Ég vil muna eftir þessari ferð til Boston svo ég ætla að rifja upp allt sem gerðist og get þá kannski litið á þetta eftir nokkur ár og brosað (vonandi).
Ég gerði það hins vegar ekki nógu fljótt. Vegna anna og gleymsku þá skrifaði ég ekkert niður nema fyrsta kvöldið og allt hitt rennur saman. Nú sé ég greinilega hve mikilvægt er að setja minningar og hugmyndir á blað sem fyrst. Allt sem ég skrifaði var eftirfarandi:
Á heildina litið var þetta frábær ferð, tveir NBA-leikir, góður matur og góð stemming og allt mjög gaman.Fyrir það fyrsta sat ég við hliðina á mjög skemmtilegri stelpu á leiðinni út. Hún var hálfgerð fagkona í flugferðum (ferðast nokkuð) og hafði átt heima í Kanada og víðar. Ég fékk númerið hennar og ætla heyra í henni þegar hún snýr aftur til Íslands. [Uppfært: Það varð ekkert úr því.]Þegar við lentum biðu frændi minn og frænka eftir okkur og við fórum heim til þeirra í mat. Hægeldaðir kjúklingar þar sem kjötið beinlínis lak af beinunum. Namm. Grænmetið var eldað með í sama fati með kryddum og var mjúkt og gott. Eftir matinn ræddum við heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna (tveir læknar, sálfræðingur, geðhjúkrunarfræðingur, læknanemi og ég sátum til borðs) fram og til baka. Mér þykir þetta kerfi ótrúlegt og ekki á góðan hátt. Skrifa kannski meira um það seinna.
...og þetta var allt heila klabbið sem ég skrifaði. Upp úr stendur í restinni af ferðinni að leikirnir voru fjörugir, ég komst að því að ég gat ekki keypt bjór á ökuskírteininu mínu heldur þurfti ég vegabréfið mitt til þess og þyngdist um 4-5 kg á 10 dögum. Sem betur fer hafði ég náð að brenna duglega fyrir jól (einmitt ca. 4-5 kg) þannig að þetta kom út á sléttu.
Ferðin var á heildina litið frábær.
Annars er það að frétta af mér núna að ég er að fara flytja inn í íbúð í Kópavogi, ætla klára grunnnámið í íþróttafræði næsta vetur og stefni á að spila með Breiðablik og hugsanlega þjálfa yngri flokk hjá þeim í vetur. En meira um allt það seinna. Farinn að njóta frídaganna minna.