Þá er ég loksins kominn upp úr kafi í bókalestri fyrir fyrstu önnina mína í verkfræði. Engin próf búin, bara aðeins að skipta um gír með smá skapandi skrifum eða hvað sem bloggskrif teljast til.
Önnin hefur verið sérstök, spennandi, erfið, ánægjuleg og helvísk. Stærðfræðin er erfiðust. Ég hef oft getað reiknað hluti fljótt því ég sé þá fyrir mér myndrænt. Ný hugtök innan stærðfræðinnar í línulegri algebru bjóða hins vegar ekki upp á slíkt. Þú getur ekki séð fyrir þér 4-vítt rúm og hvað þá n-víð rúm. Blöh. Sumir hlutir virðast líka vera tilgangslausir, eins og sjálfsmóta varpanir; það að varpa mengi í sjálft sig. Blegh.
Ég er byrjaður aftur í körfubolta þó ég sé nú á öðrum hraða en áður. Ég er sem stendur í 1.flokki Breiðabliks en stefni á það að koma mér aftur upp í meistaraflokk á næsta ári. Ég spila með spelku sem stendur vegna vinstra úlnliðsbrotsins (enn mjög viðkvæmur í úlnliðnum) og stefni á að drulla mér til sjúkraþjálfara eftir próf. Ég verð líka að koma mér í keppnis form á ný. Það hefur sína kosti að missa formið niður svona, ég hef þurft að bæta mig og skotið mitt því ég hef núna nánast engan hraða (ef ég hef þá haft einhvern hraða fyrir slysið).
Ég er farinn að taka myndavélina með mér næstum hvert sem ég fer, bara svona til öryggis. Myndavélin hefur líka þann skemmtilega fítus að ekkert heyrist þegar ég tek mynd, þannig að ég get oft tekið mynd án þess að fólk viti af því. Ég er skæruliðaljósmyndari. Ég hef líka í flestum tilfellum mjög gott myndefni því flestir vinirnir eru tilbúnir að brosa, gretta sig eða gera eitthvað fyndið fyrir myndavélina, þegar ég læt þau vita að ég sé að taka myndir af þeim.
Til að ljúka þessu, eitthvað gagnlaust - Litlir hlutir sem kæta mig og græta:
- að finna pening í gamalli yfirhöfn
- að vera vakinn kl.7:30 með píanóglamri litla bróður þegar ég gat sofið út
- að teygja allrækilega úr sér í rúminu sínu rétt áður en þú ferð að sofa
- að uppgötva of seint að eina klósettrúlla heimilisins er ekki í seilingarfjarlægð
- að finna þessa einu frábæru ljósmynd í 40 sæmilegum
- að brosa til einhvers niður í bæ sem ég þekki ekki og fá bros á móti
- að brosa til einhvers niður í bæ sem ég þekki ekki og vera laminn af kærastanum hennar
- að geta drullað úr mér einni bloggfærslu af og til
Tilneyddur Júdas,
Helgi Hrafn