vera taka persónulega gremju út á þeim (og þarna hugsaði ég á ensku). Flott hjá henni að láta þetta ekki bitna á kúnnanum (þarna kom íslenskan).

Keypti síðustu Harry Potter bókina um daginn og ég ætla að taka mig til og setja persónulegt met í að lesa heila bók. Heill dagur fyrir 1000 orð er núverandi metið, methinks. Gangi mér vel.

Kv. Helgi

Lag dagsins: Stronger eftir Kanye West í samstarfi við Daft Punk. Bara að heyra þessi tvö sení í sömu setningu er kúl. Ímyndið ykkur lagið...