Tuesday, May 6, 2008

I'm sorry Dave, I'm afraid I can't do that.

Gervigreind hefur í langan tíma verið fyrir suma vísindamenn hinn heilagi kaleikur, tölvugreind sem getur lært, rökhugsað, átt samskipti við manneskjur og séð fyrir atburði.

Ég sá fyrir nokkru fyrirlestur hjá Jeff Hawkins sem hefur verið að krukka í mannsheilanum í þó nokkurn tíma. Hann kvartaði m.a. yfir því að það væri ekki til nein algild kenning um mannsheilann. Það er til aragrúi af upplýsingum og gögnum um mannsheilann en það er enn engin kenning um hann. Jeff var ekki með kenningu um mannsheilann en kom með áhugaverða kenningu um greind manns.

Greind mannverunnar er byggð á hæfni hennar til að sjá hluti fyrir, allavega að hluta. Heilabörkurinn er krumpaða yfirborð heilans. Það liggur ofan á eðlislæga hluta heilans og minnið okkar er geymt í honum. Á meðan að við erum að upplifa venjubundinn dag í lífi okkar er heilabörkurinn að safna upplýsingum og tengja atburði saman. Ef að eitthvað sem við gerum leiðir til einhvers annars þá leggur heilabörkurinn það á minnið. Þegar að við lendum svo í svipuðum aðstæðum eða nákvæmlega þeim sömu þá spáir heilinn fyrir um hvað muni gerast. Þetta er að sjálfsögðu ekki ávísun á að það muni gerast en heilinn gerir að litlum hluta ráð fyrir því. Ef það gerist ekki þá spáir hann því fyrir að annaðhvort þetta eða hitt muni gerast. Hann þróar spárnar eftir upplifunum.

Gott dæmi um þetta er ef að einhver myndi færa hurðarhúninn á útidyrahurðinni þinni nokkra sentimetra til hægri eða vinstri á meðan að þú værir að heiman. Þegar að þú kæmir svo heim myndir þú taka eftir að eitthvað væri breytt. Það tæki þig kannski sekúndu að fatta hvað væri að, en þú tækir eftir breytingunni. Þetta er vegna þess að heilabörkurinn er að spá fyrir um *allt*. Hvar hurðarhúninn á að vera, það að vatnsglas með raka utan á sé líklegast blautt og kalt og að þegar þú leggur höndina á borð þá á höndin að stoppa þegar hún kemur að yfirborði borðsins. Heilabörkurinn spáir fyrir um allt. Það kæmi þér á óvart ef að þú héldir steini metra frá jörðinni, slepptir honum og hann félli ekki til jarðar. Þetta er ekki bara vegna þess að þú þekkir til áhrifa þyngdarafls, heilabörkurinn spáir því að steininn falli til jarðar.

Þetta telur Jeff Hawkins að verði að vera hluti í heilakenningunni sem sé á leiðinni, forspá og tengingar. Tölvur eru ólíkar mannsheilanum að því leyti að þær fara í gegnum allan gagnagrunninn sinn á meðan að við tengjum hluti saman. Ég veit strax að ég hef heyrt lag áður þegar ég heyri það og ég man stefið og kannski textann. Tölvan mun hins vegar fara í gegnum allan gagnagrunninn sinn af lögum og svo fatta að hún hefur heyrt lagið áður. Mannsheilinn lærir gegnum tengingar.

Ég vonast til að lifa nógu lengi til að mæta tölvu sem ég get rætt við. Það gæti gerst á næsta áratug eða ekki fyrr en ég er kominn á eftirlaun. Ég tel sömuleiðis að tölvur framtíðar muni ekki vera byggðar upp eins og þær eru í dag. Þegar algild heilakenning kemur fram er ekki ólíklegt að tölvur muni breytast samhliða því, að þær verði byggðar með mannsheilann í huga, þ.e.a.s. meira en nú. Tölvur sem geta lært, spáð fyrir, tengt ólíka hluti saman og kannski meira að segja haft tilfinningar.

Ég get ekki beðið.

Kv.Helgi

PS: Vonandi lifi ég þó ekki nógu lengi til að þurfa að upplifa vélmenna-uppreisnina. Það væri samt svalt að vera Neo, bara með persónuleika (já, þetta var skot á Keanu Reeves).

PS2: Hérna er fyrirlesturinn um heilakenninguna:


PS3: Fann mjög svalt blogg áðan sem fylgist með áhugaverðum hlutum sem stefna að framtíðinni. Check it out.