Wednesday, June 18, 2008

Þjóðarstolt og Keltarnir

Ég var að klára að horfa á lokaþátt Boston Legal og ég vildi að ég hefði fylgst betur með séríunni.

Í lokaþættinum var bær í Massachusetts sem vildi skilja sig að frá Bandaríkjunum. Þau myndu aldrei vinna, en vildu fá pressuna og athyglina því að þeim þótti stefnan sem bandaríska ríkisstjórnin væri að taka væri röng og siðlaus.

Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér afhverju ég er Íslendingur. Er það bara því að ég fæddist á Íslandi. Þarf ekki meira til en það?

Afhverju ekki? Ég fór nýlega að gera vissar hugartilraunir sem mér finnnst gagnlegar. Hugsaðu þér eitthvað sem þú hefur gengið að vísu, sama hve lengi, og kryfðu það. Sem dæmi: Ég styð Vinstri græna. Afhverju? Sumir sem ég hef kynnst sem styðja Sjálfstæðisflokkinn svara "Af því bara". Ég efast reyndar líka um stuðning minn við Vinstri græna. Það er ekki því að ég er ekki sammála þeim, heldur því mér finnst ég hafa tekið of mikið þátt í starfi þeirra án þess í raun og veru að kynna mér málefnin. Ég veit að sjálfsögðu hvaða stefnur Vinstri græn og Ung vinstri græn taka varðandi hina og þessa hluti en mér finnst ég ekki nógu oft kryfja ástæðurnar. Ég fylgi þeim of mikið.

Þetta er það sem gerist allt of oft. Fólk sem fylgir Geir Haarde eða Steingrími J. gerir það (sumir, ekki allir) því að þeir hafa verið sammála þeim hingað til og efast því ekki um þá. En það verður að gera, fólk verður að efast. Við megum ekki vera kindur og fylgja forystusauðnum í blindni. Kynnum okkur málin og gerum það sem við teljum vera best fyrir okkur, því ef að við gerum það ekki eru ekki margir sem gera það fyrir okkur.

En aftur að þjóðarstolti og hvað það er að vera Íslendingur. Ég tel mig vera stoltan Íslending og kemst í uppnám ef einhver segir eitthvað á móti Íslandi. Þetta er staðhæfing sem ég vil kryfja. Ég væri alveg jafn stoltur ef að ég væri fæddur í Noregi eða Englandi. Það er líka ekki endilega það að einhver segi eitthvað á móti Íslandi heldur segir eitthvað sem er ekki á rökum reist eða eitthvað sem á ekki við um alla, t.d. það að íslenskar stelpur séu lauslátar. Ef einhver segði að honum fyndist Íslendingar keyra frekar meira en þörf krefði miðað við fólksfjölda og aðstæður myndi ég líklegast ekki móðgast ef mér þætti hann rökstyðja málið og segja þetta án fordóma. Sumir stoltir Íslendingar myndu eflaust verða sármóðgaðir og fara í vörn.

Er þjóðarstolt að taka upp hanskann fyrir land þitt þó þú vitir að það sem það geri sé ekki rétt? Að styðja ríkisstjórnina því að hún náði meirihlutakjöri landsmanna? Mark Twain sagði eitt sinn að skilgreiningin á föðurlandsvini væri sá sem gæti hrópað hæst án þess að vita um hvað hann væri að hrópa. Sniðugur maður, hann Mark Twain. Þegar einhver lýsir því yfir að hann sé föðurlandsvinur er það dálítið oft til að útskýra gjörðir hans. Afhverju? Píndu hermennirnir í Abu Ghraib fanganna því að þeir elskuðu Bandaríkin svo rosa, rosa mikið? Nei, þeir gerðu það því þeir voru hræddir. Þeir sem eru hræddir skilja oftast ekki hvað þeir eru hræddir við. Er einhverja útskýringu að finna í því?

Þú ræður ekki þjóðerni þínu, en þú getur að sjálfsögðu ráðið hvort þú sért stoltur að vera Íslendingur, Bandaríkjamaður eða Keníabúi. Það sem maður verður þó að hafa í huga er það að nota það ekki sem afsökun.

-Helgi

P.S.: Ég vil óska öllum Boston-búum og áðdáendum Boston Celtics til hamingju. Celtics eru bestir í ár og verða það vonandi nokkur ár í viðbót. BOSTON CELTICS UNNU!!! BIG THREE!!!!!WHOOOHOOOO!!!!!!

Sunday, June 8, 2008

Ég læri meira á morgun

Ok, ég er að læra fyrir inntökuprófið í læknadeild og er að taka mér hlé núna áður en ég fer að sofa. Þetta hlé verður nýtt í það að rjúfa blogg-þögn mína.

Ég var að surfa á netinu og fann myndband þar sem verið var að taka viðtal við nokkrar klámstjörnur og þær voru rosalega almennilegar og kurteisar. Þeir sem hafa verið í Bandaríkjunum hafa eflaust tekið eftir því hvað flestir fullorðnir Bandaríkjamenn eru kurteisir og hálfgerðar teprur. Ég tók eftir því að þær virtust fara framhjá öllum viðteknum orðum á kynfærum og töluðu undir rós (má beygja þetta? "að tala undir rós"?). Þau gátu ekki talað um það að ríða eða neitt þess háttar. Mér finnst þetta merkilegt. Þau hafa atvinnu af því að gera allskonar óheyrilega hluti, sem flestir telja niðurlægjandi og ósiðlega, en geta síðan ekki talað hreint út um það. Er þetta almennur tepruskapur Bandaríkjamanna eða reyna þau að dempa það ósiðlega í þessu með kurteisishjali og einhverju?

Nú ætla ég að ganga út frá því að allir sem lesa þetta hafa á einhverjum tímapunkti í lífi sínu séð klámmynd. Fyrir framan vélarnar eru klámstjörnurnar gallharðar og með sóðakjaft. Svo verða þær að kurteisum og indælum persónum þegar vélarnar hætta að rúlla. Afhverju? Ég veit að ég haga mér öðruvísi í starfinu mínu en mér finnst þetta frekar mikil breyting.

Sem sagt:
Fagmennska fyrir framan myndavélarnar eða skammast þau sín þegar starfið er búið?
Tepruskapur BNA eða á þetta við alls staðar í heiminum í klámbransanum?
Eru evrópskar klámstjörnur frjálslyndari en bandarískar?

You decide...

This has been a public service announcement courtesy of: Helgi